Job Jobsbók
1 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:
2 Hversu lengi ætlar þú slíkt að mæla og orðin í munni þínum að vera hvass vindur?
3 Hallar þá Guð réttinum, eða hallar hinn Almáttki réttlætinu?
4 Hafi börn þín syndgað móti honum, þá hefir hann selt þau misgjörð þeirra á vald.
5 En ef þú leitar Guðs og biður hinn Almáttka miskunnar -
6 ef þú ert hreinn og einlægur - já, þá mun hann þegar vakna til að sinna þér og endurreisa bústað þíns réttlætis.
7 Þá mun þinn fyrri hagur virðast lítilfjörlegur, en framtíðarhagur þinn vaxa stórum.
8 Spyr þú hina fyrri kynslóð og gef þú gaum að reynslu feðranna.
9 Vér erum síðan í gær og vitum ekkert, því að skuggi eru dagar vorir á jörðunni.
10 En þeir munu fræða þig, segja þér það og bera fram orð úr sjóði hjarta síns:
11 "Sprettur pappírssefið þar sem engin mýri er? vex störin nema í vatni?
12 Enn stendur hún í blóma og verður eigi slegin, en hún skrælnar fyrr en nokkurt annað gras."
13 Svo fer fyrir hverjum þeim, sem gleymir Guði, og von hins guðlausa verður að engu.
14 Athvarf hans brestur sundur, og köngullóarvefur er það, sem hann treystir.
15 Hann styðst við hús sitt, en það stendur ekki, hann heldur sér fast í það, en það stenst ekki.
16 Hann er safarík skríðandi flétta í sólskini, sem teygir jarðstöngla sína um garðinn
17 og vefur rótum sínum um grjóthrúgur og læsir sig milli steinanna.
18 En ef hann er upprættur frá stað sínum, þá afneitar staðurinn honum og segir: "Ég hefi aldrei séð þig!"
19 Sjá, þetta er öll gleði hans, og aðrir spretta í staðinn upp úr moldinni.
20 Sjá, Guð hafnar ekki hinum ráðvanda og heldur ekki í hönd illgjörðamanna.
21 Enn mun hann fylla munn þinn hlátri og varir þínar fagnaðarópi.
22 Þeir sem hata þig, munu skömminni klæðast, og tjald hinna óguðlegu mun horfið vera.