Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Micah Míka

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7

1 Vei mér, því að það hefir farið fyrir mér eins og þegar ávöxtum er safnað, eins og við eftirtíning vínberjatekju: ekkert vínber eftir til að eta, engin árfíkja, er mig langaði í.
2 Guðhræddir menn eru horfnir úr landinu, og ráðvandir eru ekki til meðal mannanna, þeir sitja allir um að fremja morð og reyna að veiða hver annan í net.
3 Til ills eru báðar hendur fram réttar. Höfðinginn heimtar og dómarinn dæmir gegn endurgjaldi. Og stórmennið er bermált um það, sem hjarta hans girnist, og þeir flækja málin.
4 Hinn besti meðal þeirra er sem þyrnir og hinn ráðvandasti verri en þyrnigerði. Dagurinn sem varðmenn þínir hafa talað um, hegningardagur þinn, kemur. Þá verða þeir úrræðalausir.
5 Trúið eigi kunningja yðar, treystið eigi vini, gæt dyra munns þíns fyrir henni, sem hvílir í faðmi þínum.
6 Því að sonurinn fyrirlítur föður sinn, dóttirin setur sig upp á móti móður sinni, tengdadóttirin á móti tengdamóður sinni, heimilismennirnir eru óvinir húsbónda síns.
7 Ég vil mæna til Drottins, bíða eftir Guði hjálpræðis míns! Guð minn mun heyra mig!
8 Hlakka eigi yfir mér, fjandkona mín, því þótt ég sé fallin, rís ég aftur á fætur, þótt ég sitji í myrkri, þá er Drottinn mitt ljós.
9 Reiði Drottins vil ég þola - því að ég hefi syndgað á móti honum - þar til er hann sækir sök mína og lætur mig ná rétti mínum. Hann mun leiða mig út til ljóssins, ég mun horfa ánægð á réttlæti hans.
10 Fjandkona mín mun sjá það, og smán mun hylja hana, hún sem nú segir við mig: "Hvar er Drottinn, Guð þinn?" Augu mín munu horfa hlakkandi á hana, þá mun hún verða troðin niður eins og saur á strætum.
11 Sá dagur kemur, að múrar þínir verða endurreistir, þann dag munu landamerki þín færast mikið út.
12 Á þeim degi munu menn koma til þín frá Assýríu allt til Egyptalands og frá Egyptalandi allt til Efrats, frá hafi til hafs og frá fjalli til fjalls.
13 En jörðin mun verða að auðn vegna íbúa hennar, sökum ávaxtarins af gjörðum þeirra.
14 Gæt þú þjóðar þinnar með staf þínum, sauða arfleifðar þinnar, þeirra sem byggja einir sér kjarrskóginn innan um aldingarðana. Lát þá ganga í Basanshaglendi og í Gíleað eins og forðum daga.
15 Lát hana sjá undur, eins og þegar þú fórst af Egyptalandi.
16 Þjóðirnar skulu sjá það og verða til skammar, þrátt fyrir allan styrkleika sinn. Þær munu leggja höndina á munninn, eyru þeirra munu verða heyrnarlaus.
17 Þær munu sleikja duft eins og höggormur, eins og kvikindi, sem skríða á jörðinni, skjálfandi skulu þær koma fram úr fylgsnum sínum, líta hræddar til Drottins, Guðs vors, og óttast þig.
18 Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra, - sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur?
19 Þú munt aftur miskunna oss, troða niður misgjörðir vorar. Já, þú munt varpa öllum syndum vorum í djúp hafsins.
20 Þú munt auðsýna Jakob trúfesti og Abraham miskunnsemi, eins og þú sórst feðrum vorum forðum daga.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]