Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Matthew Matteusarguðspjall

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28

1 Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina
2 og sagði við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér.
3 Ef einhver hefur orð um, þá svarið: ,Herrann þarf þeirra við,' og mun hann jafnskjótt senda þau."
4 Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:
5 Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.
6 Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim,
7 komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak.
8 Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn.
9 Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: "Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!"
10 Þegar hann kom inn í Jerúsalem, varð öll borgin í uppnámi, og menn spurðu: "Hver er hann?"
11 Fólkið svaraði: "Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu."
12 Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna
13 og mælti við þá: "Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,' en þér gjörið það að ræningjabæli."
14 Blindir og haltir komu til hans í helgidóminum, og hann læknaði þá.
15 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: "Hósanna syni Davíðs!" Þeir urðu gramir við
16 og sögðu við hann: "Heyrir þú, hvað þau segja?" Jesús svaraði þeim: "Já, hafið þér aldrei lesið þetta: ,Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof.'"
17 Og hann fór frá þeim og úr borginni til Betaníu og hafði þar náttstað.
18 Árla morguns hélt hann aftur til borgarinnar og kenndi hungurs.
19 Hann sá fíkjutré eitt við veginn og gekk að því, en fann þar ekkert nema blöðin tóm. Hann segir við það: "Aldrei framar vaxi ávöxtur á þér að eilífu." En fíkjutréð visnaði þegar í stað.
20 Lærisveinarnir sáu þetta, undruðust og sögðu: "Hvernig gat fíkjutréð visnað svo fljótt?"
21 Jesús svaraði þeim: "Sannlega segi ég yður: Ef þér eigið trú og efist ekki, getið þér ekki aðeins gjört slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þér gætuð enda sagt við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,' og svo mundi fara.
22 Allt sem þér biðjið í bæn yðar, munuð þér öðlast, ef þér trúið."
23 Hann gekk í helgidóminn. Þá komu æðstu prestarnir og öldungar lýðsins til hans, þar sem hann var að kenna, og spurðu: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?"
24 Jesús svaraði þeim: "Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.
25 Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?" Þeir ráðguðust hver við annan og sögðu: "Ef vér svörum: ,Frá himni,' spyr hann: ,Hví trúðuð þér honum þá ekki?'
26 Ef vér segjum: ,Frá mönnum,' megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann."
27 Og þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Hann sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.
28 Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: ,Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.'
29 Hann svaraði: ,Það vil ég ekki.' En eftir á sá hann sig um hönd og fór.
30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ,Já, herra,' en fór hvergi.
31 Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?" Þeir svara: "Sá fyrri." Þá mælti Jesús: "Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.
32 Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.
33 Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.
34 Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn.
35 En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja.
36 Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.
37 Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: "Þeir munu virða son minn.
38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.'
39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
40 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?"
41 Þeir svara: "Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma."
42 Og Jesús segir við þá: "Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.
43 Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.
44 [Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.]"
45 Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá.
46 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]