Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Job Jobsbók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42

1 Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar?
2 Og hvert væri þá hlutskiptið frá Guði hér að ofan og arfleifðin frá hinum Almáttka af hæðum?
3 Er það ekki glötun fyrir glæpamanninn og ógæfa fyrir þá, er illt fremja?
4 Sér hann ekki vegu mína, og telur hann ekki öll mín spor?
5 Hafi ég gengið með lyginni og fótur minn hraðað sér til svika -
6 vegi Guð mig á rétta vog, til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt! -
7 hafi spor mín vikið af leið, hjarta mitt farið eftir fýsn augna minna og flekkur loðað við hendur mínar,
8 þá eti annar það, sem ég sái, og frjóangar mínir verði rifnir upp með rótum.
9 Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu, og hafi ég staðið á hleri við dyr náunga míns,
10 þá mali kona mín fyrir annan, og aðrir menn leggist með henni.
11 Því að slíkt væri óhæfa og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir,
12 því að það væri eldur, sem eyðir ofan í undirdjúpin og hlyti að uppræta allar eigur mínar.
13 Hafi ég lítilsvirt rétt þjóns míns eða þernu minnar, þá er þau áttu í deilu við mig,
14 hvað ætti ég þá að gjöra, þegar Guð risi upp, og hverju svara honum, þegar hann rannsakaði?
15 Hefir eigi sá er mig skóp, skapað þjón minn í móðurlífi, og hefir ekki hinn sami myndað okkur í móðurkviði?
16 Hafi ég synjað fátækum bónar og látið augu ekkjunnar daprast,
17 hafi ég etið bitann minn einn; og munaðarleysinginn ekkert fengið af honum -
18 nei, frá barnæsku minni hefir hann vaxið upp hjá mér sem hjá föður og frá móðurlífi hefi ég leitt hann -
19 hafi ég séð aumingja klæðlausan og snauðan mann ábreiðulausan,
20 hafi lendar hans ekki blessað mig og hafi honum ekki hitnað við ullina af sauðum mínum;
21 hafi ég reitt hnefann að munaðarleysingjanum, af því að ég sá mér liðsvon í borgarhliðinu,
22 þá detti axlir mínar frá herðunum og handleggur minn brotni úr axlarliðnum.
23 Því að glötunin frá Guði var mér skelfileg, og gegn hátign hans megna ég ekkert.
24 Hafi ég gjört gullið að athvarfi mínu og nefnt skíragullið fulltrúa minn,
25 hafi ég glaðst yfir því, að auður minn var mikill og að hönd mín aflaði svo ríkulega,
26 hafi ég horft á sólina, hversu hún skein, og á tunglið, hversu dýrlega það óð áfram,
27 og hafi hjarta mitt þá látið tælast í leynum, svo að ég bæri hönd að munni og kyssti hana,
28 það hefði líka verið hegningarverð synd, því að þá hefði ég afneitað Guði á hæðum.
29 Hafi ég glaðst yfir óförum fjandmanns míns og hlakkað yfir því, að ógæfa kom yfir hann -
30 nei, aldrei hefi ég leyft munni mínum svo að syndga að ég með formælingum óskaði dauða hans.
31 Hafa ekki heimilismenn mínir sagt: "Hvenær hefir nokkur farið ósaddur frá borði hans?"
32 ég lét ekki aðkomumann nátta á bersvæði, heldur opnaði ég dyr mínar fyrir ferðamanninum.
33 Hafi ég hulið yfirsjónir mínar, eins og menn gjöra, og falið misgjörð mína í brjósti mínu,
34 af því að ég hræddist mannfjöldann, og af því að fyrirlitning ættanna fældi mig, svo að ég hafði hægt um mig og fór ekki út fyrir dyr,
35 Ó að ég hefði þann, er hlusta vildi á mig! Hér er undirskrift mín - hinn Almáttki svari mér! Sá sem mig ákærir, skrifi sitt ákæruskjal!
36 Vissulega skyldi ég bera það á öxlinni, binda það sem höfuðsveig um ennið,
37 ég skyldi segja Guði frá hverju spori mínu og ganga sem höfðingi fram fyrir hann!
38 hafi akurland mitt hrópað undan mér og öll plógför þess grátið,
39 hafi ég etið gróður þess endurgjaldslaust og slökkt líf eiganda þess,
40 þá spretti þyrnar upp í stað hveitis og illgresi í stað byggs. Hér enda ræður Jobs.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]