Isaiah Jesaja
1 Vei þér, sem eyðir, og hefir þó sjálfur eigi fyrir eyðingu orðið, sem rænir, og hefir þó eigi rændur verið! Þegar þú hefir lokið eyðingunni, skalt þú fyrir eyðingu verða, þegar þú ert hættur að ræna, skalt þú rændur verða.
2 Drottinn, ver þú oss líknsamur! Vér vonum á þig. Ver þú styrkur vor á hverjum morgni og hjálpræði vort á neyðarinnar tíma.
3 Fyrir hinum dynjandi gný flýja þjóðirnar. Þegar þú rís upp, tvístrast heiðingjarnir.
4 Þá mun herfangi verða safnað, eins og þegar engisprettur eru að tína, menn munu stökkva á það, eins og þegar jarðvargar stökkva.
5 Hár er Drottinn, því að hann býr á hæðum, hann fyllir Síon réttindum og réttlæti.
6 Örugga tíma skalt þú hljóta, gæfufjársjóð átt þú í visku og þekkingu. Ótti Drottins er auður lýðsins.
7 Sjá, kapparnir kveina úti fyrir, friðarboðarnir gráta beisklega.
8 Þjóðvegirnir eru eyðilagðir, mannaferðir hættar. Menn rjúfa sáttmálann, fyrirlíta vitnin og virða náungann vettugi.
9 Landið sýtir og visnar, Líbanon blygðast sín og skrælnar, Saronsléttan er orðin eins og eyðimörk, Basan og Karmel fella laufið.
10 Nú vil ég upp rísa, segir Drottinn, nú vil ég láta til mín taka, nú vil ég hefjast handa.
11 Þér gangið með hey og alið hálm, andgustur yðar er eldur, sem eyða mun sjálfum yður.
12 Þjóðirnar munu brenndar verða að kalki, þær munu verða sem upphöggnir þyrnar, sem brenndir eru í eldi.
13 Heyrið, þér sem fjarlægir eruð, hvað ég hefi gjört, og sjáið, þér sem nálægir eruð, kraft minn!
14 Syndararnir í Síon eru hræddir, skelfing hefir gagntekið guðleysingjana: "Hver af oss má búa við eyðandi eld, hver af oss má búa við eilíft bál?"
15 Sá sem fram gengur réttvíslega og talar af hreinskilni, sá sem hafnar þeim ávinningi, sem fenginn er með ofríki, sá sem hristir mútugjafir af höndum sér, sá sem byrgir fyrir eyru sín til þess að heyra eigi morð ráðin, sá sem afturlykur augum sínum til þess að horfa eigi á það, sem illt er,
16 hann skal búa uppi á hæðunum. Hamraborgirnar skulu vera vígi hans, brauðið skal verða fært honum og vatnið handa honum skal eigi þverra.
17 Augu þín skulu sjá konunginn í ljóma sínum, þau skulu horfa á víðáttumikið land.
18 Hjarta þitt mun hugsa til skelfingartímans: Hvar er nú sá, er silfrið taldi? Hvar er sá, er vó það? Hvar er sá, sem taldi turnana?
19 Þú skalt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð, sem talar svo óglöggt mál, að ekki verður numið, og svo óskilmerkilega tungu, að enginn fær skilið.
20 Lít þú á Síon, borg samfunda vorra! Augu þín skulu horfa á Jerúsalem, bústaðinn örugga, tjaldið, sem eigi er flutt úr stað, hælum þess eigi kippt upp og ekkert af stögum þess slitið.
21 Nei, hinn máttki, Drottinn, er þar oss til varnar, eins og fljót og breið vatnsföll, þar sem engin róðrarskip geta gengið og engin tignarleg langskip um farið.
22 Drottinn er vor dómari, Drottinn er vor löggjafi, Drottinn er vor konungur, hann mun frelsa oss.
23 Stögin eru slök hjá þér, þau halda ekki siglunni í skorðum og geta eigi þanið út seglið. Þá skal mikilli bráð og herfangi skipt verða, jafnvel haltir menn skulu ræna.
24 Og enginn borgarbúi mun segja: "Ég er sjúkur." Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.