Hebrews Hebreabréfið
1 Höfuðinntak þess, sem sagt hefur verið, er þetta: Vér höfum þann æðsta prest, er settist til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum.
2 Hann er helgiþjónn helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem Drottinn reisti, en eigi maður.
3 Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera.
4 Væri hann nú á jörðu, mundi hann alls ekki vera prestur, þar sem þeir eru fyrir, sem samkvæmt lögmálinu bera fram gjafirnar.
5 En þeir þjóna eftirmynd og skugga hins himneska, eins og Móse fékk bendingu um frá Guði, er hann var að koma upp tjaldbúðinni: "Gæt þess," segir hann, "að þú gjörir allt eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu."
6 En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála, sem byggist á betri fyrirheitum.
7 Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið þörf fyrir annan.
8 En nú ávítar Guð þá og segir: Sjá, dagar koma, segir Drottinn, er ég mun gjöra nýjan sáttmála við hús Ísraels og við hús Júda,
9 ekki eins og sáttmálann, er ég gjörði við feður þeirra á þeim degi, er ég tók í hönd þeirra til að leiða þá út af Egyptalandi, því að þeir héldu ekki minn sáttmála, og ég hirti eigi um þá, segir Drottinn.
10 Þetta er sáttmálinn, sem ég mun gjöra við hús Ísraels eftir þá daga, segir Drottinn: Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra. Ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.
11 Og enginn mun þá kenna landa sínum og enginn bróður sínum og segja: "Þekktu Drottin!" Allir munu þeir þekkja mig, jafnt smáir sem stórir.
12 Því að ég mun vera vægur við misgjörðir þeirra og ég mun ekki framar minnast synda þeirra.
13 Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála, þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan. En það, sem er að úreldast og fyrnast, er að því komið að verða að engu.