Genesis Fyrsta Mósebók
1 Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: "Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum'?"
2 Þá sagði konan við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta,
3 en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,' sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.'"
4 Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja!
5 En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills."
6 En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.
7 Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.
8 En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum.
9 Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: "Hvar ertu?"
10 Hann svaraði: "Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig."
11 En hann mælti: "Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?"
12 Þá svaraði maðurinn: "Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át."
13 Þá sagði Drottinn Guð við konuna: "Hvað hefir þú gjört?" Og konan svaraði: "Höggormurinn tældi mig, svo að ég át."
14 Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: "Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga.
15 Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess."
16 En við konuna sagði hann: "Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér."
17 Og við manninn sagði hann: "Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ,Þú mátt ekki eta af því,' þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga.
18 Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar.
19 Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!"
20 Og maðurinn nefndi konu sína Evu, því að hún varð móðir allra, sem lifa.
21 Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim.
22 Drottinn Guð sagði: "Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!"
23 Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af.
24 Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.