Zechariah Sakaría
1 Upp lúk dyrum þínum, Líbanon, til þess að eldur geti eytt sedrustrjám þínum.
2 Kveina þú, kýprestré, yfir því að sedrustréð er fallið. Kveinið þér, Basans eikur, yfir því að hinn þykki skógurinn liggur við velli.
3 Heyr, hversu hirðarnir kveina, af því að prýði þeirra er eyðilögð. Heyr, hversu ungljónin öskra, af því að vegsemd Jórdanar er eydd.
4 Svo sagði Drottinn, Guð minn: Hald til haga skurðarsauðunum,
5 er kaupendur þeirra slátra að ósekju, og seljendur þeirra segja: "Lofaður sé Drottinn, nú er ég orðinn ríkur!" og hirðar þeirra vægja þeim ekki.
6 Því að nú vil ég ekki framar vægja íbúum landsins - segir Drottinn - heldur framsel ég nú sjálfur mennina, hvern í hendur konungi sínum. Þeir munu eyða landið, og ég mun engan frelsa undan valdi þeirra.
7 Þá hélt ég til haga skurðarsauðunum fyrir fjárkaupmennina, og tók ég mér tvo stafi. Kallaði ég annan þeirra Hylli og hinn Sameining. Gætti ég nú fjárins
8 og afmáði þrjá hirða á einum mánuði. Varð ég leiður á þeim, og þeir höfðu einnig óbeit á mér.
9 Þá sagði ég: "Ég vil ekki gæta yðar. Deyi það sem deyja vill, farist það sem farast vill, og það sem þá verður eftir, eti hvað annað upp."
10 Síðan tók ég staf minn Hylli og braut í sundur til þess að bregða þeim sáttmála, sem ég hafði gjört við allar þjóðir.
11 En er honum var brugðið á þeim degi, þá könnuðust fjárkaupmennirnir við, þeir er gáfu mér gaum, að þetta var orð Drottins.
12 Þá sagði ég við þá: "Ef yður þóknast, þá greiðið mér kaup mitt, en að öðrum kosti látið það vera!" Þá vógu þeir mér þrjátíu sikla silfurs í kaup mitt.
13 En Drottinn sagði við mig: "Kasta þú því til leirkerasmiðsins, hinu dýra verðinu, er þú varst metinn af þeim!" Og ég tók þá þrjátíu sikla silfurs og kastaði þeim til leirkerasmiðsins í musteri Drottins.
14 Síðan braut ég sundur hinn stafinn, Sameining, til þess að bregða upp bræðralaginu milli Júda og Ísrael.
15 Því næst sagði Drottinn við mig: Tak þér enn verkfæri heimsks hirðis,
16 því að sjá, ég ætla sjálfur að láta hirði rísa upp í landinu, sem vitjar ekki þess, sem er að farast, leitar ekki þess, sem villst hefir, græðir ekki hið limlesta, annast ekki hið heilbrigða, heldur etur kjötið af feitu skepnunum og rífur klaufirnar af þeim.
17 Vei hinum ónýta hirði, sem yfirgefur sauðina. Glötun komi yfir armlegg hans og yfir hægra auga hans! Armleggur hans visni gjörsamlega, og hægra auga hans verði steinblint.