Judges Dómarabókin
1 Þessar þjóðir lét Drottinn vera kyrrar til þess að reyna Ísrael með þeim, alla þá, er ekkert höfðu haft að segja af öllum bardögunum um Kanaan.
2 Þetta gjörði hann einungis til þess, að hinar komandi kynslóðir Ísraelsmanna mættu kynnast hernaði, sem eigi höfðu kynnst slíku áður.
3 Þessar eru þjóðirnar: Fimm höfðingjar Filistanna, allir Kanaanítar, Sídoningar og Hevítar, sem bjuggu á Líbanonfjöllum, frá fjallinu Baal Hermon allt þangað, er leið liggur til Hamat.
4 Voru þeir eftir til þess að reyna Ísrael með þeim, svo að augljóst yrði, hvort þeir vildu hlýða boðorðum Drottins, er hann hafði sett feðrum þeirra fyrir meðalgöngu Móse.
5 Þannig bjuggu Ísraelsmenn mitt á meðal Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.
6 Gengu þeir að eiga dætur þeirra og giftu sonum þeirra dætur sínar, og þjónuðu guðum þeirra.
7 Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins, og gleymdu Drottni, Guði sínum, og þjónuðu Baölum og asérum.
8 Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael, svo að hann seldi þá í hendur Kúsan Rísjataím, konungi í Aram í Norður-Mesópótamíu, og Ísraelsmenn þjónuðu Kúsan Rísjataím í átta ár.
9 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti Ísraelsmönnum upp hjálparmann, er hjálpaði þeim, Otníel Kenasson, bróður Kalebs og honum yngri.
10 Andi Drottins kom yfir hann, svo að hann rétti hluta Ísraels. Fór hann í hernað, og Drottinn gaf Kúsan Rísjataím, konung í Aram, í hendur honum, og hann varð Kúsan Rísjataím yfirsterkari.
11 Var síðan friður í landi í fjörutíu ár. Þá andaðist Otníel Kenasson.
12 Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, móti Ísrael, af því að þeir gjörðu það, sem illt var í augum Drottins.
13 Hann safnaði að sér Ammónítum og Amalekítum, fór því næst og vann sigur á Ísrael, og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald.
14 Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár.
15 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti þeim upp hjálparmann, Ehúð, son Gera Benjamíníta, en hann var maður örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab.
16 Ehúð hafði smíðað sér sax tvíeggjað, spannarlangt. Hann gyrti sig því undir klæðum á hægri hlið.
17 Og hann færði Eglón, konungi í Móab, skattinn, en Eglón var maður digur mjög.
18 Er hann hafði borið fram skattinn, lét hann mennina fara, er borið höfðu skattinn.
19 En sjálfur sneri hann aftur hjá skurðmyndunum í Gilgal. Ehúð sagði við konung: "Leyndarmál hefi ég að segja þér, konungur." Konungur sagði: "Þei!" og allir þeir gengu út, er kringum hann stóðu.
20 Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat aleinn í hinum svala þaksal sínum, og mælti: "Ég hefi erindi frá Guði við þig." Stóð konungur þá upp úr sæti sínu.
21 En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum.
22 Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu, svo að fal blaðið í ístrunni, því að eigi dró hann saxið úr kviði honum. Gekk hann þá út á þakið.
23 Síðan gekk Ehúð út í gegnum forsalinn og lukti dyrunum á þaksalnum á eftir sér og skaut loku fyrir.
24 En er hann var út genginn, komu þjónar konungs og sáu þeir að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: "Hann hefir víst sest niður erinda sinna inni í svala herberginu."
25 Biðu þeir nú, þar til er þeim leiddist biðin. Og er hann enn ekki lauk upp dyrunum á þaksalnum, þá tóku þeir lykilinn og luku upp, og lá þá herra þeirra dauður á gólfinu.
26 Ehúð hafði komist undan meðan þeir hinkruðu við. Hann var kominn út að skurðmyndunum og komst undan til Seíra.
27 Og er hann var þangað kominn, lét hann þeyta lúður á Efraímfjöllum. Fóru Ísraelsmenn þá með honum ofan af fjöllunum, en hann var fyrir þeim.
28 Og hann sagði við þá: "Fylgið mér, því að Drottinn hefir gefið óvini yðar, Móabítana, í hendur yður." Fóru þeir þá ofan á eftir honum og náðu öllum vöðum á Jórdan yfir til Móab og létu engan komast þar yfir.
29 Og þá felldu þeir af Móabítum um tíu þúsundir manna, og voru það allt sterkir menn og hraustir. Enginn komst undan.
30 Þannig urðu Móabítar á þeim degi að beygja sig undir vald Ísraels. Var nú friður í landi um áttatíu ár.
31 Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson. Hann felldi af Filistum sex hundruð manna með staf, er menn reka með naut. Þannig frelsaði hann einnig Ísrael.