Isaiah Jesaja
1 Spádómur um öræfin við hafið. Eins og fellibyljir í suðurlandinu geysist það áfram, það kemur úr öræfunum, úr hinu hræðilega landi.
2 Hörð tíðindi hafa mér birt verið: "Ránsmenn ræna, hermenn herja! Áfram, Elamítar! Gjörið umsát, Medíumenn! Ég gjöri enda á öllum andvörpum."
3 Þess vegna skjálfa lendar mínar, þess vegna hremma sárir verkir mig, eins og hríðir jóðsjúka konu. Ég engist saman, svo að ég heyri ekkert, ég er svo agndofa, að ég sé ekkert.
4 Hjarta mitt er ringlað, skelfing er skyndilega yfir mig komin. Nú er nóttin, sem ég jafnan hefi þráð, orðin mér að skelfingu.
5 Borðin eru sett fram og ábreiðurnar breiddar á hvílubekkina, etið er og drukkið. "Rísið upp, þjóðhöfðingjar! Smyrjið skjölduna!"
6 Svo sagði Drottinn við mig: "Far þú og nem staðar á sjónarhólnum og seg, hvað þú sér.
7 Og sjáir þú menn á reið, tvo reiðmenn, annan ríðandi á asna, hinn á úlfalda, þá legg þú hlustirnar við."
8 En ég kallaði: "Æ, Drottinn, á ég að standa allan daginn á sjónarhól og vera á varðbergi nótt eftir nótt?"
9 En sjá, þá komu menn ríðandi, tveir reiðmenn. Og þeir tóku til orða og sögðu: "Fallin, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni."
10 Kramda og þreskta þjóðin mín, það sem ég hefi heyrt af Drottni allsherjar, Guði Ísraels, það hefi ég kunngjört yður.
11 Spádómur um Dúma. Það er kallað til mín frá Seír: "Vökumaður, hvað líður nóttinni? Vökumaður, hvað líður nóttinni?"
12 Vökumaðurinn svarar: "Morgunninn kemur, og þó er nótt. Ef þér viljið spyrja, þá komið aftur og spyrjið."
13 Spádómur um Arabíu. Takið náttstað í kjarrinu að kveldi, þér kaupmannalestir Dedansmanna!
14 Komið út með vatn á móti hinum þyrstu, þér sem búið í Temalandi! Færið brauð flóttamönnunum!
15 Því þeir flýja undan sverðunum, undan brugðnu sverði, undan bendum boga, undan þunga ófriðarins.
16 Því að svo hefir Drottinn sagt við mig: Áður en eitt ár er liðið, eins og ár kaupamanna eru talin, skal öll vegsemd Kedars að engu verða,
17 og leifarnar, sem eftir verða af bogum Kedarínga kappa, munu verða teljandi, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir sagt það.