Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Exodus Önnur Mósebók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40

1 Drottinn sagði við Móse: "Far nú héðan með fólkið, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, til þess lands, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það.'
2 Ég vil senda engil á undan þér og reka burt Kanaaníta, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, -
3 til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, því að ekki vil ég sjálfur fara þangað með þér, af því að þú ert harðsvíraður lýður, að eigi tortími ég þér á leiðinni."
4 En er fólkið heyrði þennan ófögnuð, urðu þeir hryggir, og enginn maður bjó sig í skart.
5 Þá sagði Drottinn við Móse: "Seg Ísraelsmönnum: ,Þér eruð harðsvíraður lýður. Væri ég eitt augnablik með þér á leiðinni, mundi ég tortíma þér. Legg nú af þér skart þitt, svo að ég viti, hvað ég á að gjöra við þig.'"
6 Þá lögðu Ísraelsmenn niður skart sitt undir Hórebfjalli og báru það eigi upp frá því.
7 Móse tók tjaldið og reisti það fyrir utan herbúðirnar, spölkorn frá þeim, og kallaði það samfundatjald, og varð hver sá maður, er leita vildi til Drottins, að fara út til samfundatjaldsins, sem var fyrir utan herbúðirnar.
8 Og þegar Móse gekk út til tjaldsins, þá stóð upp allur lýðurinn og gekk hver út í sínar tjalddyr og horfði á eftir honum, þar til er hann var kominn inn í tjaldið.
9 Er Móse var kominn inn í tjaldið, steig skýstólpinn niður og nam staðar við tjalddyrnar, og Drottinn talaði við Móse.
10 Og allur lýðurinn sá skýstólpann standa við tjalddyrnar. Stóð þá allt fólkið upp og féll fram, hver fyrir sínum tjalddyrum.
11 En Drottinn talaði við Móse augliti til auglitis, eins og maður talar við mann. Því næst gekk Móse aftur til herbúðanna, en þjónn hans, sveinninn Jósúa Núnsson, vék ekki burt úr tjaldinu.
12 Móse sagði við Drottin: "Sjá, þú segir við mig: ,Far með fólk þetta.' En þú hefir ekki látið mig vita, hvern þú ætlar að senda með mér. Og þó hefir þú sagt: ,Ég þekki þig með nafni, og þú hefir einnig fundið náð í augum mínum.'
13 Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum, og gæt þess, að þjóð þessi er þinn lýður."
14 Drottinn sagði: "Auglit mitt mun fara með og búa þér hvíld."
15 Móse sagði við hann: "Fari auglit þitt eigi með, þá lát oss eigi fara héðan.
16 Af hverju mega menn ella vita, að ég og lýður þinn hafi fundið náð í augum þínum? Hvort eigi af því, að þú farir með oss, og ég og þinn lýður verðum ágættir framar öllum þjóðum, sem á jörðu búa?"
17 Þá sagði Drottinn við Móse: "Einnig þetta, er þú nú mæltir, vil ég gjöra, því að þú hefir fundið náð í augum mínum, og ég þekki þig með nafni."
18 En Móse sagði: "Lát mig þá sjá dýrð þína!"
19 Hann svaraði: "Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Og ég vil líkna þeim, sem ég vil líkna, og miskunna þeim, sem ég vil miskunna."
20 Og enn sagði hann: "Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið."
21 Drottinn sagði: "Sjá, hér er staður hjá mér, og skalt þú standa uppi á berginu.
22 En þegar dýrð mín fer fram hjá, vil ég láta þig standa í bergskorunni, og mun ég byrgja þig með hendi minni, uns ég er kominn fram hjá.
23 En þegar ég tek hönd mína frá, munt þú sjá á bak mér. En auglit mitt fær enginn maður séð."

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]