Exodus Önnur Mósebók
1 Því næst héldu þeir af stað frá Elím, og allur söfnuður Ísraelsmanna kom til Sín-eyðimerkur, sem liggur milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi hins annars mánaðar eftir burtför þeirra úr Egyptalandi.
2 Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni.
3 Og Ísraelsmenn sögðu við þá: "Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri."
4 Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki.
5 Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega."
6 Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: "Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi.
7 Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?"
8 Og Móse sagði: "Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni."
9 Og Móse sagði við Aron: "Seg við allan söfnuð Ísraelsmanna: ,Gangið nær í augsýn Drottins, því að hann hefir heyrt möglanir yðar.'"
10 Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu.
11 Drottinn talaði við Móse og sagði:
12 "Ég hefi heyrt möglanir Ísraelsmanna. Tala til þeirra og seg: ,Um sólsetur skuluð þér kjöt eta, og að morgni skuluð þér fá saðning yðar af brauði, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar.'"
13 Um kveldið bar svo við, að lynghæns komu og huldu búðirnar, en um morguninn var döggmóða umhverfis búðirnar.
14 En er upp létti döggmóðunni, lá eitthvað þunnt, smákornótt yfir eyðimörkinni, þunnt eins og héla á jörðu.
15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: "Hvað er þetta?" Því að þeir vissu ekki, hvað það var. Þá sagði Móse við þá: "Þetta er brauðið, sem Drottinn gefur yður til fæðu.
16 En þessi er skipun Drottins: ,Safnið því, eftir því sem hver þarf að eta. Þér skuluð taka einn gómer á mann eftir fólksfjölda yðar, hver handa þeim, sem hann hefir í tjaldi sínu.'"
17 Og Ísraelsmenn gjörðu svo, og söfnuðu sumir meira, sumir minna.
18 En er þeir mældu það í gómer-máli, hafði sá ekkert afgangs, sem miklu hafði safnað, og þann skorti ekki, sem litlu hafði safnað, heldur hafði hver safnað eftir því sem hann þurfti sér til fæðu.
19 Móse sagði við þá: "Enginn má leifa neinu af því til morguns."
20 En þeir hlýddu ekki Móse, heldur leifðu sumir nokkru af því til morguns. En þá kviknuðu maðkar í því, svo að það fúlnaði, og varð Móse þá reiður þeim.
21 Þeir söfnuðu því þá hvern morgun, hver eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. En þegar sólin skein heitt, bráðnaði það.
22 En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá.
23 En hann sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn sagði: ,Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur Drottins. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns.'"
24 Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði.
25 Þá sagði Móse: "Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur Drottins. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni.
26 Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast."
27 Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert.
28 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög?
29 Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum."
30 Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.
31 Ísraelsmenn kölluðu þetta brauð manna. Það líktist kóríanderfræi, var hvítt og á bragðið sem hunangskaka.
32 Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: ,Fyllið einn gómer af því til þess að geyma það handa eftirkomendum yðar, svo að þeir sjái það brauð, sem ég gaf yður að eta í eyðimörkinni, er ég leiddi yður út af Egyptalandi.'"
33 Þá sagði Móse við Aron: "Tak eitt ker og lát í það fullan gómer af manna, og legg það til geymslu frammi fyrir Drottni, svo að það varðveitist handa eftirkomendum yðar."
34 Aron lagði það fyrir framan sáttmálið, til þess að það væri þar geymt, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, uns þeir komu í byggt land. Þeir átu manna, uns þeir komu að landamærum Kanaanlands.
36 En gómer er tíundi partur af efu.