Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Judges Dómarabókin

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21

1 Eftir andlát Jósúa spurðu Ísraelsmenn Drottin og sögðu: "Hver af oss skal fyrstur fara í móti Kanaanítum til þess að berjast við þá?"
2 Drottinn sagði: "Júda skal fara í móti þeim, sjá, ég gef landið í hendur honum."
3 Júda sagði við Símeon, bróður sinn: "Far þú með mér inn í minn hluta, svo að við báðir megum berjast við Kanaanítana. Þá skal ég líka fara með þér inn í þinn hluta." Fór þá Símeon með honum.
4 Og Júda fór, og Drottinn gaf Kanaaníta og Peresíta í hendur þeirra, og lögðu þeir þá að velli í Besek, - tíu þúsundir manna.
5 Þeir fundu Adóní Besek í Besek og börðust við hann og unnu sigur á Kanaanítum og Peresítum.
6 En Adóní Besek flýði og veittu þeir honum eftirför, tóku hann höndum og hjuggu af honum þumalfingurna og stórutærnar.
7 Þá mælti Adóní Besek: "Sjötíu konungar, sem höggnir voru af þumalfingur og stórutær, urðu að tína upp mola undir borði mínu. Eins og ég hefi gjört, svo geldur Guð mér." Síðan fóru þeir með hann til Jerúsalem og þar dó hann.
8 Júda synir herjuðu á Jerúsalem og unnu hana, felldu íbúana með sverðseggjum og lögðu síðan eld í borgina.
9 Eftir það héldu Júda synir ofan þaðan til þess að berjast við Kanaaníta, þá er bjuggu á fjöllunum, í Suðurlandinu og á láglendinu.
10 Júda fór móti Kanaanítunum, sem bjuggu í Hebron, en Hebron hét áður Kirjat Arba. Og þeir unnu sigur á Sesaí, Ahíman og Talmaí.
11 Þaðan fóru þeir móti Debír-búum, en Debír hét áður Kirjat Sefer.
12 Kaleb sagði: "Hver sem leggur Kirjat Sefer undir sig og vinnur hana, honum skal ég gefa Aksa dóttur mína að konu."
13 Otníel Kenasson, bróðir Kalebs og honum yngri, vann þá borgina, og hann gaf honum Aksa dóttur sína að konu.
14 Þegar hún skyldi heim fara með bónda sínum, eggjaði hún hann þess, að hann skyldi beiðast lands nokkurs af föður hennar. Steig hún þá niður af asnanum. Kaleb spurði hana þá: "Hvað viltu?"
15 Hún svaraði honum: "Gef mér gjöf nokkra, af því að þú hefir gefið mig til Suðurlandsins. Gef mér því vatnsbrunna." Gaf hann henni þá brunna hið efra og brunna hið neðra.
16 Synir Kenítans, tengdaföður Móse, höfðu farið úr pálmaborginni með sonum Júda upp í Júdaeyðimörk, sem liggur fyrir sunnan Arad, og þeir fóru og settust að meðal lýðsins.
17 En Júda fór með Símeon bróður sínum, og þeir unnu sigur á Kanaanítunum, sem bjuggu í Sefat, og helguðu hana banni. Fyrir því var borgin nefnd Horma.
18 Júda vann Gasa og land það, er undir hana lá, og Askalon og land það, er undir hana lá, og Ekron og land það, er undir hana lá.
19 Og Drottinn var með Júda, svo að þeir náðu undir sig fjalllendinu, en þá, sem bjuggu á sléttlendinu, fengu þeir eigi rekið burt, því að þeir höfðu járnvagna.
20 Þeir gáfu Kaleb Hebron, eins og Móse hafði boðið, og þeir ráku þaðan þá Anaks sonu þrjá.
21 En Jebúsítana, sem bjuggu í Jerúsalem, gátu Benjamíns synir ekki rekið burt. Fyrir því hafa Jebúsítar búið í Jerúsalem ásamt Benjamíns sonum fram á þennan dag.
22 Ættmenn Jósefs fóru líka upp til Betel, og Drottinn var með þeim.
23 Og ættmenn Jósefs létu njósna í Betel, en borgin hét áður Lúz.
24 Þá sáu njósnarmennirnir mann koma út úr borginni og sögðu við hann: "Sýn oss, hvar komast má inn í borgina, og munum vér sýna þér miskunn."
25 Og hann sýndi þeim, hvar komast mætti inn í borgina, og þeir tóku borgina herskildi, en manninum og öllu fólki hans leyfðu þeir brottgöngu.
26 Maðurinn fór til lands Hetíta og reisti þar borg og nefndi hana Lúz. Heitir hún svo enn í dag.
27 Manasse rak eigi burt íbúana í Bet Sean og smáborgunum, er að lágu, í Taanak og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Dór og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Jibleam og smáborgunum, er að lágu, né íbúana í Megiddó og smáborgunum, er að lágu; og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu.
28 En er Ísrael efldist, gjörði hann Kanaaníta sér vinnuskylda, en rak þá ekki algjörlega burt.
29 Efraím rak eigi burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa í Geser meðal þeirra.
30 Sebúlon rak eigi burt íbúana í Kitrón né íbúana í Nahalól; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa meðal þeirra og urðu þeim vinnuskyldir.
31 Asser rak eigi burt íbúana í Akkó né íbúana í Sídon, eigi heldur í Ahlab, Aksíd, Helba, Afík og Rehób.
32 Fyrir því bjuggu Asserítar meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, því að þeir ráku þá eigi burt.
33 Naftalí rak eigi burt íbúana í Bet Semes né íbúana í Bet Anat; fyrir því bjó hann meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, en íbúarnir í Bet Semes og Bet Anat urðu þeim vinnuskyldir.
34 Amorítar þrengdu Dans sonum upp í fjöllin og liðu þeim ekki að koma niður á sléttlendið.
35 Þannig fengu Amorítar haldið bústað í Har Heres, í Ajalon og Saalbím, en með því að ætt Jósefs var þeim yfirsterkari, urðu þeir vinnuskyldir.
36 Landamæri Amoríta lágu frá Sporðdrekaskarði, frá klettinum og þar upp eftir.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]