Judges Dómarabókin
1 Nú tók Jerúbbaal, það er Gídeon, sig árla upp og allt liðið, er með honum var, og settu þeir herbúðir sínar hjá Haródlind, en herbúðir Midíans voru fyrir norðan hann, hinumegin við Mórehæð þar á sléttunni.
2 Drottinn sagði við Gídeon: "Liðið er of margt, sem með þér er, til þess að ég vilji gefa Midían í hendur þeirra, ella kynni Ísrael að hrokast upp gegn mér og segja: ,Mín eigin hönd hefir frelsað mig.'
3 Kalla því nú í eyru fólksins og seg: Hver sá, sem hræddur er og hugdeigur, snúi við og fari aftur frá Gíleaðfjalli." Þá sneru aftur tuttugu og tvær þúsundir af liðinu, en tíu þúsundir urðu eftir.
4 Þá sagði Drottinn við Gídeon: "Enn er liðið of margt. Leið þú þá ofan til vatnsins, og mun ég reyna þá þar fyrir þig. Sá sem ég þá segi um við þig: ,þessi skal með þér fara,' hann skal með þér fara, en hver sá, er ég segi um við þig: ,þessi skal ekki með þér fara,' hann skal ekki fara."
5 Leiddi Gídeon þá liðið niður til vatnsins. Og Drottinn sagði við Gídeon: "Öllum þeim, sem lepja vatnið með tungu sinni, eins og hundar gjöra, skalt þú skipa sér, og sömuleiðis öllum þeim, sem krjúpa á kné til þess að drekka úr lófa sínum, er þeir færa upp að munni sér."
6 En þeir, sem löptu vatnið, voru þrjú hundruð að tölu, en allt hitt liðið kraup á kné til þess að drekka vatnið.
7 Þá sagði Drottinn við Gídeon: "Með þeim þrem hundruðum manna, sem lapið hafa, mun ég frelsa yður og gefa Midían í hendur yðar, en allt hitt liðið skal fara, hver heim til sín."
8 Þá tóku þeir til sín veganesti liðsins og lúðra þeirra, en alla aðra Ísraelsmenn lét hann burt fara, hvern til síns heimkynnis, og hélt aðeins þrem hundruðum manna eftir. Og herbúðir Midíans voru fyrir neðan hann á sléttunni.
9 Hina sömu nótt sagði Drottinn við Gídeon: "Rís þú upp og far ofan í herbúðirnar, því að ég hefi gefið þær í þínar hendur.
10 En ef þú ert hræddur að fara ofan þangað, þá far þú með Púra, svein þinn, til herbúðanna,
11 og hlustaðu á, hvað þeir segja. Mun þá hugur þinn styrkjast svo, að þú fer ofan í herbúðirnar." Þá fór hann og Púra sveinn hans til ystu hermannanna, sem voru í herbúðunum.
12 Midíanítar, Amalekítar og allir austurbyggjar höfðu reist herbúðir á sléttunni, sem engisprettur að fjölda til, og úlfaldar þeirra voru óteljandi, sem sandur á sjávarströndu að fjölda til.
13 Þegar Gídeon kom þangað, var maður nokkur að segja félaga sínum draum með þessum orðum: "Sjá, mig dreymdi draum, og þótti mér byggbrauðskaka velta sér að herbúðum Midíans, og komst hún alla leið að tjaldinu og rakst á það, svo að það féll, og kollvelti því, svo að tjaldið lá flatt."
14 Þá svaraði hinn: "Þetta er ekkert annað en sverð Ísraelítans Gídeons Jóassonar. Guð hefir gefið Midían og allar herbúðirnar í hendur hans."
15 Er Gídeon hafði heyrt frásöguna um drauminn og ráðningu hans, féll hann fram og tilbað. Sneri hann síðan aftur til herbúða Ísraels og sagði: "Rísið upp, því að Drottinn hefir gefið herbúðir Midíans í yðar hendur."
16 Þá skipti hann þeim þrem hundruðum manna í þrjá flokka og fékk þeim öllum lúðra í hönd og tómar krúsir og blys í krúsunum.
17 Og hann sagði við þá: "Lítið á mig og gjörið sem ég. Þegar ég kem að útjaðri herbúðanna, þá gjörið eins og ég gjöri.
18 Þegar ég því þeyti lúðurinn og allir þeir, sem með mér eru, þá skuluð þér líka þeyta lúðrana kringum allar herbúðirnar og segja: ,Sverð Drottins og Gídeons!'"
19 Gídeon og það hundrað manna, er með honum var, komu að útjaðri herbúðanna í byrjun miðvarðtíðarinnar. Var þá einmitt nýbúið að setja verðina. Þá þeyttu þeir lúðrana og brutu sundur krúsirnar, sem þeir báru í höndum sér.
20 Þeyttu nú flokkarnir þrír lúðrana og brutu krúsirnar, tóku blysin í vinstri hönd sér og lúðrana í hægri hönd sér til þess að þeyta þá, og æptu: "Sverð Drottins og Gídeons!"
21 Stóðu þeir kyrrir, hver á sínum stað, umhverfis herbúðirnar, en í herbúðunum komst allt í uppnám, og flýðu menn nú með ópi miklu.
22 Og er þeir þeyttu þrjú hundruð lúðrana, þá beindi Drottinn sverðum þeirra gegn þeirra eigin mönnum um allar herbúðirnar, og flýði allur herinn til Bet Sitta, á leið til Serera, að árbakkanum við Abel Mehóla hjá Tabbat.
23 Nú voru kallaðir saman Ísraelsmenn úr Naftalí, Asser og öllum Manasse, og þeir veittu Midían eftirför.
24 Gídeon hafði og sent sendimenn um öll Efraímfjöll og látið segja: "Farið ofan í móti Midían og varnið þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan." Þá var öllum Efraímítum stefnt saman, og þeir vörnuðu þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan.
25 Og þeir handtóku tvo höfðingja Midíaníta, þá Óreb og Seeb, og drápu Óreb hjá Órebskletti, en Seeb drápu þeir hjá Seebsvínþröng. Síðan veittu þeir Midíanítum eftirför. En höfuðin af Óreb og Seeb færðu þeir Gídeon hinumegin Jórdanar.