Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

1 Samuel Fyrri Samúelsbók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31

1 Menn fluttu Davíð þessi tíðindi: "Sjá, Filistar herja á Kegílu og ræna kornláfana."
2 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: "Á ég að fara og herja á þessa Filista?" Drottinn sagði við Davíð: "Far þú og herja á Filistana og frelsaðu Kegílu."
3 En menn Davíðs sögðu við hann: "Sjá, vér erum hræddir um oss hér í Júda, hvað mun þá, ef vér förum til Kegílu á móti herfylkingum Filista?"
4 Þá gekk Davíð enn til frétta við Drottin, og Drottinn svaraði honum og sagði: "Tak þig upp og far til Kegílu, því að ég mun gefa Filista í hendur þér."
5 Síðan fór Davíð og menn hans til Kegílu, og hann herjaði á Filista, rak fénað þeirra burt og lagði fjölda þeirra að velli. Þannig frelsaði Davíð þá, sem bjuggu í Kegílu.
6 Þegar Abjatar Ahímeleksson flýði til Davíðs, þá hafði hann með sér hökul.
7 Sál var sagt frá því, að Davíð væri kominn til Kegílu. Þá mælti Sál: "Guð hefir selt hann mér á vald, því að hann hefir sjálfur byrgt sig inni með því að fara inn í borg með hliðum og slagbröndum."
8 Og Sál stefndi öllum lýðnum saman til hernaðar til þess að fara til Kegílu og gjöra umsát um Davíð og menn hans.
9 Þegar Davíð frétti, að Sál sæti á svikráðum við sig, sagði hann við Abjatar prest: "Kom þú hingað með hökulinn."
10 Og Davíð mælti: "Drottinn, Ísraels Guð! Þjónn þinn hefir sannspurt, að Sál ætli sér að koma til Kegílu til þess að eyða borgina mín vegna.
11 Hvort munu Kegílubúar framselja mig í hendur honum? Mun Sál koma hingað, eins og þjónn þinn hefir spurt? Drottinn, Ísraels Guð! Gjör það kunnugt þjóni þínum." Drottinn svaraði: "Já, hann mun koma."
12 Þá mælti Davíð: "Hvort munu Kegílubúar framselja mig og menn mína í hendur Sál?" Drottinn svaraði: "Já, það munu þeir gjöra."
13 Þá tók Davíð sig upp og hans menn, um sex hundruð manns, og þeir lögðu af stað frá Kegílu og sveimuðu víðsvegar. En er Sál frétti, að Davíð hefði forðað sér burt frá Kegílu, þá hætti hann við herförina.
14 Davíð hafðist við í eyðimörkinni uppi í fjallvígjum, og hann hafðist við á fjöllunum í Sífeyðimörku. Og Sál leitaði hans alla daga, en Guð gaf hann ekki í hendur honum.
15 Davíð varð hræddur, þegar Sál lagði af stað til þess að sækjast eftir lífi hans. Davíð var þá í Hóres í Sífeyðimörku.
16 Og Jónatan, sonur Sáls, tók sig upp og fór á fund Davíðs í Hóres og hughreysti hann í nafni Guðs
17 og sagði við hann: "Óttast þú ekki, því að Sál faðir minn mun eigi hendur á þér festa, en þú munt verða konungur yfir Ísrael, og mun ég þá ganga þér næstur. Sál faðir minn veit og þetta."
18 Og þeir gjörðu báðir sáttmála fyrir augliti Drottins. Og Davíð var kyrr í Hóres, en Jónatan fór heim til sín.
19 Þá komu Sífítar til Sáls í Gíbeu og sögðu: "Veistu að Davíð felur sig hjá oss í fjallvígjunum í Hóres, í Hahakílahæðunum, sunnarlega í Júdaóbyggðum?
20 Og ef þig nú fýsir, konungur, að koma þangað, þá kom þú. Vort hlutverk verður það þá að framselja hann í hendur konungi."
21 Sál mælti: "Blessaðir séuð þér af Drottni, fyrir það að þér kennduð í brjósti um mig.
22 Farið nú og takið enn vel eftir og kynnið yður og komist sem fyrst að raun um, hvar hann heldur sig, því að mér hefir verið sagt, að hann sé slægur mjög.
23 Og njósnið nú og kynnið yður öll þau fylgsni, er hann kann að felast í, og færið mér síðan örugga fregn af, og mun ég þá með yður fara. Og ef hann er í landinu, þá skal ég leita hann uppi meðal allra Júda þúsunda."
24 Þá tóku þeir sig upp og fóru á undan Sál til Síf. Davíð var þá með mönnum sínum í Maoneyðimörk, á sléttlendinu syðst í Júdaóbyggðum.
25 Og Sál fór að leita hans með mönnum sínum. Sögðu menn Davíð frá því, og fór hann þá niður að hamrinum, sem er í Maoneyðimörk. Og er Sál heyrði það, veitti hann Davíð eftirför inn í Maoneyðimörk.
26 Sál og menn hans fóru öðrumegin við fjallið, en Davíð og hans menn hinumegin við það. Davíð flýtti sér nú í angist að komast undan Sál, en Sál og menn hans voru að því komnir að umkringja Davíð og menn hans og taka þá höndum.
27 En þá kom sendimaður til Sáls og mælti: "Kom þú nú skjótt, því að Filistar hafa brotist inn í landið."
28 Þá hvarf Sál aftur og lét af að elta Davíð, en sneri í móti Filistum. Fyrir því var sá staður nefndur Aðskilnaðarklettur.
29 (24:1) Davíð fór þaðan og hafðist við uppi í fjallvígjum við Engedí.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]