Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

1 Samuel Fyrri Samúelsbók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31

1 Samúel dó, og allur Ísrael safnaðist saman og syrgði hann, og var hann grafinn hjá húsi sínu í Rama. Davíð tók sig upp og fór ofan í Maoneyðimörk.
2 En í Maon var maður, er bú átti í Karmel. Hann var auðugur mjög og átti þrjú þúsund sauðfjár og eitt þúsund geitur. Hann var þá að klippa sauði sína í Karmel.
3 Maður þessi hét Nabal og kona hans Abígail. Hún var kona vitur og fríð sýnum, en hann maður harður og illur viðureignar. Hann var af ætt Kalebs.
4 Og Davíð frétti í eyðimörkinni, að Nabal væri að klippa sauði sína.
5 Þá sendi Davíð tíu sveina. Og Davíð sagði við sveinana: "Farið til Karmel og gangið á fund Nabals og berið honum kveðju mína
6 og mælið svo við bróður minn: Heill sért þú og heill sé húsi þínu og heill sé öllu, sem þú átt.
7 Nú hefi ég heyrt, að verið sé að klippa sauði þína. Fjárhirðar þínir hafa með oss verið og vér höfum þeim ekkert mein gjört, enda hefir þeim einskis vant orðið allan þann tíma, er þeir hafa verið í Karmel.
8 Spyr þú sveina þína, og munu þeir segja þér hið sanna. Lát því sveinana finna náð í augum þínum, því að á hátíðardegi erum vér komnir. Gef því þjónum þínum og Davíð syni þínum það, sem þú hefir fyrir hendi."
9 Þegar sveinar Davíðs komu á fund Nabals, fluttu þeir honum öll þessi orð í nafni Davíðs og þögnuðu síðan.
10 En Nabal svaraði þjónum Davíðs og mælti: "Hver er Davíð? Og hver er Ísaíson? Margir gjörast þeir nú þrælarnir, sem strjúka frá húsbændum sínum.
11 Á ég að taka brauð mitt og vín og sláturfé mitt, sem ég hefi slátrað handa sauðaklippurum mínum, og gefa það mönnum, sem ég ekki einu sinni veit hvaðan eru?"
12 Þá sneru sveinar Davíðs á leið og hurfu aftur og komu og fluttu honum öll þessi orð.
13 Þá mælti Davíð til sinna manna: "Gyrðið yður nú, hver sínu sverði!" Og þeir gyrtu sig, hver sínu sverði. Síðan gyrtist og Davíð sínu sverði, og lögðu þeir nú af stað undir forystu Davíðs, um fjögur hundruð manns, en tvö hundruð urðu eftir hjá farangrinum.
14 Einn af sveinum Nabals sagði Abígail, konu Nabals, frá þessu og mælti: "Sjá, Davíð gjörði sendimenn úr eyðimörkinni með kveðju til húsbónda vors, en hann jós yfir þá fáryrðum.
15 Og menn þessir hafa þó verið mjög góðir við oss. Oss hefir ekkert mein verið gjört og oss hefir einskis vant orðið allan þann tíma, er vér héldum oss nálægt þeim, meðan vér vorum í haganum.
16 Þeir voru sem varnargarður í kringum oss bæði um nætur og daga allan þann tíma, er vér héldum fénu til haga nálægt þeim.
17 Hygg nú að og sjá til, hvað þú skalt gjöra, því að ógæfa er búin húsbónda vorum og öllu húsi hans, en hann er slíkt hrakmenni, að ekki má við hann mæla."
18 Þá brá Abígail við og tók tvö hundruð brauð og tvo vínlegla, fimm tilreidda sauði og fimm mæla af bökuðu korni, hundrað rúsínukökur og tvö hundruð fíkjukökur og klyfjaði með asna
19 og sagði við sveina sína: "Farið á undan mér, sjá, ég kem á eftir yður." En Nabal manni sínum sagði hún ekki frá þessu.
20 Og er hún kom ríðandi á asna ofan fjallið og var í hvarfi, sjá, þá kom Davíð með menn sína ofan í móti henni, og rakst hún þar á þá.
21 En Davíð hafði sagt: "Já, til einskis hefi ég varðveitt allt, sem sá maður átti á eyðimörkinni, svo að einskis varð vant af öllu, sem hann átti. Hann hefir launað mér gott með illu.
22 Guð láti Davíð gjalda þess nú og síðar, ef ég læt eftir verða einn karlmann af öllu því, sem hann á, þegar birtir á morgun."
23 En er Abígail sá Davíð, sté hún sem skjótast niður af asnanum og féll fram á ásjónu sína fyrir Davíð og laut til jarðar.
24 Og hún féll honum til fóta og mælti: "Sökin hvílir á mér, herra minn! Leyf ambátt þinni að tala við þig og hlýð á orð ambáttar þinnar.
25 Skeyt eigi, herra minn, um hrakmenni þetta, hann Nabal, því að hann ber nafn með réttu. Heimskingi heitir hann og heimskur er hann. En ég, ambátt þín, hefi ekki séð sveinana, er þú, herra minn, sendir.
26 Og nú, herra minn, svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem þú lifir og Drottinn hefir aftrað þér frá að úthella blóði og hefna þín sjálfur, þá verði nú óvinir þínir sem Nabal og allir þeir, sem sitja um að gjöra þér illt, herra!
27 Og gáfu þessa, sem þerna þín hefir fært þér, herra minn, lát nú gefa hana sveinunum, sem eru í fylgd með þér, herra minn!
28 Fyrirgef afbrot ambáttar þinnar, því að veita mun Drottinn herra mínum staðfast hús, af því að herra minn heyir bardaga Drottins, og illt mun ekki finnast í fari þínu meðan þú lifir.
29 Og rísi einhver maður upp til þess að ofsækja þig og sitja um líf þitt, þá sé líf herra míns bundið í bundini lifandi manna hjá Drottni, Guði þínum, en lífi óvina þinna þeyti hann burt úr slöngvunni.
30 Og þegar Drottinn veitir þér, herra minn, öll þau gæði, er hann hefir þér heitið, og hefir skipað þig höfðingja yfir Ísrael,
31 þá mun það ekki verða þér til ásteytingar né herra mínum að samviskubiti, að herra minn hafi úthellt blóði að orsakalausu og hefnt sín sjálfur. En þegar Drottinn gjörir vel við þig, herra minn, þá minnstu ambáttar þinnar."
32 Þá mælti Davíð til Abígail: "Lofaður veri Drottinn, Ísraels Guð, sem sendi þig í dag á minn fund.
33 Og blessuð séu hyggindi þín og blessuð sért þú sjálf, sem aftrað hefir mér í dag frá að baka mér blóðskuld og að hefna mín sjálfur.
34 En svo sannarlega sem Drottinn, Ísraels Guð, lifir, sem varðveitt hefir mig frá að gjöra þér illt, hefðir þú eigi hraðað þér svo á minn fund, þá myndi eigi nokkur af mönnum Nabals hafa beðið morguns ódrepinn."
35 Og Davíð tók við því af henni, sem hún færði honum, og sagði við hana: "Far þú í friði heim til þín. Sjá, ég hefi hlýtt á mál þitt og veitt þér bæn þína."
36 Þegar Abígail kom til Nabals, þá hafði hann veislu í húsi sínu, sem konungsveisla væri. Var Nabal hinn kátasti og drukkinn mjög. Sagði hún honum ekkert, hvorki smátt né stórt, fyrr en birti morguninn eftir.
37 En um morguninn, þá er víman var runnin af Nabal, sagði kona hans honum öll þessi tíðindi. Þá dó hjartað í brjósti honum og hann varð sem steinn.
38 Og að eitthvað tíu dögum liðnum laust Drottinn Nabal, svo að hann dó.
39 Þegar Davíð frétti, að Nabal væri dáinn, mælti hann: "Lofaður sé Drottinn, sem hefnt hefir svívirðu minnar á Nabal og haldið hefir þjóni sínum frá illu. En illsku Nabals hefir Drottinn látið honum sjálfum í koll koma." Sendi þá Davíð menn til Abígail þess erindis, að hann vill fá hennar sér til eiginkonu.
40 Þjónar Davíðs komu til Abígail í Karmel og mæltu svo til hennar: "Davíð hefir sent oss á þinn fund þess erindis, að hann vill fá þín sér til eiginkonu."
41 Þá stóð hún upp og hneigði andlit sitt til jarðar og mælti: "Sjá, ambátt þín er þess albúin að gjörast þerna til þess að þvo fætur þjóna herra míns."
42 Síðan bjó Abígail sig í skyndi og steig á bak asna sínum, svo og meyjar hennar fimm, þær er með henni fóru. Hún fór með sendimönnum Davíðs og varð kona hans.
43 Akínóam frá Jesreel hafði Davíð fengið sér til eiginkonu, og báðar urðu þær konur hans.
44 En Sál hafði gefið Míkal dóttur sína, konu Davíðs, Paltí Laíssyni frá Gallím.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]