Mark Markúsarguðspjall
Chapter:
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
1 Þaðan fór Jesús og kom í ættborg sína, og lærisveinar hans fylgdu honum.
2 Þegar hvíldardagur var kominn, tók hann að kenna í samkundunni, og þeir mörgu, sem á hlýddu, undruðust stórum. Þeir sögðu: "Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans?
3 Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá oss?" Og þeir hneyksluðust á honum.
4 Þá sagði Jesús: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændum og heimamönnum."
5 Og hann gat ekki gjört þar neitt kraftaverk, nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá.
6 Og hann undraðist vantrú þeirra. Hann fór nú um þorpin þar í kring og kenndi.
7 Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum.
8 Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti.
9 Þeir skyldu hafa skó á fótum, en ekki tvo kyrtla.
10 Og hann sagði við þá: "Hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.
11 En hvar sem ekki er tekið við yður né á yður hlýtt, þaðan skuluð þér fara og hrista dustið af fótum yðar þeim til vitnisburðar."
12 Þeir lögðu af stað og prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun,
13 ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá.
14 Heródes konungur frétti þetta, enda var nafn Jesú orðið víðfrægt. Sögðu sumir: "Jóhannes skírari er risinn upp frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."
15 Aðrir sögðu: "Hann er Elía," enn aðrir: "Hann er spámaður eins og spámennirnir fornu."
16 Þegar Heródes heyrði þetta, sagði hann: "Jóhannes, sem ég lét hálshöggva, hann er upp risinn."
17 En Heródes hafði sent menn að taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns. Hann hafði gengið að eiga hana,
18 en Jóhannes hafði sagt við Heródes: "Þú mátt ekki eiga konu bróður þíns."
19 Þess vegna lagði Heródías fæð á Jóhannes og vildi deyða hann, en gat ekki,
20 því að Heródes hafði beyg af honum og verndaði hann, þar eð hann vissi, að hann var maður réttlátur og heilagur. Hann komst í mikinn vanda, þegar hann hlýddi á mál hans, en þó var honum ljúft að hlusta á hann.
21 En nú kom hentugur dagur; á afmæli sínu gjörði Heródes veislu gæðingum sínum, hershöfðingjum og fyrirmönnum Galíleu.
22 Dóttir Heródíasar gekk þar inn og sté dans. Hún hreif Heródes og gesti hans, og konungur sagði við stúlkuna: "Bið mig hvers þú vilt, og mun ég veita þér."
23 Og hann sór henni: "Hvað sem þú biður um, það mun ég veita þér, allt að helmingi ríkis míns."
24 Hún gekk þá út og spurði móður sína: "Um hvað á ég að biðja?" Hún svaraði: "Höfuð Jóhannesar skírara."
25 Jafnskjótt skundaði hún til konungs og bað hann: "Gef mér þegar á fati höfuð Jóhannesar skírara."
26 Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna vildi hann ekki synja henni þessa,
27 heldur sendi þegar varðmann og bauð að færa sér höfuð Jóhannesar. Hann fór og hjó af höfuð Jóhannesar í fangelsinu,
28 kom með höfuð hans á fati og færði stúlkunni, en stúlkan móður sinni.
29 Þegar lærisveinar hans fréttu þetta, komu þeir, tóku lík hans og lögðu í gröf.
30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt.
31 Hann sagði við þá: "Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund." En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.
32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað.
33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim.
34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.
35 Þá er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið.
36 Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar."
37 En hann svaraði þeim: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svara honum: "Eigum vér að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara og gefa þeim að eta?"
38 Jesús spyr þá: "Hve mörg brauð hafið þér? Farið og gætið að." Þeir hugðu að og svöruðu: "Fimm brauð og tvo fiska."
39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa.
40 Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum.
41 Og hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra.
42 Og þeir neyttu allir og urðu mettir.
43 Þeir tóku saman brauðbitana, er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar.
44 En þeir, sem brauðanna neyttu, voru fimm þúsund karlmenn.
45 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan yfir til Betsaídu, meðan hann sendi fólkið brott.
46 Og þá er hann hafði kvatt það, fór hann til fjalls að biðjast fyrir.
47 Þegar kvöld var komið, var báturinn á miðju vatni, en hann einn á landi.
48 Hann sá, að þeim var þungur róðurinn, því að vindur var á móti þeim, og er langt var liðið nætur kemur hann til þeirra, gangandi á vatninu, og ætlar fram hjá þeim.
49 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu, hugðu þeir, að þar færi vofa, og æptu upp yfir sig.
50 Því að allir sáu þeir hann og varð þeim bilt við. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."
51 Og hann sté í bátinn til þeirra og lægði þá vindinn. Og þeir urðu öldungis agndofa,
52 enda höfðu þeir ekki skilið það, sem gjörst hafði með brauðin, hjörtu þeirra voru blind.
53 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret og lögðu þar að.
54 Um leið og þeir stigu úr bátnum, þekktu menn hann.
55 Og fólk tók að streyma fram og aftur um allt það hérað og bera sjúklinga í burðarrekkjum hvert þangað, sem þeir heyrðu, að hann væri.
56 Og hvar sem hann kom í þorp, borgir eða á bæi, lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann, að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans, og allir þeir, sem snertu hann, urðu heilir.