Genesis Fyrsta Mósebók
1 Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum.
2 Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar
3 og mælti: "Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum.
4 Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu.
5 Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, - síðan getið þér haldið áfram ferðinni, - úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar." Og þeir svöruðu: "Gjörðu eins og þú hefir sagt."
6 Þá flýtti Abraham sér inn í tjaldið til Söru og mælti: "Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla hveitimjöls, hnoðaðu það og bakaðu kökur."
7 Og Abraham skundaði til nautanna og tók kálf, ungan og vænan, og fékk sveini sínum, og hann flýtti sér að matbúa hann.
8 Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust.
9 Þá sögðu þeir við hann: "Hvar er Sara kona þín?" Hann svaraði: "Þarna inni í tjaldinu."
10 Og Drottinn sagði: "Vissulega mun ég aftur koma til þín að ári liðnu í sama mund, og mun þá Sara kona þín hafa eignast son." En Sara heyrði þetta í dyrum tjaldsins, sem var að baki hans.
11 En Abraham og Sara voru gömul og hnigin á efra aldur, svo að kvenlegir eðlishættir voru horfnir frá Söru.
12 Og Sara hló með sjálfri sér og mælti: "Eftir að ég er gömul orðin, skyldi ég þá á munúð hyggja, þar sem bóndi minn er einnig gamall?"
13 Þá sagði Drottinn við Abraham: "Hví hlær Sara og segir: ,Mun það satt, að ég skuli barn fæða svo gömul?'
14 Er Drottni nokkuð ómáttugt? Á sinni tíð að vori mun ég aftur koma til þín, og Sara hefir þá eignast son."
15 Og Sara neitaði því og sagði: "Eigi hló ég," því að hún var hrædd. En hann sagði: "Jú, víst hlóst þú."
16 Því næst tóku mennirnir sig upp þaðan og horfðu niður til Sódómu, en Abraham gekk með þeim til að fylgja þeim á veg.
17 Þá sagði Drottinn: "Skyldi ég dylja Abraham þess, sem ég ætla að gjöra,
18 þar sem Abraham mun verða að mikilli og voldugri þjóð, og allar þjóðir jarðarinnar munu af honum blessun hljóta?
19 Því að ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu Drottins með því að iðka rétt og réttlæti, til þess að Drottinn láti koma fram við Abraham það, sem hann hefir honum heitið."
20 Og Drottinn mælti: "Hrópið yfir Sódómu og Gómorru er vissulega mikið, og synd þeirra er vissulega mjög þung.
21 Ég ætla því að stíga niður þangað til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um. En sé eigi svo, þá vil ég vita það."
22 Og mennirnir sneru í brott þaðan og héldu til Sódómu, en Abraham stóð enn þá frammi fyrir Drottni.
23 Og Abraham gekk fyrir hann og mælti: "Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu?
24 Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru?
25 Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?"
26 Og Drottinn mælti: "Finni ég í Sódómu fimmtíu réttláta innan borgar, þá þyrmi ég öllum staðnum þeirra vegna."
27 Abraham svaraði og sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.
28 Vera má, að fimm skorti á fimmtíu réttláta. Munt þú eyða alla borgina vegna þessara fimm?" Þá mælti hann: "Eigi mun ég eyða hana, finni ég þar fjörutíu og fimm."
29 Og Abraham hélt áfram að tala við hann og mælti: "Vera má, að þar finnist ekki nema fjörutíu." En hann svaraði: "Vegna þeirra fjörutíu mun ég láta það ógjört."
30 Og hann sagði: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu." Og hann svaraði: "Ég mun ekki gjöra það, finni ég þar þrjátíu."
31 Og hann sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin! Vera má, að þar finnist ekki nema tuttugu." Og hann mælti: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tuttugu."
32 Og hann mælti: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Vera má að þar finnist aðeins tíu." Og hann sagði: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tíu."
33 Og Drottinn fór í brott, er hann hafði lokið tali sínu við Abraham, en Abraham hvarf aftur heimleiðis.