Revelation Opinberunarbókin
1 Og einn af englunum sjö, sem halda á skálunum sjö, kom til mín og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér dóminn yfir skækjunni miklu, sem er við vötnin mörgu.
2 Konungar jarðarinnar hafa drýgt saurlifnað með henni, og þeir, sem á jörðinni búa, hafa orðið drukknir af saurlifnaðar víni hennar."
3 Og hann leiddi mig burt í anda á eyðimörk. Og ég sá konu sitja á skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum, og hafði það sjö höfuð og tíu horn.
4 Og konan var skrýdd purpura og skarlati, og var búin gulli og gimsteinum og perlum. Hún hafði í hendi sér gullbikar, fullan viðurstyggðar, og var það óhreinleikur saurlifnaðar hennar.
5 Og á enni hennar var ritað nafn, sem er leyndardómur: Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.
6 Og ég sá að konan var drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta. Og ég undraðist stórlega, er ég leit hana.
7 Og engillinn sagði við mig: "Hví ertu forviða? Ég mun segja þér leyndardóm konunnar og dýrsins, sem hana ber, þess er hefur höfuðin sjö og hornin tíu:
8 Dýrið, sem þú sást, var, en er ekki, og það mun stíga upp frá undirdjúpinu og fara til glötunar. Og þeir, sem á jörðu búa, þeir, sem eiga ekki nöfn sín skrifuð í lífsins bók frá grundvöllun veraldar, munu undrast, er þeir sjá dýrið sem var og er ekki og kemur aftur.
9 Hér reynir á skilning og speki. Höfuðin sjö eru sjö fjöll, sem konan situr á. Það eru líka sjö konungar.
10 Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt.
11 Og dýrið, sem var, en er ekki, er einmitt hinn áttundi, og er af þeim sjö, og fer til glötunar.
12 Og hornin tíu, sem þú sást, eru tíu konungar, sem enn hafa eigi tekið konungdóm, heldur fá vald sem konungar eina stund ásamt dýrinu.
13 Þessir hafa allir eitt ráð, og máttinn og vald sitt gefa þeir dýrinu.
14 Þessir munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá, - því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga."
15 Og hann segir við mig: "Vötnin, sem þú sást, þar sem skækjan situr, eru lýðir og fólk, þjóðir og tungur.
16 Og hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi,
17 því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn og vera samráða og gefa ríki þeirra dýrinu, allt til þess er orð Guðs koma fram.
18 Og konan, sem þú sást, er borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar."