Romans Rómverjabréfið
1 Páll heilsar yður, þjónn Jesú Krists, kallaður til postula, kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs,
2 sem hann gaf áður fyrirheit um fyrir munn spámanna sinna í helgum ritningum,
3 fagnaðarerindið um son hans, Jesú Krist, Drottin vorn, sem að holdinu er fæddur af kyni Davíðs,
4 en að anda heilagleikans með krafti auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum.
5 Fyrir hann hef ég öðlast náð og postuladóm til að vekja hlýðni við trúna meðal allra heiðingjanna, vegna nafns hans.
6 Meðal þeirra eruð þér einnig, þér sem Jesús Kristur hefur kallað sér til eignar.
7 Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm, sem heilagir eru samkvæmt köllun. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
8 Fyrst þakka ég Guði mínum sakir Jesú Krists fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum.
9 Guð, sem ég þjóna í anda mínum með fagnaðarerindinu um son hans, er mér vottur þess, hve óaflátanlega ég minnist yðar
10 í bænum mínum. Ég bið stöðugt um það, að mér mætti loks einhvern tíma auðnast, ef Guð vildi svo verða láta, að koma til yðar.
11 Því að ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist,
12 eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.
13 Ég vil ekki, bræður, að yður sé ókunnugt um, að ég hef oftsinnis ásett mér að koma til yðar, en hef verið hindraður allt til þessa. Ég vildi fá einhvern ávöxt einnig á meðal yðar, eins og með öðrum heiðnum þjóðum.
14 Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa.
15 Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður, sem eruð í Róm.
16 Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum.
17 Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú."
18 Reiði Guðs opinberast af himni yfir öllu guðleysi og rangsleitni þeirra manna, er kefja sannleikann með rangsleitni,
19 með því að það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það.
20 Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.
21 Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum, heldur hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri.
22 Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar.
23 Þeir skiptu á vegsemd hins ódauðlega Guðs og myndum, sem líktust dauðlegum manni, fuglum, ferfætlingum og skriðkvikindum.
24 Þess vegna hefur Guð ofurselt þá fýsnum hjartna þeirra til saurlifnaðar, til þess að þeir svívirtu líkami sína hver með öðrum.
25 Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans, hans sem er blessaður að eilífu. Amen.
26 Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg,
27 og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.
28 Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt,
29 fylltir alls konar rangsleitni, vonsku, ágirnd, illsku, fullir öfundar, manndrápa, deilu, sviksemi, illmennsku. Þeir eru rógberar,
30 bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir, foreldrum óhlýðnir,
31 óskynsamir, óáreiðanlegir, kærleikslausir, miskunnarlausir,
32 þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir. Samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum.