Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

2 Kings Síðari konungabók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25

1 Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Jeróbóams Ísraelskonungs tók ríki Asaría sonur Amasía Júdakonungs.
2 Hann var sextán vetra gamall, er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem.
3 Hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans.
4 Þó voru fórnarhæðirnar eigi afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.
5 Og Drottinn sló konung, svo að hann varð líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni, einn sér, en Jótam konungsson veitti forstöðu höllinni og dæmdi mál landsmanna.
6 Það sem meira er að segja um Asaría og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
7 Og Asaría lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jótam sonur hans tók ríki eftir hann.
8 Á þrítugasta og áttunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Sakaría Jeróbóamsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sex mánuði.
9 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört höfðu forfeður hans. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.
10 Sallúm Jabesson hóf samsæri gegn honum og drap hann í Jibleam og tók ríki eftir hann.
11 Það sem meira er að segja um Sakaría, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
12 Rættist þannig orð Drottins, það er hann hafði talað til Jehú: ,Niðjar þínir í fjórða lið skulu sitja í hásæti Ísraels.' Og það varð svo.
13 Sallúm Jabesson varð konungur á þrítugasta og níunda ríkisári Ússía Júdakonungs og ríkti mánaðartíma í Samaríu.
14 Þá fór Menahem Gadíson frá Tirsa, kom til Samaríu og drap Sallúm Jabesson í Samaríu og tók ríki eftir hann.
15 Það sem meira er að segja um Sallúm og samsærið, sem hann hóf, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
16 Þá eyddi Menahem Tappúa og öllu, sem í henni var, og allt landið umhverfis hana frá Tirsa, af því að menn höfðu eigi lokið borgarhliðum upp fyrir honum, og allar þungaðar konur í borginni lét hann rista á kvið.
17 Á þrítugasta og níunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Menahem Gadíson konungur yfir Ísrael og ríkti tíu ár í Samaríu.
18 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.
19 Á hans dögum réðst Púl Assýríukonungur inn í landið, og Menahem gaf Púl þúsund talentur silfurs til liðsinnis við sig og til þess að tryggja konungdóm sinn.
20 Bauð Menahem öllum Ísrael, öllum auðmönnum, að greiða Assýríukonungi féð: fimmtíu sikla silfurs hverjum. Sneri þá Assýríukonungur heim aftur og hafði eigi lengri dvöl þar í landi.
21 Það sem meira er að segja um Menahem og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
22 Og Menahem lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Pekaja sonur hans tók ríki eftir hann.
23 Á fimmtugasta ríkisári Asaría Júdakonungs varð Pekaja Menahemsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tvö ár.
24 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.
25 Peka Remaljason riddari hans hóf samsæri gegn honum og drap hann í Samaríu, í vígi konungshalllarinnar, ásamt Argób og Arje, og voru fimmtíu manns af Gíleaðítum með honum. Og er hann hafði stytt honum aldur, tók hann ríki eftir hann.
26 Það sem meira er að segja um Pekaja og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
27 Á fimmtugasta og öðru ríkisári Asaría Júdakonungs varð Peka Remaljason konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tuttugu ár.
28 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.
29 Á dögum Peka Ísraelskonungs kom Tíglat Píleser Assýríukonungur og tók Íjón, Abel Bet Maaka, Janóa, Kedes, Hasór, Gíleað og Galíleu, allt Naftalíland, og herleiddi íbúana til Assýríu.
30 Þá hóf Hósea Elason samsæri gegn Peka Remaljasyni, drap hann og tók ríki eftir hann, á tuttugasta ríkisári Jótams Ússíasonar.
31 Það sem meira er að segja um Peka og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
32 Á öðru ríkisári Peka Remaljasonar Ísraelskonungs tók ríki Jótam, sonur Ússía Júdakonungs.
33 Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa Sadóksdóttir.
34 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Ússía faðir hans.
35 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. Hann reisti efra hliðið á musteri Drottins.
36 Það sem meira er að segja um Jótam og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
37 Um þær mundir tók Drottinn að hleypa þeim Resín Sýrlandskonungi og Peka Remaljasyni á Júda.
38 Og Jótam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Akas sonur hans tók ríki eftir hann.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]