Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

2 Samuel Síðari Samúelsbók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24

1 Jóab var sagt: "Sjá, konungur grætur og harmar Absalon."
2 Snerist þá sigurinn í hryggð fyrir öllu liðinu á þeim degi, því að liðið fékk þann dag þá fregn: "Konungur tregar son sinn."
3 Þann dag læddist liðið inn í borgina, eins og sá her læðist, er sú skömm hefir hent að flýja úr orustu.
4 En konungur huldi andlit sitt, og konungur kveinaði hástöfum: "Sonur minn Absalon, Absalon sonur minn, sonur minn!"
5 Þá gekk Jóab inn í höllina fyrir konung og mælti: "Þú hefir í dag gjört opinbera hneisu öllum þjónum þínum, sem í dag hafa frelsað líf þitt, líf sona þinna og dætra, líf kvenna þinna og líf hjákvenna þinna
6 með því að sýna þeim elsku, er hata þig, og hatur þeim, er elska þig. Í dag hefir þú sýnt, að þú átt enga hershöfðingja eða þjóna, því að nú veit ég, að væri Absalon á lífi, en vér nú allir dauðir, þá mundi þér það vel líka.
7 Rís því nú upp, gakk út og tala vinsamlega við þjóna þína, því að það sver ég við Drottin, að gangir þú ekki út, mun ekki einn maður eftir verða í nótt með þér, og er þér það verra en öll ógæfa, er yfir þig hefir komið frá barnæsku þinni fram á þennan dag."
8 Þá stóð konungur upp og settist í borgarhliðið. Og er öllu liðinu var sagt: "Sjá, konungur situr í borgarhliðinu," þá gekk allt liðið fyrir konung. Nú var Ísrael flúinn, hver heim til sín.
9 Þá þráttaði lýðurinn í öllum ættkvíslum Ísraels sín í millum og sagði: "Konungur hefir frelsað oss af hendi óvina vorra, og hann hefir bjargað oss undan valdi Filista, en nú er hann flúinn úr landi undan Absalon,
10 en Absalon, sem vér smurðum til konungs yfir oss, er fallinn í orustu. Hvað dvelur yður þá að færa konunginn heim aftur?"
11 Þessi ummæli alls Ísraels bárust konungi til eyrna. En Davíð konungur sendi til prestanna Sadóks og Abjatars og lét segja þeim: "Mælið svo til öldunga Júda: ,Hvers vegna viljið þér vera manna síðastir til þess að færa konung aftur til hallar sinnar?
12 Þér eruð ættbræður mínir, þér eruð bein mitt og hold. Hvers vegna viljið þér vera síðastir til að færa konung heim aftur?'
13 Og segið Amasa: ,Sannlega ert þú bein mitt og hold - Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef þú verður ekki hershöfðingi hjá mér alla ævi í stað Jóabs.'"
14 Hann sneri þannig hjörtum allra Júdamanna sem eins manns væri, svo að þeir gjörðu konungi þessi orð: "Snú þú aftur með alla menn þína."
15 Konungur sneri nú heimleiðis og kom að Jórdan, en Júdamenn komu til Gilgal til þess að fara í móti konungi og flytja konung yfir Jórdan.
16 Símeí Gerason Benjamíníti frá Bahúrím hafði hraðan á og fór ofan með Júdamönnum til móts við Davíð konung
17 og þúsund manns af Benjamín með honum. En Síba, ármaður Sáls, var ásamt fimmtán sonum sínum og tuttugu þjónum sínum kominn til Jórdanar á undan konungi.
18 Höfðu þeir farið yfir á vaðinu til þess að flytja konungsfólkið yfir og gjöra það, er honum þóknaðist. Og er konungur ætlaði að fara yfir Jórdan, féll Símeí Gerason honum til fóta
19 og mælti við hann: "Herra minn tilreikni mér ekki misgjörð mína og minnst ekki þess, er þjónn þinn gjörði illa á þeim degi, er minn herra konungurinn fór burt úr Jerúsalem, og erf það eigi við mig,
20 því að þjónn þinn veit að ég hefi syndgað, en sjá, nú er ég kominn fyrstur allra manna af Jósefs ætt til þess að ganga til móts við minn herra konunginn."
21 Þá tók Abísaí Serújuson til máls og sagði: "Ætti ekki Símeí að láta lífið fyrir það, að hann formælti Drottins smurða?"
22 Þá mælti Davíð: "Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir, þar sem þér í dag gjörist mótstöðumenn mínir? Ætti að lífláta nokkurn mann í Ísrael í dag? Eða veit ég eigi, að ég í dag er konungur yfir Ísrael?"
23 Síðan sagði konungur við Símeí: "Þú skalt eigi deyja." Og konungur vann honum eið að því.
24 Mefíbóset, sonarsonur Sáls, fór og ofan til móts við konung. Hafði hann eigi hirt fætur sína, greitt kamp sinn né þvegið klæði sín frá þeim degi, er konungur fór burt, til þess dags, er hann kom aftur heill á húfi.
25 Og er hann nú kom frá Jerúsalem til móts við konung, sagði konungur við hann: "Hví fórst þú ekki með mér, Mefíbóset?"
26 Hann svaraði: "Minn herra konungur, þjónn minn sveik mig. Því að ég sagði við hann: ,Söðla þú ösnu fyrir mig, svo að ég megi ríða henni og fara með konungi' - því að þjónn þinn er fótlami.
27 Og hann hefir rægt þjón þinn við minn herra konunginn. En minn herra konungurinn er sem engill Guðs, og gjör nú sem þér líkar.
28 Því að allt ættfólk föður míns átti einskis að vænta af mínum herra konunginum, nema dauðans, en þá tókst þú þjón þinn meðal mötunauta þinna. Hvaða rétt hefi ég þá framar og hvers framar að beiðast af konungi?"
29 Þá sagði konungur við hann: "Hví fjölyrðir þú enn um þetta? Ég segi: Þú og Síba skuluð skipta landinu."
30 Þá sagði Mefíbóset við konung: "Hann má jafnvel taka það allt, fyrst minn herra konungurinn er kominn heim heill á húfi."
31 Barsillaí Gíleaðíti kom og frá Rógelím og fór með konungi til Jórdan til þess að fylgja honum yfir Jórdan.
32 En Barsillaí var gamall mjög, áttræður að aldri. Hafði hann birgt konung að vistum, meðan hann dvaldist í Mahanaím, því að hann var maður vellauðugur.
33 Þá mælti konungur við Barsillaí: "Þú skalt með mér fara, og mun ég ala önn fyrir þér í ellinni hjá mér í Jerúsalem."
34 Barsillaí svaraði konungi: "Hversu mörg æviár á ég enn ólifuð, að ég skyldi fara með konungi til Jerúsalem?
35 Ég stend nú á áttræðu. Má ég lengur greina milli góðs og ills, eða mun þjónn þinn finna bragð af því, sem ég et og drekk, eða fæ ég lengur heyrt rödd söngvaranna og söngmeyjanna? Hví skyldi þjónn þinn lengur vera mínum herra konunginum til byrði?
36 Þjónn þinn vildi fylgja konunginum spölkorn, en hví vill konungur endurgjalda mér verk þetta?
37 Leyf þjóni þínum að snúa aftur, svo að ég megi deyja í borg minni, hjá gröf föður míns og móður. En hér er þjónn þinn Kímham, fari hann með mínum herra konunginum, gjör við hann slíkt er þér líkar!"
38 Þá mælti konungur: "Kímham skal með mér fara, og mun ég við hann gjöra slíkt er þér líkar, og hvað það er þú beiðist af mér, mun ég veita þér."
39 Nú fór allt liðið yfir Jórdan. Þá fór og konungur yfir. Og konungur minntist við Barsillaí og bað hann vel fara, en hann sneri aftur heim til sín.
40 Því næst fór konungur til Gilgal, og fór Kímham með honum. Allt lið Júdamanna fór með konungi, svo og helmingur af Ísraelsliðinu.
41 Og sjá, allir Ísraelsmenn komu til konungs, og þeir sögðu við konung: "Hví hafa bræður vorir, Júdamenn, stolið þér og farið með konunginn og fólk hans yfir Jórdan, og alla menn Davíðs með honum?"
42 Þá sögðu allir Júdamenn við Ísraelsmenn: "Konungur er oss skyldur. Hví reiðist þér af þessu? Höfum vér etið nokkuð af eigum konungs eða höfum vér numið hann burt?"
43 Þá svöruðu Ísraelsmenn Júdamönnum og sögðu: "Vér eigum tíu hluti í konunginum. Auk þess erum vér frumgetningurinn, en þér ekki. Hví hafið þér lítilsvirt oss? Og komum vér ekki fyrstir fram með þá ósk að færa konung heim aftur?" Og ummæli Júdamanna voru harðari en ummæli Ísraelsmanna.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]