1 Chronicles Fyrri kroníkubók
1 Að því er snertir hliðvarðaflokkana, þá voru þar af Kóraítum: Meselemja Kóreson af Asafsniðjum.
2 En synir Meselemja voru: Sakaría, frumgetningurinn, annar Jedíael, þriðji Sebadja, fjórði Jatníel,
3 fimmti Elam, sjötti Jóhanan, sjöundi Elíóenaí.
4 Synir Óbeð Edóms voru: Semaja, frumgetningurinn, annar Jósabad, þriðji Jóa, fjórði Sakar, fimmti Netaneel,
5 sjötti Ammíel, sjöundi Íssakar, áttundi Pegúlletaí, því að Guð hafði blessað hann.
6 En Semaja, syni hans, fæddust og synir, er réðu í ættum sínum, því að þeir voru hinir röskustu menn.
7 Synir Semaja voru: Otní, Refael, Óbeð og Elsabat. Bræður þeirra voru Elíhú og Semakja, dugandi menn.
8 Allir þessir voru af niðjum Óbeð Edóms, þeir og synir þeirra og bræður, dugandi menn, vel hæfir til þjónustunnar, sextíu og tveir alls frá Óbeð Edóm.
9 Meselemja átti og sonu og bræður, dugandi menn, átján alls.
10 Synir Hósa, er var af Meraríniðjum, voru: Simrí höfðingi; þótt eigi væri hann frumgetningurinn, þá gjörði faðir hans hann að höfðingja;
11 annar Hilkía, þriðji Tebalja, fjórði Sakaría. Synir og bræður Hósa voru þrettán alls.
12 Þessum hliðvarðaflokkum eftir ætthöfðingjum hlotnaðist starf við þjónustuna í húsi Drottins, þeim sem frændum þeirra.
13 Og menn vörpuðu hlutkesti um hvert hlið fyrir sig, eftir ættum, yngri sem eldri.
14 Fyrir hliðið gegnt austri féll hluturinn á Selemja. Menn vörpuðu og hlutkesti fyrir Sakaría son hans, hygginn ráðgjafa, og féll hans hlutur á hliðið gegnt norðri,
15 fyrir Óbeð Edóm gegnt suðri, og fyrir son hans á geymsluhúsið,
16 fyrir Súppím og Hósa gegnt vestri við Sallekethliðið, við götuna, sem liggur upp eftir, hver varðstöðin við aðra.
17 Við hliðið gegnt austri voru sex levítar, gegnt norðri fjórir dag hvern, gegnt suðri fjórir dag hvern, og við geymsluhúsið tveir og tveir.
18 Við Parbar gegnt vestri: fjórir fyrir götuna, tveir fyrir Parbar.
19 Þessir eru hliðvarðaflokkarnir af Kóraítaniðjum og af Meraríniðjum.
20 Levítar frændur þeirra höfðu umsjón með fjársjóðum Guðs húss og með helgigjafafjársjóðunum.
21 Niðjar Laedans, niðjar Gersoníta, Laedans, ætthöfðingjar Laedansættar Gersoníta, Jehíelítar,
22 niðjar Jehíelíta, Setam og Jóel bróðir hans höfðu umsjón með fjársjóðum í húsi Drottins.
23 Að því er snertir Amramíta, Jíseharíta, Hebroníta og Ússíelíta,
24 þá var Sebúel Gersómsson, Mósesonar, yfirumsjónarmaður yfir fjársjóðunum.
25 Og að því er snertir frændur þeirra frá Elíeser, þá var Rehabja sonur hans, hans son Jesaja, hans son Jóram, hans son Sikrí, hans son Selómít.
26 Höfðu þeir Selómít þessi og bræður hans umsjón með öllum helgigjafafjársjóðunum, þeim er Davíð konungur og ætthöfðingjarnir, þúsundhöfðingjarnir og hundraðshöfðingjarnir og herforingjarnir höfðu helgað -
27 úr ófriði og af herfangi höfðu þeir helgað það til þess að endurbæta með musteri Drottins,
28 og allt, er Samúel sjáandi, Sál Kísson, Abner Nersson og Jóab Serújuson höfðu helgað, allt hið helgaða, var undir umsjón Selómíts og bræðra hans.
29 Af Jíseharítum höfðu þeir Kenanja og synir hans á hendi hin veraldlegu störf í Ísrael, sem embættismenn og dómarar.
30 Af Hebronítum höfðu þeir Hasabja og frændur hans, dugandi menn, seytján hundruð alls, á hendi stjórnarstörf Ísraels hérna megin Jórdanar, að vestanverðu. Stóðu þeir fyrir öllum störfum Drottins og þjónustu konungs.
31 Til Hebroníta taldist Jería, höfðingi Hebroníta eftir kyni þeirra og ættum - voru þeir kannaðir á fertugasta ríkisári Davíðs, og fundust meðal þeirra hinir röskustu menn í Jaser í Gíleað -
32 og frændur hans, röskir menn, tvö þúsund og sjö hundruð ætthöfðingjar alls. Setti Davíð konungur þá yfir Rúbensniðja, Gaðsniðja og hálfa kynkvísl Manasseniðja, að því er snertir öll erindi Guðs og erindi konungsins.