Luke Lúkasarguðspjall
1 Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,
2 í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.
3 Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,
4 eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.
5 Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur.
6 Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.
7 Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?
8 Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.' Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.
9 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað."
10 Mannfjöldinn spurði hann: "Hvað eigum vér þá að gjöra?"
11 En hann svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."
12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: "Meistari, hvað eigum vér að gjöra?"
13 En hann sagði við þá: "Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt."
14 Hermenn spurðu hann einnig: "En hvað eigum vér að gjöra?" Hann sagði við þá: "Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar."
15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.
16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.
17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."
18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.
19 Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört.
20 Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.
21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist,
22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."
23 En Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt. Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí,
24 sonar Mattats, sonar Leví, sonar Melkí, sonar Jannaí, sonar Jósefs,
25 sonar Mattatíass, sonar Amoss, sonar Naúms, sonar Eslí, sonar Naggaí,
26 sonar Maats, sonar Mattatíass, sonar Semeíns, sonar Jóseks, sonar Jóda,
27 sonar Jóhanans, sonar Hresa, sonar Serúbabels, sonar Sealtíels, sonar Nerí,
28 sonar Melkí, sonar Addí, sonar Kósams, sonar Elmadams, sonar Ers,
29 sonar Jesú, sonar Elíesers, sonar Jóríms, sonar Mattats, sonar Leví,
30 sonar Símeons, sonar Júda, sonar Jósefs, sonar Jónams, sonar Eljakíms,
31 sonar Melea, sonar Menna, sonar Mattata, sonar Natans, sonar Davíðs,
32 sonar Ísaí, sonar Óbeðs, sonar Bóasar, sonar Salmons, sonar Naksons,
33 sonar Ammínadabs, sonar Admíns, sonar Arní, sonar Esroms, sonar Peres, sonar Júda,
34 sonar Jakobs, sonar Ísaks, sonar Abrahams, sonar Tara, sonar Nakórs,
35 sonar Serúgs, sonar Reú, sonar Pelegs, sonar Ebers, sonar Sela,
36 sonar Kenans, sonar Arpaksads, sonar Sems, sonar Nóa, sonar Lameks,
37 sonar Metúsala, sonar Enoks, sonar Jareds, sonar Mahalalels, sonar Kenans,
38 sonar Enoss, sonar Sets, sonar Adams, sonar Guðs.