Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Job Jobsbók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42

1 En nú hlæja þeir að mér, sem yngri eru en ég, mundi ég þó ekki hafa virt feður þeirra þess að setja þá hjá fjárhundum mínum.
2 Hvað hefði og kraftur handa þeirra stoðað mig, þar sem þeir aldrei verða fullþroska?
3 Þeir eru örmagna af skorti og hungri, naga þurrt landið, sem í gær var auðn og eyðimörk.
4 Þeir reyta hrímblöðku hjá runnunum, og gýfilrætur er fæða þeirra.
5 Þeir eru flæmdir úr félagi manna, menn æpa að þeim eins og að þjóf,
6 svo að þeir verða að hafast við í hræðilegum gjám, í jarðholum og berghellum.
7 Milli runnanna rymja þeir, og undir netlunum safnast þeir saman,
8 guðlaust og ærulaust kyn, útreknir úr landinu.
9 Og nú er ég orðinn þeim að háðkvæði og orðinn umtalsefni þeirra.
10 Þeir hafa andstyggð á mér, koma ekki nærri mér og hlífast jafnvel ekki við að hrækja framan í mig.
11 Þar sem Guð hefir leyst streng sinn og beygt mig, þá sleppa þeir og beislinu fram af sér gagnvart mér.
12 Mér til hægri handar vex hyski þeirra upp, fótum mínum hrinda þeir frá sér og leggja glötunarbrautir sínar gegn mér.
13 Þeir hafa rifið upp stig minn, að falli mínu styðja þeir, sem engan hjálparmann eiga.
14 Þeir koma sem inn um vítt múrskarð, velta sér áfram innan um rústir.
15 Skelfingar hafa snúist móti mér, tign mín er ofsótt eins og af stormi, og gæfa mín er horfin eins og ský.
16 Og nú rennur sála mín sundur í tárum, eymdardagar halda mér föstum.
17 Nóttin nístir bein mín, svo að þau losna frá mér, og hinar nagandi kvalir mínar hvílast ekki.
18 Fyrir mikilleik máttar hans er klæðnaður minn aflagaður, hann lykur fast um mig, eins og hálsmál kyrtils míns.
19 Guð hefir kastað mér ofan í saurinn, svo að ég er orðinn eins og mold og aska.
20 Ég hrópa til þín, en þú svarar ekki, ég stend þarna, en þú starir á mig.
21 Þú ert orðinn grimmur við mig, með krafti handar þinnar ofsækir þú mig.
22 Þú lyftir mér upp á vindinn, lætur mig þeytast áfram, og þú lætur mig farast í stormgný.
23 Því að ég veit, að þú vilt leiða mig til Heljar, í samkomustað allra þeirra er lifa.
24 En - rétta menn ekki út höndina, þegar allt hrynur? eða hrópa menn ekki á hjálp, þegar þeir eru að farast?
25 Eða grét ég ekki yfir þeim, sem átti illa daga, og hryggðist ekki sál mín vegna fátæklingsins?
26 Já, ég bjóst við góðu, en þá kom illt, vænti ljóss, en þá kom myrkur.
27 Það sýður í innýflum mínum án afláts, eymdardagar eru yfir mig komnir.
28 Svartur geng ég um, þó ekki af sólarhita, ég stend upp, í söfnuðinum hrópa ég á hjálp.
29 Ég er orðinn bróðir sjakalanna og félagi strútsfuglanna.
30 Hörund mitt er orðið svart og flagnar af mér, og bein mín eru brunnin af hita.
31 Og fyrir því varð gígja mín að gráti og hjarðpípa mín að harmakveini.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]