Daniel Daníel
1 Á fyrsta ríkisári Belsasars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum, og sýnir bar fyrir hann í rekkju hans. Síðan skrásetti hann drauminn og sagði frá aðalatriðunum.
2 Daníel hóf upp og sagði: Ég sá í sýn minni á næturþeli, hversu þeir fjórir vindar himinsins rótuðu upp hinu mikla hafi.
3 Og fjögur stór dýr stigu upp af hafinu, hvert öðru ólíkt.
4 Fyrsta dýrið líktist ljóni og hafði arnarvængi. Ég horfði á það, þar til er vængir þess voru reyttir af því, og því var lyft upp frá jörðinni og reist á fæturna eins og maður, og því var fengið mannshjarta.
5 Og sjá, þá kom annað dýr, hið annað í röðinni. Það var líkt bjarndýri. Það var risið upp á aðra hliðina og hafði þrjú rif í munni sér milli tannanna. Til þess var mælt: "Statt upp og et mikið kjöt."
6 Eftir þetta sá ég enn dýr, líkt pardusdýri, og hafði það fjóra fuglsvængi á síðunum. Þetta dýr hafði fjögur höfuð, og því var vald gefið.
7 Eftir þetta sá ég í nætursýnum fjórða dýrið. Það var hræðilegt, ógurlegt og yfirtaks öflugt. Það hafði stórar járntennur, át og muldi sundur, og það, sem eftir varð, tróð það sundur með fótunum. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og hafði tíu horn.
8 Ég athugaði hornin og sá þá, hvar annað lítið horn spratt upp milli þeirra, og þrjú af fyrri hornunum voru slitin upp fyrir það. Og sjá, þetta horn hafði augu, eins og mannsaugu, og munn, sem talaði gífuryrði.
9 Ég horfði og horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. Klæði hans voru hvít sem snjór og höfuðhár hans sem hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því eldur brennandi.
10 Eldstraumur gekk út frá honum, þúsundir þúsunda þjónuðu honum og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum. Dómendurnir settust niður og bókunum var flett upp.
11 Ég horfði og horfði vegna hinna háværu stóryrða, sem hornið talaði, þar til er dýrið var drepið, líkami þess eyðilagður og honum kastað í eld til að brennast.
12 Vald hinna dýranna var og frá þeim tekið og þeim afmarkað lífskeið til ákveðins tíma og stundar.
13 Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann.
14 Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.
15 Út af þessu varð ég, Daníel, sturlaður, og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig.
16 Ég gekk þá til eins af þeim, er þar stóðu, og bað hann um áreiðanlega skýring á öllu þessu. Hann talaði til mín og sagði mér svofellda þýðing alls þessa:
17 Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja það, að fjórir konungar munu hefjast á jörðinni,
18 en hinir heilögu Hins hæsta munu eignast ríkið, og þeir munu halda ríkinu ævinlega og um aldir alda.
19 Þá vildi ég fá áreiðanlega vitneskju um fjórða dýrið, sem var ólíkt öllum hinum dýrunum, ógurlegt mjög, með járntönnum og eirklóm, sem át, knosaði og sundur tróð með fótunum það, sem það leifði,
20 svo og um hornin tíu, sem voru á höfði þess, og um hitt hornið, sem þar spratt upp og þrjú hornin féllu fyrir, þetta horn, sem hafði augu og munn, er talaði gífuryrði og meira var ásýndum en hin.
21 Ég horfði á, hvernig horn þetta háði stríð við hina heilögu og hafði sigur yfir þeim,
22 þar til er hinn aldraði kom og hinir heilögu Hins hæsta fengu náð rétti sínum og sá tími kom, að hinir heilögu settust að völdum.
23 Hann sagði svo: Fjórða dýrið merkir, að fjórða konungsríkið mun rísa upp á jörðinni, sem ólíkt mun verða öllum hinum konungsríkjunum, og það mun upp svelgja öll lönd, niður troða þau og sundur merja.
24 Og hornin tíu merkja það, að af þessu ríki munu upp koma tíu konungar, og annar konungur mun upp rísa eftir þá, og hann mun verða ólíkur hinum fyrri, og þremur konungum mun hann steypa.
25 Hann mun orð mæla gegn Hinum hæsta, kúga hina heilögu Hins hæsta og hafa í hyggju að umbreyta helgitíðum og lögum, og þeir munu honum í hendur seldir verða um eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð.
26 En dómurinn mun settur verða og hann sviptur völdum til þess að afmá þau með öllu og að engu gjöra.
27 En ríki, vald og máttur allra konungsríkja, sem undir himninum eru, mun gefið verða heilögum lýð Hins hæsta. Ríki hans mun verða eilíft ríki, og öll veldi munu þjóna því og hlýða.
28 Hér er það mál á enda. En mig, Daníel, skelfdu hugsanir mínar mjög, svo að ég gjörðist litverpur, og ég geymdi þetta í hjarta mínu.