James Jakobsbréfið
1 Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar?
2 Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki.
3 Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!
4 Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.
5 Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma, sem segir: "Þráir Guð ekki með afbrýði andann, sem hann gaf bústað í oss?"
6 En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: "Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð."
7 Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.
8 Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.
9 Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð.
10 Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.
11 Talið ekki illa hver um annan, bræður. Sá sem talar illa um bróður sinn eða dæmir bróður sinn, talar illa um lögmálið og dæmir lögmálið. En ef þú dæmir lögmálið, þá ert þú ekki gjörandi lögmálsins, heldur dómari.
12 Einn er löggjafinn og dómarinn, sá sem getur frelsað og tortímt. En hver ert þú, sem dæmir náungann?
13 Heyrið, þér sem segið: "Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!" -
14 Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun. Því að þér eruð gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan.
15 Í stað þess ættuð þér að segja: "Ef Drottinn vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað."
16 En nú stærið þér yður í oflátungsskap. Allt slíkt stærilæti er vont.
17 Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd.