Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Nehemiah Nehemíabók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13

1 Þegar þeir Sanballat, Tobía og Gesem hinn arabíski og aðrir óvinir vorir spurðu það, að ég hefði byggt upp múrinn og að ekkert skarð væri framar í hann, þótt ég þá hefði eigi enn sett hurðir í hliðin,
2 þá sendu þeir Sanballat og Gesem til mín og létu segja mér: "Kom þú, svo að vér megum eiga fund með oss í einhverju af þorpunum í Ónódalnum." En þeir höfðu í hyggju að gjöra mér illt.
3 Þá gjörði ég menn til þeirra og lét segja þeim: "Ég hefi mikið starf með höndum og get því eigi komið ofan eftir. Hví ætti verkið að bíða, af því að ég yfirgæfi það og færi ofan til ykkar?"
4 Fjórum sinnum sendu þeir til mín á þennan hátt, og ég svaraði þeim á sömu leið.
5 Þá sendi Sanballat enn í fimmta sinn til mín, og það svein sinn með opið bréf í hendi.
6 Í því var ritað: "Sú saga gengur hjá þjóðunum, og Gasmú segir hið sama, að þú og Gyðingar hyggið á uppreisn - fyrir því sért þú að byggja upp múrinn - og þú ætlir að verða konungur þeirra, eins og sjá megi á öllu.
7 Þú hefir og sett spámenn til þess að gjöra það hljóðbært um þig í Jerúsalem og segja: ,Hann sé konungur í Júda.' Og nú mun slíkur orðrómur berast konungi til eyrna. Kom því, og skulum vér eiga fund með oss."
8 Þá sendi ég til hans og lét segja honum: "Ekkert slíkt á sér stað, sem þú talar um, heldur hefir þú spunnið það upp frá eigin brjósti."
9 Því að þeir ætluðu allir að gjöra oss hrædda og hugsuðu: "Þeim munu fallast hendur og hætta við verkið, svo að því verður eigi lokið." Styrk því nú hendur mínar!
10 Og ég gekk inn í hús Semaja Delajasonar, Mehetabeelssonar, en hann hafði lokað sig inni. Hann sagði: "Við skulum fara saman inn í musteri Guðs, inn í aðalhúsið, og loka síðan dyrum aðalhússins, því að þeir munu koma til að drepa þig, já, um nótt munu þeir koma til að drepa þig."
11 En ég sagði: "Ætti slíkur maður sem ég að flýja? Og hver er sá minn líki, sem geti farið inn í aðalhúsið og haldið lífi? Ég fer hvergi."
12 Og ég sá, að Guð hafði ekki sent hann, heldur hafði hann spáð mér þessu, af því að Tobía og Sanballat höfðu keypt hann.
13 Til þess var hann keyptur, að ég skyldi verða hræddur og gjöra þetta og drýgja synd. Og það hefði orðið þeim tilefni til ills umtals, til þess að þeir gætu ófrægt mig.
14 Mundu, Guð minn, þeim Tobía og Sanballat þessar aðgjörðir þeirra, svo og spákonunni Nóadja og hinum spámönnunum, sem ætluðu að hræða mig.
15 Og múrinn var fullgjör hinn tuttugasta og fimmta elúlmánaðar, á fimmtíu og tveim dögum.
16 Og er allir óvinir vorir spurðu þetta, urðu allar þjóðirnar, sem bjuggu umhverfis oss, hræddar, og þær lækkuðu mjög í eigin áliti, því að þær könnuðust við, að fyrir hjálp Guðs vors hafði verki þessu orðið lokið.
17 Í þann tíð rituðu og tignarmenn Júdalýðs mörg bréf og sendu Tobía, og frá Tobía komu líka bréf til þeirra.
18 Því að margir í Júda voru bundnir honum með eiði, því að hann var tengdasonur Sekanja Arasonar, og Jóhanan sonur hans hafði gengið að eiga dóttur Mesúllams Berekíasonar.
19 Þeir töluðu og um mannkosti hans við mig og báru honum aftur orð mín. Bréf hafði og Tobía sent til þess að hræða mig.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]