Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Romans Rómverjabréfið

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16

1 Hvað hefur þá Gyðingurinn fram yfir? Eða hvert er gagn umskurnarinnar?
2 Mikið á allan hátt. Fyrst er þá það, að þeim hefur verið trúað fyrir orðum Guðs.
3 Hvað um það, þótt nokkrir hafi reynst ótrúir? Mundi ótrúmennska þeirra að engu gjöra trúfesti Guðs?
4 Fjarri fer því. Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari, eins og ritað er: "Til þess að þú reynist réttlátur í orðum þínum og vinnir, þegar þú átt mál að verja."
5 En ef ranglæti vort sannar réttlæti Guðs, hvað eigum vér þá að segja? Hvort mundi Guð vera ranglátur, er hann lætur reiðina yfir dynja? - Ég tala á mannlegan hátt. -
6 Fjarri fer því. Hvernig ætti Guð þá að dæma heiminn?
7 En verði sannleiki Guðs fyrir lygi mína skýrari honum til dýrðar, hvers vegna dæmist ég þá enn sem syndari?
8 Eigum vér þá ekki að gjöra hið illa, til þess að hið góða komi fram? Sumir bera oss þeim óhróðri að vér kennum þetta. Þeir munu fá verðskuldaðan dóm.
9 Hvað þá? Höfum vér þá nokkuð fram yfir? Nei, alls ekki. Vér höfum áður gefið bæði Gyðingum og Grikkjum að sök, að þeir væru allir undir synd.
10 Eins og ritað er: Ekki er neinn réttlátur, ekki einn.
11 Ekki er neinn vitur, ekki neinn sem leitar Guðs.
12 Allir eru þeir fallnir frá, allir saman ófærir orðnir. Ekki er neinn sem auðsýnir gæsku, ekki einn einasti.
13 Opin gröf er barki þeirra, með tungum sínum draga þeir á tálar. Höggorma eitur er innan vara þeirra,
14 munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju.
15 Hvatir eru þeir í spori að úthella blóði.
16 Tortíming og eymd er í slóð þeirra,
17 og veg friðarins þekkja þeir ekki.
18 Fyrir augum þeirra er enginn guðsótti.
19 Vér vitum, að allt sem lögmálið segir, það talar það til þeirra sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimurinn verði sekur fyrir Guði,
20 með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir lögmál kemur þekking syndar.
21 En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls.
22 Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur:
23 Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,
24 og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú.
25 Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir,
26 til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.
27 Hvar er þá hrósunin? Hún er úti lokuð. Með hvaða lögmáli? Verkanna? Nei, heldur með lögmáli trúar.
28 Vér ályktum því, að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka.
29 Eða er Guð einungis Guð Gyðinga? Ekki líka heiðingja? Jú, líka heiðingja;
30 svo sannarlega sem Guð er einn, sem mun réttlæta umskorna menn af trú og óumskorna fyrir trúna.
31 Gjörum vér þá lögmálið að engu með trúnni? Fjarri fer því. Vér staðfestum lögmálið.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]