Numbers Fjórða Mósebók
1 Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk á öðru ári eftir brottför þeirra af Egyptalandi, í fyrsta mánuðinum, og sagði:
2 "Ísraelsmenn skulu halda páska á tilteknum tíma.
3 Á fjórtánda degi þessa mánaðar um sólsetur skuluð þér halda þá á hinum tiltekna tíma. Eftir öllum skipunum og öllum ákvæðum um þá skuluð þér halda þá."
4 Móse bauð Ísraelsmönnum að halda páskana.
5 Og þeir héldu páska í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, um sólsetur, í Sínaí-eyðimörk. Ísraelsmenn gjörðu að öllu leyti svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
6 En þar voru menn, er saurgast höfðu af líki framliðins manns og gátu því eigi haldið páska þennan dag. Gengu þeir fyrir Móse og Aron þennan dag
7 og sögðu við hann: "Vér erum óhreinir af líki framliðins manns; hví skulum vér verða út undan og eigi mega bera fram fórnargjöf Drottins meðal Ísraelsmanna á tilteknum tíma?"
8 Móse sagði við þá: "Bíðið þér, ég ætla að heyra, hvað Drottinn skipar fyrir um yður."
9 Drottinn talaði við Móse og sagði:
10 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Ef einhver meðal yðar eða meðal niðja yðar er óhreinn af líki eða hann er í langferð, þá skal hann þó halda Drottni páska.
11 Á fjórtánda degi hins annars mánaðar, um sólsetur, skulu þeir halda þá; með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta páskalambið.
12 Engu skulu þeir leifa af því til morguns, og ekkert bein í því skulu þeir brjóta; skulu þeir halda páska eftir öllum páskalögunum.
13 En hver sem er hreinn og ekki á ferð og vanrækir að halda páska, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni, því að hann færði Drottni eigi fórnargjöf á tilteknum tíma. Sá maður skal bera synd sína.
14 Nú dvelur útlendur maður hjá yður, og vill hann halda Drottni páska, skal hann þá svo gjöra sem fyrir er mælt í páskalögunum og ákvæðunum um þá. Skulu vera ein lög hjá yður bæði fyrir útlenda menn og innborna."
15 Á þeim degi, sem búðin var reist, huldi skýið búðina - sáttmálstjaldið - og um kveldið var það yfir búðinni eins og eldbjarmi allt til morguns.
16 Svo var það ávallt: Skýið huldi hana um daga og eldbjarmi um nætur.
17 Og í hvert sinn, er skýið hófst upp frá tjaldinu, lögðu Ísraelsmenn upp, og þar sem skýið nam staðar, þar settu Ísraelsmenn herbúðir sínar.
18 Að boði Drottins lögðu Ísraelsmenn upp, og að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar. Alla þá stund, er skýið hvíldi yfir búðinni, héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum.
19 Þegar skýið var yfir búðinni marga daga samfleytt, gættu Ísraelsmenn skipunar Drottins og lögðu ekki upp.
20 Stundum var skýið aðeins fáa daga yfir búðinni; að boði Drottins héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum og að boði Drottins lögðu þeir upp.
21 Stundum var skýið frá kveldi allt til morguns, og er skýið hófst upp með morgninum, lögðu þeir upp, eða það var daginn og nóttina: Þegar skýið hófst, þá lögðu þeir upp.
22 Eða að skýið var tvo daga eða mánuð eða lengri tíma: Þegar það var langdvölum yfir búðinni og hvíldi yfir henni, héldu Ísraelsmenn kyrru fyrir í herbúðunum og lögðu ekki upp, en er það hófst, lögðu þeir upp.
23 Að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar, og að boði Drottins lögðu þeir upp. Skipunar Drottins gættu þeir að boði Drottins, er Móse flutti.