Ruth Rutarbók
1 Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel?
2 Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum.
3 Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið.
4 En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."
5 Og hún svaraði henni: "Ég vil gjöra allt, sem þú segir."
6 Síðan gekk hún ofan í láfann og gjörði allt svo sem tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt.
7 Er Bóas hafði etið og drukkið og var í góðu skapi, þá fór hann og lagðist til hvíldar við endann á kornbingnum. Þá kom hún hljóðlega, fletti upp ábreiðunni til fóta honum og lagðist niður.
8 En um miðnætti varð manninum bilt við, og er hann settist upp, sjá, þá lá kona til fóta honum.
9 Og hann sagði: "Hver ert þú?" Hún svaraði: "Ég er Rut ambátt þín. Breið þú væng þinn yfir ambátt þína, því að þú ert lausnarmaður."
10 Þá sagði hann: "Blessuð sért þú af Drottni, dóttir mín! Þú hefir nú síðast sýnt elsku þína enn betur en áður, með því að elta ekki ungu mennina, hvorki fátækan né ríkan.
11 Og ver þú nú óhrædd, dóttir mín. Að öllu, svo sem þú segir, mun ég við þig gjöra, því að allir samborgarmenn mínir vita, að þú ert væn kona.
12 Nú er það að vísu satt, að ég er lausnarmaður, en þó er til annar lausnarmaður, sem er nákomnari en ég.
13 Vertu hér í nótt, en á morgun, ef hann þá vill leysa þig, gott og vel, þá gjöri hann það, en vilji hann ekki leysa þig, þá mun ég leysa þig, svo sannarlega sem Drottinn lifir. Liggðu nú kyrr til morguns."
14 Hún lá til fóta honum til morguns. Þá stóð hún upp, áður en menn gátu þekkt hvor annan. Því að hann hugsaði: "Það má eigi spyrjast, að konan hafi komið í láfann."
15 Og hann sagði: "Kom þú með möttulinn, sem þú ert í, og haltu honum út." Og hún hélt honum út. Þá mældi hann sex mæla byggs og lyfti á hana. Síðan fór hún inn í borgina.
16 Er Rut kom til tengdamóður sinnar, mælti hún: "Hvernig gekk þér, dóttir mín?" Þá sagði hún henni frá öllu því, er maðurinn hafði við hana gjört.
17 Og hún sagði: "Þessa sex mæla byggs gaf hann mér, því að hann sagði: ,Þú mátt ekki fara heim til tengdamóður þinnar með tvær hendur tómar.'"
18 Þá sagði Naomí: "Ver þú nú kyrr, dóttir mín, uns þú fréttir, hvernig málum lýkur, því að maðurinn mun ekki hætta fyrr en hann leiðir þetta mál til lykta í dag."