Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

2 Kings Síðari konungabók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25

1 Spámannasveinarnir sögðu við Elísa: "Húsrýmið, þar sem vér búum hjá þér, er of lítið fyrir oss.
2 Leyf oss að fara ofan að Jórdan og taka þar sinn bjálkann hver, til þess að vér getum gjört oss bústað." Hann mælti: "Farið þér!"
3 En einn af þeim mælti: "Gjör oss þann greiða að fara með þjónum þínum." Hann mælti: "Ég skal fara."
4 Síðan fór hann með þeim. Þegar þeir komu að Jórdan, tóku þeir að höggva tré.
5 En er einn þeirra var að fella bjálka, hraut öxin af skafti út á ána. Hljóðaði hann þá upp yfir sig og mælti: "Æ, herra minn - og það var lánsöxi!"
6 Þá sagði guðsmaðurinn: "Hvar datt hún?" Og er hann sýndi honum staðinn, sneið hann af viðargrein, skaut henni þar ofan í ána og lét járnið fljóta.
7 Síðan sagði hann: "Náðu henni nú upp!" Þá rétti hann út höndina og náði henni.
8 Þegar Sýrlandskonungur átti í ófriði við Ísrael, ráðgaðist hann um við menn sína og mælti: "Á þeim og þeim stað skuluð þér leggjast í launsátur."
9 En guðsmaðurinn sendi til Ísraelskonungs og lét segja honum: "Varast þú að fara fram hjá þessum stað, því að Sýrlendingar liggja þar í launsátri."
10 Þá sendi Ísraelskonungur á þann stað, sem guðsmaðurinn hafði nefnt við hann. Varaði hann konung þannig við í hvert sinn, og gætti hann sín þar, og það oftar en einu sinni eða tvisvar.
11 Út af þessu varð Sýrlandskonungur órór í skapi, kallaði á menn sína og sagði við þá: "Getið þér ekki sagt mér, hver af vorum mönnum ljóstrar upp fyrirætlunum vorum við Ísraelskonung?"
12 Þá sagði einn af þjónum hans: "Því er eigi svo farið, minn herra konungur, heldur flytur Elísa spámaður, sem er í Ísrael, Ísraelskonungi þau orð, sem þú talar í svefnherbergi þínu."
13 Þá sagði hann: "Farið og vitið, hvar hann er, svo að ég geti sent menn og látið sækja hann." Var honum þá sagt, að hann væri í Dótan.
14 Þá sendi hann þangað hesta og vagna og mikinn her. Komu þeir þangað um nótt og slógu hring um borgina.
15 Þegar Elísa kom út árla næsta morgun, umkringdi her með hestum og vögnum borgina. Þá sagði sveinn hans við hann: "Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?"
16 Hann svaraði: "Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru."
17 Og Elísa gjörði bæn sína og mælti: "Drottinn, opna þú augu hans, svo að hann sjái." Þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kring um Elísa.
18 Fóru Sýrlendingar nú niður í móti honum, en Elísa gjörði bæn sína til Drottins og mælti: "Slá fólk þetta með blindu." Þá sló hann það með blindu eftir beiðni Elísa.
19 Síðan sagði Elísa við þá: "Þetta er ekki vegurinn og þetta er ekki borgin. Komið með mér, ég skal fylgja yður til mannsins, sem þér leitið að." Og hann fór með þá til Samaríu.
20 En er þeir komu til Samaríu, mælti Elísa: "Drottinn, opna þú nú augu þeirra, svo að þeir sjái." Þá opnaði Drottinn augu þeirra, og þeir sáu, að þeir voru komnir inn í miðja Samaríu.
21 En er Ísraelskonungur sá þá, sagði hann við Elísa: "Faðir minn, á ég að höggva þá niður?"
22 En hann svaraði: "Eigi skalt þú höggva þá niður. Ert þú vanur að höggva þá niður, er þú hertekur með sverði þínu og boga? Set fyrir þá brauð og vatn, svo að þeir megi eta og drekka. Síðan geta þeir farið heim til herra síns."
23 Þá bjó hann þeim mikla máltíð, og þeir átu og drukku. Síðan lét hann þá í burt fara, og fóru þeir heim til herra síns. Upp frá þessu komu ránsflokkar Sýrlendinga eigi framar inn í land Ísraels.
24 Eftir þetta bar svo til, að Benhadad Sýrlandskonungur dró saman allan her sinn og fór og settist um Samaríu.
25 Þá varð hungur svo mikið í Samaríu, er þeir sátu um hana, að asnahöfuð kostaði áttatíu sikla silfurs og fjórðungur úr kab af dúfnadrit fimm sikla silfurs.
26 Þegar Ísraelskonungur var á gangi uppi á borgarveggnum, kallaði kona nokkur til hans og mælti: "Hjálpa þú, herra konungur!"
27 Hann mælti: "Ef Drottinn hjálpar þér ekki, hvaðan á ég þá að taka hjálp handa þér? Úr láfanum eða úr vínþrönginni?"
28 Og konungur sagði við hana: "Hvað viltu þá?" Hún svaraði: "Konan þarna sagði við mig: ,Sel fram son þinn og skulum við eta hann í dag, en á morgun skulum við eta minn son.'
29 Suðum við síðan minn son og átum hann. En er ég sagði við hana daginn eftir: ,Sel þú fram son þinn og skulum við eta hann,' þá fal hún son sinn."
30 Er konungur heyrði þessi ummæli konunnar, reif hann klæði sín þar sem hann stóð á múrnum. Sá þá lýðurinn, að hann hafði hærusekk á líkama sínum innstan klæða.
31 Þá sagði hann: "Guð gjöri mér hvað sem hann vill nú og síðar, ef höfuðið situr á Elísa Safatssyni til kvölds."
32 En Elísa sat í húsi sínu, og öldungarnir sátu hjá honum. Sendi þá konungur mann á undan sér, en áður en sendimaðurinn kom til hans, sagði Elísa við öldungana: "Vitið þér, að þessi morðhundur hefir sent hingað til þess að höggva af mér höfuðið? Gætið þess að loka dyrunum, þegar sendimaðurinn kemur, og standið fyrir hurðinni, svo að hann komist ekki inn. Heyrist ekki þegar fótatak húsbónda hans á eftir honum?"
33 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom konungur þegar ofan til hans og mælti: "Sjá, hvílíka ógæfu Drottinn lætur yfir dynja. Hví skyldi ég lengur vona á Drottin?"

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]