Isaiah Jesaja
1 Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar.
2 Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.
3 Hann sagði við mig: "Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína."
4 En ég sagði: "Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum."
5 En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, - og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur -
6 nú segir hann: "Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar."
7 Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem fólk hefir andstyggð á, við þjón harðstjóranna: Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.
8 Svo segir Drottinn: Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig, og á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér. Ég varðveiti þig og gjöri þig að sáttmála fyrir lýðinn, til þess að reisa við landið, til þess að úthluta erfðahlutum, sem komnir eru í auðn,
9 til þess að segja hinum fjötruðu: "Gangið út," og þeim sem í myrkrunum eru: "Komið fram í dagsbirtuna." Fram með vegunum skulu þeir vera á beit, og á öllum gróðurlausum hæðum skal vera beitiland fyrir þá.
10 Þá skal ekki hungra og ekki þyrsta, og eigi skal breiskjuloftið og sólarhitinn vinna þeim mein, því að miskunnari þeirra vísar þeim veg og leiðir þá að uppsprettulindum.
11 Ég gjöri öll mín fjöll að vegi, og brautir mínar skulu hækka.
12 Sjá, sumir koma langt að, sumir frá norðri og vestri, aðrir frá Syene.
13 Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu.
14 Síon segir: "Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!"
15 Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.
16 Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.
17 Byggjendur þínir koma með flýti, en þeir, sem brutu þig niður og lögðu þig í rústir, víkja burt frá þér.
18 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, skalt þú íklæðast þeim öllum sem skarti og belta þig með þeim sem brúður.
19 Því að rústir þínar, eyðistaðir þínir og umturnað land þitt - já, nú verður þú of þröng fyrir íbúana og eyðendur þínir munu vera langt í burtu.
20 Enn munu börnin frá árunum, er þú varst barnalaus, segja í eyru þér: "Hér er of þröngt um mig. Færðu þig, svo að ég fái bústað!"
21 Þá muntu segja í hjarta þínu: "Hver hefir alið mér þessi börn? Ég var barnlaus og óbyrja, útlæg og brottrekin. Og hver hefir fóstrað þessi börn? Sjá, ég var ein eftir skilin, hvernig stendur þá á börnum þessum?"
22 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Sjá, ég mun banda hendi minni til þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðina, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og dætur þínar bornar verða hingað á öxlinni.
23 Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona.
24 Hvort mun herfangið verða tekið af hinum sterka? Og munu bandingjar ofbeldismannsins fá komist undan?
25 Já, svo segir Drottinn: Bandingjarnir skulu teknir verða af hinum sterka og herfang ofbeldismannsins komast undan. Ég skal verja sök þína gegn sökunautum þínum, og sonu þína mun ég frelsa.
26 Ég mun láta kúgara þína eta eigið hold, og þeir skulu verða drukknir af eigin blóði, eins og af vínberjalegi. Allt hold mun þá komast að raun um, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og hinn voldugi Jakobs Guð, lausnari þinn.