Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Numbers Fjórða Mósebók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36

1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2 "Þetta er ákvæði í lögmálinu, er Drottinn hefir boðið, er hann sagði: Seg við Ísraelsmenn, að þeir skuli færa þér rauða kvígu gallalausa, sem enginn lýti hefir og ekki hefir verið leidd undir ok.
3 Skuluð þér fá hana Eleasar presti, og skal því næst færa hana út fyrir herbúðirnar og slátra henni í augsýn hans.
4 Og Eleasar prestur skal taka af blóði hennar með fingri sínum og stökkva sjö sinnum af blóði hennar mót framhlið samfundatjaldsins.
5 Síðan skal brenna kvíguna fyrir augum hans. Skal brenna bæði húðina, kjötið og blóðið, ásamt gorinu.
6 Þá skal prestur taka sedrusvið, ísópsvönd og skarlat og kasta á bálið, þar sem kvígan brennur.
7 Því næst skal prestur þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar. Þó skal prestur vera óhreinn til kvelds.
8 Sömuleiðis skal sá, sem brennir hana, þvo klæði sín í vatni og lauga líkama sinn í vatni. Hann skal og vera óhreinn til kvelds.
9 Síðan skal einhver, sem hreinn er, safna saman öskunni af kvígunni og láta hana á hreinan stað fyrir utan herbúðirnar, svo að hún sé geymd handa söfnuði Ísraelsmanna í hreinsunarvatn. Þetta er syndafórn.
10 En sá sem safnar saman öskunni af kvígunni, skal þvo klæði sín og vera óhreinn til kvelds. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir Ísraelsmenn og fyrir þá útlendinga, er dvelja meðal þeirra:
11 Sá sem snertir lík, af hvaða manni sem vera skal, hann skal vera óhreinn sjö daga.
12 Hann skal syndhreinsa sig með hreinsunarvatninu á þriðja degi og á sjöunda degi, og er þá hreinn. En ef hann syndhreinsar sig ekki á þriðja degi og á sjöunda degi, mun hann eigi hreinn verða.
13 Hver sem snertir dauðan mann, lík af dauðum manni, og syndhreinsar sig ekki, hann saurgar búð Drottins, og skal sá maður upprættur verða úr Ísrael. Af því að hreinsunarvatninu var ekki stökkt á hann, er hann óhreinn. Óhreinleiki hans loðir enn við hann.
14 Þetta skulu lög vera, þegar maður deyr í tjaldi: Hver sem inn í tjaldið gengur, og hver sem í tjaldinu er, skal vera óhreinn sjö daga.
15 Og hvert opið ílát, sem ekki er bundið yfir, skal vera óhreint.
16 Og hver sem úti á víðavangi snertir lík af vegnum manni eða látnum manni eða mannabein eða gröf, hann skal vera óhreinn sjö daga.
17 En handa þeim, er saurgað hefir sig, skal taka ösku af brenndu syndafórninni, láta hana í ker og hella yfir hana rennandi vatni.
18 Síðan skal hreinn maður taka ísópsvönd, dýfa í vatnið og stökkva á tjaldið og öll ílátin og á þá menn, sem þar voru inni, svo og á þann, er snert hefir mannabein eða lík af vegnum manni eða látnum eða gröf.
19 Og skal hinn hreini stökkva á hinn óhreina á þriðja degi og á sjöunda degi, og hann skal syndhreinsa hann á sjöunda degi. Því næst skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni, og er hann þá hreinn að kveldi.
20 En ef einhver saurgar sig og syndhreinsar sig ekki, - sá maður skal upprættur verða úr söfnuðinum, því að hann hefir saurgað helgidóm Drottins. Hreinsunarvatni hefir ekki verið stökkt á hann, hann er óhreinn.
21 Skal þetta vera yður ævinlegt lögmál. Sá sem stökkvir hreinsunarvatninu, skal þvo klæði sín, og sá sem snertir hreinsunarvatnið, skal vera óhreinn til kvelds.
22 Og allt það, sem hinn óhreini snertir, skal vera óhreint, og ef maður snertir hann, skal hann vera óhreinn til kvelds."

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]