Joel Jóel
1 (3:6) Sjá, á þeim dögum og í þann tíð, er ég sný við högum Júda og Jerúsalem,
2 (3:7) vil ég saman safna öllum þjóðum og færa þær ofan í Jósafatsdal og ganga þar í dóm við þær vegna lýðs míns og arfleifðar minnar Ísraels, af því að þeir hafa dreift henni meðal heiðingjanna og skipt sundur landi mínu.
3 (3:8) Þeir köstuðu hlutum um lýð minn og gáfu svein fyrir skækju og seldu mey fyrir vín og drukku.
4 (3:9) Og hvað viljið þér mér, Týrus og Sídon og öll héruð Filisteu! Ætlið þér að gjalda mér það, sem yður hefir gjört verið, eða ætlið þér að gjöra mér eitthvað? Afar skyndilega mun ég láta gjörðir yðar koma sjálfum yður í koll.
5 (3:10) Þér hafið rænt silfri mínu og gulli og flutt bestu gersemar mínar í musteri yðar.
6 (3:11) Júdamenn og Jerúsalembúa hafið þér selt Íónum til þess að flytja þá langt burt frá átthögum þeirra.
7 (3:12) Sjá, ég mun kalla þá frá þeim stað, þangað sem þér hafið selt þá, og ég mun láta gjörðir yðar koma sjálfum yður í koll.
8 (3:13) Og ég mun selja sonu yðar og dætur Júdamönnum, og þeir munu selja þá Sabamönnum, fjarlægri þjóð, því að Drottinn hefir sagt það.
9 (3:14) Boðið þetta meðal þjóðanna: Búið yður í heilagt stríð! Kveðjið upp kappana! Allir herfærir menn komi fram og fari í leiðangur!
10 (3:15) Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar! Heilsuleysinginn hrópi: "Ég er hetja!"
11 (3:16) Flýtið yður og komið, allar þjóðir sem umhverfis eruð, og safnist saman. Drottinn, lát kappa þína stíga niður þangað!
12 (3:17) Hreyfing skal koma á þjóðirnar og þær skulu halda upp í Jósafatsdal, því að þar mun ég sitja til þess að dæma allar þjóðirnar, sem umhverfis eru.
13 (3:18) Bregðið sigðinni, því að kornið er fullþroskað, komið og troðið, því að vínlagarþróin er full, það flóir út af lagarkerunum, því að illska þeirra er mikil.
14 (3:19) Flokkarnir þyrpast saman í dómsdalnum, því að dagur Drottins er nálægur í dómsdalnum.
15 (3:20) Sól og tungl eru myrk orðin, og stjörnurnar hafa misst birtu sína.
16 (3:21) En Drottinn þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem, svo að himinn og jörð nötra. En Drottinn er athvarf sínum lýð og vígi Ísraelsmönnum.
17 (3:22) Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar, sem bý á Síon, mínu heilaga fjalli. Og Jerúsalem skal vera heilög og útlendingar skulu ekki framar inn í hana koma.
18 (3:23) Á þeim degi munu fjöllin löðra í vínberjalegi og hálsarnir fljóta í mjólk og allir lækir í Júda renna vatnsfullir. Og lind mun fram spretta undan húsi Drottins og vökva dal akasíutrjánna.
19 (3:24) Egyptaland mun verða að öræfum og Edóm að óbyggðri eyðimörk, sökum ofríkis við Júdamenn, af því að þeir úthelltu saklausu blóði í landi þeirra.
20 (3:25) En Júda mun eilíflega byggt verða og Jerúsalem frá kyni til kyns.
21 (3:26) Og ég mun láta hefnt verða blóðs þeirra, sem ég hefi ekki enn hefnt, og Drottinn mun búa kyrr á Síon.