Numbers Fjórða Mósebók
1 Þá æpti allur söfnuðurinn upp yfir sig, og fólkið grét þá nótt.
2 Og allir Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni, og allur söfnuðurinn sagði við þá: "Guð gæfi, að vér hefðum dáið í Egyptalandi eða vér hefðum dáið í þessari eyðimörk!
3 Hví leiðir Drottinn oss inn í þetta land til þess að falla fyrir sverði? Konur vorar og börn munu verða að herfangi. Mun oss eigi betra að snúa aftur til Egyptalands?"
4 Og þeir sögðu hver við annan: "Tökum oss foringja og hverfum aftur til Egyptalands!"
5 Þá féllu þeir Móse og Aron á ásjónur sínar frammi fyrir allri samkomu safnaðar Ísraelsmanna.
6 En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson, tveir þeirra, sem kannað höfðu landið, rifu klæði sín.
7 Og þeir sögðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: "Land það, sem vér fórum um til þess að kanna það, er mesta ágætisland.
8 Ef Drottinn hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi.
9 Gjörið aðeins ekki uppreisn móti Drottni og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en Drottinn er með oss! Hræðist þá eigi!"
10 Allur söfnuðurinn vildi berja þá grjóti, en þá birtist dýrð Drottins í samfundatjaldinu öllum Ísraelsmönnum.
11 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi mun þessi þjóð halda áfram að fyrirlíta mig, og hversu lengi munu þeir vantreysta mér, þrátt fyrir öll þau tákn, sem ég hefi gjört meðal þeirra?
12 Mun ég nú slá þá með drepsótt og tortíma þeim, en þig mun ég gjöra að þjóð, meiri og voldugri en þeir eru."
13 Móse sagði við Drottin: "En Egyptar hafa heyrt, að þú hafir með mætti þínum flutt þennan lýð burt frá þeim,
14 og þeir hafa sagt það íbúum þessa lands. Þeir hafa heyrt, að þú, Drottinn, sért meðal þessa fólks, að þú, Drottinn, hafir birst þeim augliti til auglitis, og að ský þitt standi yfir þeim og að þú gangir fyrir þeim í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur.
15 Ef þú nú drepur fólk þetta sem einn mann, munu þjóðir þær, er spurnir hafa af þér haft, mæla á þessa leið:
16 ,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þennan lýð inn í landið, sem hann hafði svarið þeim, þá slátraði hann þeim í eyðimörkinni.'
17 Sýn nú mátt þinn mikinn, Drottinn minn, eins og þú hefir heitið, þá er þú sagðir:
18 ,Drottinn er þolinmóður og gæskuríkur, fyrirgefur misgjörðir og afbrot, en lætur þau þó eigi með öllu óhegnd, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið.'
19 Fyrirgef misgjörðir þessa fólks eftir mikilli miskunn þinni og eins og þú hefir fyrirgefið þessu fólki frá Egyptalandi og hingað."
20 Drottinn sagði: "Ég fyrirgef, eins og þú biður.
21 En svo sannarlega sem ég lifi og öll jörðin er full af dýrð Drottins:
22 Allir þeir menn, sem séð hafa dýrð mína og tákn mín, þau er ég gjörði í Egyptalandi og í eyðimörkinni, og nú hafa freistað mín tíu sinnum og óhlýðnast röddu minni,
23 þeir skulu vissulega ekki sjá landið, sem ég sór feðrum þeirra. Og engir þeirra manna, sem mig hafa fyrirlitið, skulu sjá það.
24 En af því að annar andi er yfir þjóni mínum Kaleb, og af því að hann hefir fylgt mér trúlega, þá vil ég leiða hann inn í landið, sem hann fór til, og niðjar hans skulu eignast það.
25 En Amalekítar og Kanaanítar búa á láglendinu. Snúið við á morgun og farið í eyðimörkina leiðina til Sefhafs."
26 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
27 "Hversu lengi á ég að umbera þennan illa lýð, sem möglar í gegn mér? Ég hefi heyrt kurr Ísraelsmanna, er þeir hafa gjört í gegn mér.
28 Seg þú þeim: ,Svo sannarlega sem ég lifi - segir Drottinn -, eins og þér hafið talað í mín eyru, svo mun ég við yður gjöra.
29 Í þessari eyðimörk skuluð þér dauðir hníga, allir þér, sem taldir voruð, með fullri tölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, þér sem möglað hafið í gegn mér.
30 Þér skuluð vissulega ekki koma inn í landið, sem ég sór að gefa yður til bústaðar, nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson.
31 En börn yðar, er þér sögðuð að verða mundu að herfangi, þau mun ég flytja þangað, og þau munu fá að kynnast landinu, sem þér höfnuðuð.
32 En sjálfir skuluð þér dauðir hníga í þessari eyðimörk.
33 Og synir yðar skulu fara með hjarðir um eyðimörkina í fjörutíu ár og gjalda fráhvarfs yðar, uns þér allir liggið dauðir í eyðimörkinni.
34 Eins og þér voruð í fjörutíu daga að kanna landið, svo skuluð þér bera misgjörð yðar í fjörutíu ár, eitt ár fyrir hvern dag, og fá að reyna, hvað það er að vera yfirgefinn af mér.'
35 Ég Drottinn hefi sagt: ,Sannarlega mun ég svo gjöra við allan þennan illa lýð, sem gjört hefir samblástur móti mér. Í þessari eyðimörk skulu þeir farast og þar skulu þeir deyja.'"
36 Þeir menn, sem Móse hafði sent til að kanna landið og aftur hurfu og komu öllum lýðnum til að mögla móti honum með því að segja illt af landinu, -
37 þeir menn, sem lastað höfðu landið, biðu bráðan bana fyrir augliti Drottins.
38 En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson lifðu eftir af þeim mönnum, sem farið höfðu að kanna landið.
39 Móse flutti öllum Ísraelsmönnum þessi orð. Varð fólkið þá mjög sorgbitið.
40 Og þeir risu árla um morguninn og gengu upp á fjallshrygginn og sögðu: "Hér erum vér! Viljum vér nú fara til þess staðar, sem Drottinn hefir talað um, því að vér höfum syndgað!"
41 Þá mælti Móse: "Hví brjótið þér boð Drottins? Það mun eigi lánast!
42 Farið eigi, því að Drottinn er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar.
43 Amalekítar og Kanaanítar eru þar fyrir yður, og þér munuð falla fyrir sverði. Sökum þess að þér hafið snúið baki við Drottni, mun Drottinn eigi með yður vera."
44 En þeir létu eigi af þrályndi sínu og fóru upp á fjallstindinn, en sáttmálsörk Drottins og Móse viku eigi úr herbúðunum.
45 Þá komu Amalekítar og Kanaanítar, er á fjalli þessu bjuggu, ofan, unnu sigur á þeim og tvístruðu þeim alla leið til Horma.