Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Leviticus Þriðja Mósebók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27

1 Þessi eru ákvæðin um sektarfórnina: Hún er háheilög.
2 Þar sem brennifórninni er slátrað, skal og sektarfórninni slátrað, og skal stökkva blóði hennar allt í kring utan á altarið.
3 Og öllum mörnum úr henni skal fórna: rófunni, netjunni, sem hylur iðrin,
4 báðum nýrunum, nýrnamörnum, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðinu. Við nýrun skal taka það frá.
5 Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórn Drottni til handa. Er það sektarfórn.
6 Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana; á helgum stað skal hún etin; hún er háheilög.
7 Skal með sektarfórn farið á sama hátt og syndafórn; eru sömu ákvæði um báðar: Presturinn, sem með þeim friðþægir, skal fá þær.
8 Presturinn, sem fram ber brennifórn einhvers manns, skal fá skinnið af brennifórninni, sem hann fram ber.
9 Og sérhverja matfórn, sem í ofni er bökuð eða tilreidd í suðupönnu eða á steikarpönnu, fái presturinn, sem fram ber hana.
10 En sérhver matfórn, olíublönduð eða þurr, skal tilheyra öllum sonum Arons, svo einum sem öðrum.
11 Þessi eru ákvæðin um heillafórnina, sem Drottni er færð:
12 Ef einhver fram ber hana til þakkargjörðar, þá skal hann auk þakkarfórnarinnar fram bera ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð og olíublandaðar kökur, hrærðar úr fínu mjöli.
13 Ásamt kökum úr sýrðu deigi skal hann fram bera þessa fórnargáfu sína, auk heilla-þakkarfórnarinnar.
14 Og hann skal af henni fram bera eina köku af hverri tegund fórnargáfunnar sem fórnargjöf Drottni til handa. Skal presturinn, er stökkvir blóði heillafórnarinnar, fá hana.
15 En kjötið af heilla-þakkarfórninni skal etið sama dag sem fórnin er fram borin. Eigi skal geyma neitt af því til morguns.
16 Sé sláturfórn hans heitfórn eða sjálfviljug fórn, þá skal hún etin sama dag sem hann fram ber sláturfórn sína. Þó má eta það, sem af gengur, daginn eftir.
17 En það, sem verður eftir af kjöti sláturfórnarinnar á þriðja degi, skal brenna í eldi.
18 En sé á þriðja degi nokkuð etið af kjöti heillafórnarinnar, þá mun það eigi verða velþóknanlegt, það skal eigi tilreiknast þeim, er fram bar það. Það skal talið skemmt kjöt. Á hverjum þeim, er etur af því, skal misgjörð hvíla.
19 Og það kjöt, sem komið hefir við eitthvað óhreint, skal eigi eta, heldur skal brenna það í eldi. Hvað kjötið að öðru leyti snertir, þá má hver, sem hreinn er, kjöt eta.
20 En hver sá, sem etur kjöt af heillafórn, sem Drottni er færð, á meðan hann er óhreinn, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.
21 Og hver sem snertir nokkuð óhreint, hvort heldur það er óhreinn maður eða óhrein skepna, eða hvaða óhrein viðurstyggð sem er, og etur þó af heillafórnarkjöti, sem Drottni er fært, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni."
22 Drottinn talaði við Móse og sagði:
23 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Engan mör úr nautum, sauðum eða geitum megið þér eta.
24 En mör úr sjálfdauðum skepnum eða dýrrifnum má nota til hvers sem vera skal, en með engu móti megið þér eta hann.
25 Því að hver sá, sem etur mör úr þeirri skepnu, sem Drottni er færð eldfórn af, sá sem etur hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.
26 Eigi skuluð þér heldur nokkurs blóðs neyta í neinum af bústöðum yðar, hvorki úr fuglum né fénaði.
27 Hver sá, er nokkurs blóðs neytir, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni."
28 Drottinn talaði við Móse og sagði:
29 "Tala til Ísraelsmanna og seg: Sá sem færir Drottni heillafórn skal sjálfur fram bera fórnargjöf sína fyrir Drottin af heillafórninni.
30 Með sínum eigin höndum skal hann fram bera eldfórnir Drottins: Mörinn ásamt bringunni skal hann fram bera, bringuna til þess að veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni,
31 og skal presturinn brenna mörinn á altarinu, en bringuna skal Aron og synir hans fá.
32 Og af heillafórnum yðar skuluð þér gefa prestinum hægra lærið að fórnargjöf.
33 Sá af sonum Arons, er fram ber blóðið úr heillafórninni og mörinn, skal fá hægra lærið í sinn hluta.
34 Því að bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, hefi ég tekið af Ísraelsmönnum, af heillafórnum þeirra, og gefið það Aroni presti og sonum hans. Er það ævinleg skyldugreiðsla, sem á Ísraelsmönnum hvílir.
35 Þetta er hluti Arons og hluti sona hans af eldfórnum Drottins, á þeim degi, sem hann leiddi þá fram til þess að þjóna Drottni í prestsembætti,
36 sem Drottinn bauð að Ísraelsmenn skyldu greiða þeim, á þeim degi, sem hann smurði þá. Er það ævinleg skyldugreiðsla hjá þeim frá kyni til kyns."
37 Þetta eru ákvæðin um brennifórnir, matfórnir, syndafórnir, sektarfórnir, vígslufórnir og heillafórnir,
38 sem Drottinn setti Móse á Sínaífjalli, þá er hann bauð Ísraelsmönnum, að þeir skyldu færa Drottni fórnargjafir sínar í Sínaí-eyðimörk.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]