Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

2 Samuel Síðari Samúelsbók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24

1 En er Davíð var kominn spölkorn frá hæðinni, kom Síba, sveinn Mefíbósets, í móti honum með tvo söðlaða asna, klyfjaða tvö hundruð brauðum, hundrað rúsínukökum, hundrað aldinkökum og vínlegli.
2 Konungur mælti við Síba: "Hvað ætlar þú að gjöra við þetta?" Síba svaraði: "Asnarnir eru ætlaðir konungsfólkinu til reiðar, brauðin og aldinin til matar þjónustuliðinu og vínið til drykkjar þeim, er örmagnast kunna á eyðimörkinni."
3 Þá mælti konungur: "Hvar er sonur herra þíns?" Síba svaraði konungi: "Hann er kyrr í Jerúsalem, því að hann hugsaði: ,Í dag mun Ísraels hús fá mér aftur konungsríki föður míns.'"
4 Þá sagði konungur við Síba: "Sjá, allt sem Mefíbóset á, það sé þitt!" Síba mælti: "Ég hneigi mig! Mætti ég jafnan finna náð í augum þínum, minn herra konungur."
5 Þegar Davíð konungur kom til Bahúrím, kom þaðan maður af kynþætti Sáls, sem Símeí hét, Gerason. Hann kom bölvandi og ragnandi
6 og kastaði steinum að Davíð og öllum þjónum Davíðs konungs, en allt fólkið og allir kapparnir gengu til hægri og vinstri hliðar honum.
7 En Símeí komst svo að orði í formælingum sínum: "Burt, burt, blóðhundurinn og hrakmennið!
8 Nú lætur Drottinn þér í koll koma allt blóð ættar Sáls, í hvers stað þú ert konungur orðinn, og Drottinn hefir gefið konungdóminn í hendur Absalon syni þínum, og nú er ógæfan yfir þig komin, af því að þú ert blóðhundur."
9 Þá mælti Abísaí Serújuson við konung: "Hví skal þessi dauði hundur formæla mínum herra konunginum? Lát mig fara og stýfa af honum hausinn."
10 En konungur svaraði: "Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir? Ef hann formælir og ef Drottinn hefir sagt honum: ,Formæl Davíð!' - hver vogar þá að segja: ,Hví gjörir þú þetta?'"
11 Og Davíð sagði við Abísaí og við alla þjóna sína: "Sjá, fyrst sonur minn, sem út genginn er af lendum mínum, situr um líf mitt, hví þá ekki þessi Benjamíníti? Látið hann í friði og lofið honum að formæla, því að Drottinn hefir sagt honum það.
12 Vera má að Drottinn líti á eymd mína og bæti mér formæling hans í dag með góðu."
13 Síðan fór Davíð og menn hans leiðar sinnar, en Símeí gekk í fjallshlíðinni á hlið við hann og formælti honum í sífellu, kastaði steinum að honum og lét moldarhnausana dynja á honum.
14 Síðan kom konungur og allt fólkið, sem með honum var, uppgefið til Jórdanar og hvíldi sig þar.
15 Absalon og allir Ísraelsmenn komu til Jerúsalem og Akítófel með honum.
16 Og er Húsaí Arkíti, vinur Davíðs, kom til Absalons, sagði Húsaí við hann: "Konungurinn lifi! Konungurinn lifi!"
17 Þá sagði Absalon við Húsaí: "Er þetta kærleikur þinn til vinar þíns? Hvers vegna fórst þú ekki með vini þínum?"
18 Húsaí sagði þá við Absalon: "Nei, því að þann, sem Drottinn og þessi lýður og allir Ísraelsmenn velja, hans maður vil ég vera, og hjá honum vil ég dveljast.
19 Og í annan stað: Hverjum veiti ég þjónustu? Er það ekki syni hans? Eins og ég hefi veitt föður þínum þjónustu, svo mun ég og veita þér."
20 Þá sagði Absalon við Akítófel: "Leggið nú ráð á, hvað vér skulum gjöra!"
21 Akítófel sagði við Absalon: "Gakk þú inn til hjákvenna föður þíns, sem hann lét eftir verða til þess að gæta hallarinnar. Mun þá allur Ísrael frétta, að þú sért orðinn óþokkaður af föður þínum, og mun þá öllum þínum mönnum vaxa hugur."
22 Þá tjölduðu þeir fyrir Absalon á þakinu, og Absalon gekk inn til hjákvenna föður síns í augsýn alls Ísraels.
23 En þau ráð, er Akítófel réð, þóttu í þá daga eins góð og gild, sem gengið væri til frétta við Guð, - svo mikils máttu sín öll ráð Akítófels, bæði hjá Davíð og Absalon.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]