Joshua Jósúabók
1 Morguninn eftir reis Jósúa árla. Lögðu þeir nú upp frá Sittím og komu að Jórdan, hann og allir Ísraelsmenn, og voru þar um nóttina, áður þeir færu yfir um.
2 En að þremur dögum liðnum fóru tilsjónarmennirnir um allar herbúðirnar
3 og buðu lýðnum og sögðu: "Þegar þér sjáið sáttmálsörk Drottins, Guðs yðar, og levítaprestana bera hana, þá leggið upp frá yðar stað og farið á eftir henni.
4 Látið þó vera um tveggja þúsund álna bil millum yðar og hennar og komið ekki nærri henni. Megið þér þá vita, hvaða veg þér eigið að fara, því að þér hafið aldrei farið þann veg áður."
5 Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Helgið yður, því að á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar."
6 Og við prestana sagði Jósúa: "Takið upp sáttmálsörkina og farið yfir um á undan lýðnum." Þeir tóku þá upp sáttmálsörkina og fóru yfir um á undan lýðnum.
7 Drottinn sagði við Jósúa: "Í dag mun ég taka til að mikla þig í augsýn alls Ísraels, svo að þeir megi vita, að ég er með þér, eins og ég var með Móse.
8 En bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, á þessa leið: Þegar þér komið í vatnsbrúnina í Jórdan, þá nemið þar staðar í ánni."
9 Og Jósúa sagði við Ísraelsmenn: "Komið hingað og heyrið orð Drottins, Guðs yðar!"
10 Og Jósúa mælti: "Af þessu skuluð þér vita mega, að lifandi Guð er á meðal yðar og að hann vissulega mun stökkva burt undan yður Kanaanítum, Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum:
11 Sjá, sáttmálsörk hans, sem er Drottinn allrar veraldar, mun fara á undan yður út í Jórdan.
12 Veljið yður nú tólf menn af ættkvíslum Ísraels, einn mann af ættkvísl hverri.
13 Og þegar prestarnir, sem bera sáttmálsörk Drottins, hans sem er Drottinn allrar veraldar, stíga fæti í vatn Jórdanar, þá mun vatnið í Jórdan stöðvast, vatnið, sem ofan að kemur, og standa sem veggur."
14 Fólkið tók sig nú upp úr tjöldum sínum til þess að fara yfir um Jórdan, og prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, fóru fyrir lýðnum.
15 Og er þeir, sem örkina báru, komu að Jórdan, og prestarnir, sem báru örkina, drápu fótum sínum í vatnsbrúnina (en Jórdan flóði yfir alla bakka allan kornskurðartímann),
16 þá stóð vatnið kyrrt, það er ofan að kom, og hófst upp sem veggur mjög langt burtu, við Adam, borgina, sem liggur hjá Sartan. En það sem rann niður til vatnsins á sléttlendinu, Saltasjós, rann allt til þurrðar. Og lýðurinn fór yfir um gegnt Jeríkó.
17 En prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu kyrrir á þurru mitt í Jórdan, meðan allur Ísrael fór yfir um á þurru, þar til er allt fólkið var komið yfir um Jórdan.