Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

2 Kings Síðari konungabók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25

1 En Elísa mælti: "Heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn: Á morgun í þetta mund mun ein sea af fínu mjöli kosta einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil í borgarhliði Samaríu."
2 Riddari sá, er konungur studdist við, svaraði þá guðsmanninum og mælti: "Þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti þetta verða?" Elísa svaraði: "Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta."
3 Fjórir menn líkþráir voru úti fyrir borgarhliði Samaríu. Sögðu þeir hver við annan: "Hví eigum vér að sitja hér, þangað til vér deyjum?
4 Ef vér segjum: ,Vér skulum fara inn í borgina,' þá er hungur í borginni og þá munum vér deyja þar, og ef vér sitjum hér kyrrir, munum vér og deyja. Skulum vér því fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. Ef þeir láta oss lífi halda, þá lifum vér, en drepi þeir oss, þá deyjum vér."
5 Stóðu þeir síðan upp í rökkrinu til þess að fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. En er þeir komu út að herbúðum Sýrlendinga, þá var þar enginn maður.
6 Drottinn hafði látið heyrast í herbúðir Sýrlendinga vagnagný og jódyn, gný af miklu herliði, svo að þeir sögðu hver við annan: "Sjá, Ísraelskonungur hefir leigt gegn oss konunga Hetíta og konunga Egyptalands til þess að ráðast á oss."
7 Þá hlupu þeir upp í rökkrinu og flýðu og létu eftir tjöld sín og hesta og asna - herbúðirnar eins og þær voru - og flýðu til þess að forða lífinu.
8 En er hinir líkþráu menn komu út að herbúðunum, gengu þeir inn í eitt tjaldið, átu og drukku, höfðu þaðan silfur, gull og klæði og gengu burt og fólu það. Síðan komu þeir aftur, gengu inn í annað tjald, höfðu og nokkuð þaðan, gengu burt og fólu.
9 Því næst sögðu þeir hver við annan: "Þetta er ekki rétt gjört af oss. Þessi dagur er dagur fagnaðartíðinda. En ef vér þegjum og bíðum þangað til í býti á morgun, þá mun það oss í koll koma. Vér skulum því fara og flytja tíðindin í konungshöllina."
10 Síðan fóru þeir, kölluðu til hliðvarða borgarinnar og sögðu þeim svo frá: "Vér komum í herbúðir Sýrlendinga. Þar var þá enginn maður, og engin mannsraust heyrðist, en hestar og asnar stóðu þar bundnir og tjöldin eins og þau voru."
11 Þá kölluðu hliðverðirnir og menn sögðu frá því inni í konungshöllinni.
12 Þá reis konungur upp um nóttina og sagði við menn sína: "Ég skal segja yður, hvað Sýrlendingar ætla nú að gjöra oss. Þeir vita, að vér sveltum. Hafa þeir því farið burt úr herbúðunum til þess að fela sig úti á mörkinni, með því að þeir hugsa: Þegar þeir fara út úr borginni, skulum vér taka þá höndum lifandi og brjótast inn í borgina."
13 Þá tók einn af mönnum hans til máls og sagði: "Taki menn fimm af hestunum, sem eftir eru. Fyrir þeim, sem hér eru eftir skildir, fer eins og fyrir öllum fjölda Ísraels, sem þegar er farinn veg allrar veraldar. Skulum vér senda þá til þess að vita, hvað um er að vera."
14 Tóku þeir þá tvo vagna með hestum fyrir. Sendi konungur þá á eftir her Sýrlendinga og sagði: "Farið og gætið að!"
15 Fóru þeir þá á eftir þeim alla leið til Jórdanar, og var allur vegurinn þakinn klæðum og vopnum, sem Sýrlendingar höfðu varpað frá sér, er þeir flýðu í ofboði. Sneru sendimennirnir þá við og fluttu konungi tíðindin.
16 Þá gekk lýðurinn út og rændi herbúðir Sýrlendinga, og fór þá svo, að ein sea af fínu mjöli kostaði einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil, eins og Drottinn hafði sagt.
17 En konungur setti riddarann, er hann hafði stuðst við, til að gæta hliðsins, og tróð lýðurinn hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana samkvæmt því orði guðsmannsins, er hann hafði talað, þá er konungur fór ofan til hans.
18 Því að þegar guðsmaðurinn sagði við konunginn: "Í þetta mund á morgun munu tvær seur af byggi kosta einn sikil og ein sea af fínu mjöli einn sikil í Samaríuhliði,"
19 þá svaraði riddarinn guðsmanninum og sagði: "Sjá, þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti slíkt verða?" En Elísa svaraði: "Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta."
20 Og svo fór fyrir honum. Lýðurinn tróð hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]