1 Thessalonians Fyrra Þessaloníkubréf
1 En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað.
2 Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu.
3 Þegar menn segja: "Friður og engin hætta", þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.
4 En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur.
5 Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu.
6 Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.
7 Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni.
8 En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.
9 Guð hefur ekki ætlað oss til að verða reiðinni að bráð, heldur til að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist,
10 sem dó fyrir oss, til þess að vér mættum lifa með honum, hvort sem vér vökum eða sofum.
11 Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan, eins og þér og gjörið.
12 Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður.
13 Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra. Lifið í friði yðar á milli.
14 Vér áminnum yður, bræður: Vandið um við þá, sem óreglusamir eru, hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.
15 Gætið þess, að enginn gjaldi neinum illt með illu, en keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hver við annan og við alla aðra.
16 Verið ætíð glaðir.
17 Biðjið án afláts.
18 Þakkið alla hluti, því að það er vilji Guðs með yður í Kristi Jesú.
19 Slökkvið ekki andann.
20 Fyrirlítið ekki spádómsorð.
21 Prófið allt, haldið því, sem gott er.
22 En forðist allt illt, í hvaða mynd sem er.
23 En sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists.
24 Trúr er sá, er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar.
25 Bræður, biðjið fyrir oss!
26 Heilsið öllum bræðrunum með heilögum kossi.
27 Ég bið og brýni yður í Drottins nafni, að þér látið lesa bréf þetta upp fyrir öllum bræðrunum.
28 Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með yður.