Deuteronomy Fimmta Mósebók
1 Þessi eru þau orð, er Móse talaði við allan Ísrael hinumegin Jórdanar í eyðimörkinni, á sléttlendinu gegnt Súf, á milli Paran, Tófel, Laban, Haserót og Dí-Sahab.
2 (Eru ellefu dagleiðir frá Hóreb til Kades Barnea, þegar farin er leiðin, sem liggur til Seírfjalla.)
3 Á fertugasta ári, á fyrsta degi hins ellefta mánaðar, birti Móse Ísraelsmönnum allt það, er Drottinn hafði boðið honum um þá,
4 eftir að hann hafði unnið á Síhon Amorítakonungi, sem hafði aðsetur í Hesbon, og Óg, konungi í Basan, sem hafði aðsetur í Astarót, hjá Edreí.
5 Hinumegin Jórdanar, í Móabslandi, tók Móse að skýra lögmál þetta og mælti:
6 Drottinn, Guð vor, talaði við oss á Hóreb á þessa leið: "Þér hafið nú dvalið nógu lengi á þessu fjalli.
7 Snúið á leið, leggið af stað og haldið til fjalllendis Amoríta og allra nábúa þeirra á sléttlendinu, í fjalllendinu, á láglendinu, í Suðurlandinu, á sjávarströndinni, inn í land Kanaaníta og til Líbanon, allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins.
8 Sjá, ég fæ yður landið. Farið og takið til eignar landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim og niðjum þeirra eftir þá."
9 Þá sagði ég við yður: "Ég rís ekki einn undir yður.
10 Drottinn, Guð yðar, hefir margfaldað yður, og sjá, þér eruð í dag að fjölda til sem stjörnur himins.
11 Drottinn, Guð feðra yðar, gjöri yður þúsund sinnum fleiri en þér eruð og blessi yður, eins og hann hefir heitið yður.
12 Hvernig fæ ég einn borið þyngslin af yður, þunga yðar og deilur yðar!
13 Veljið til vitra menn, skynsama og valinkunna af hverri kynkvísl yðar, og mun ég skipa þá höfðingja yfir yður."
14 Þá svöruðuð þér mér og sögðuð: "Það er vel til fallið að gjöra það, sem þú talar um."
15 Tók ég þá ætthöfðingja yðar, vitra menn og valinkunna, og skipaði þá höfðingja yfir yður, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu, og tilsjónarmenn meðal ættkvísla yðar.
16 Ég lagði þá svo fyrir dómendur yðar: "Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, hvort heldur mann greinir á við bróður sinn eða útlending, er hjá honum dvelur.
17 Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs. En ef eitthvert mál er yður ofvaxið, þá skjótið því til mín, og skal ég sinna því."
18 Þannig lagði ég þá fyrir yður allt það, er þér skylduð gjöra.
19 Því næst lögðum vér upp frá Hóreb og fórum yfir alla eyðimörkina miklu og hræðilegu, sem þér hafið séð, leiðina til fjalllendis Amoríta, eins og Drottinn Guð vor hafði fyrir oss lagt. Og vér komum til Kades Barnea.
20 Þá sagði ég við yður: "Þér eruð komnir að fjalllendi Amoríta, sem Drottinn, Guð vor, gefur oss.
21 Sjá, Drottinn Guð þinn hefir fengið þér landið. Far þú og tak það til eignar, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir boðið þér. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."
22 Þá genguð þér allir til mín og sögðuð: "Sendum menn á undan oss, að þeir megi kanna landið fyrir oss og færa oss fregnir af veginum, sem vér eigum að fara, og af borgunum, er vér munum koma til."
23 Mér féll þetta vel í geð, og tók ég tólf menn af yður, einn mann af ættkvísl hverri.
24 Og þeir fóru af stað og héldu norður til fjalla og komust í Eskóldal og könnuðu landið.
25 Tóku þeir með sér nokkuð af ávöxtum landsins og færðu oss. Og þeir fluttu oss fregnir og sögðu: "Gott er landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss."
26 En þér vilduð eigi fara þangað og óhlýðnuðust skipun Drottins, Guðs yðar.
27 Og þér mögluðuð í tjöldum yðar og sögðuð: "Af því að Drottinn hataði oss, hefir hann leitt oss burt af Egyptalandi til þess að selja oss í hendur Amorítum, svo að þeir eyði oss.
28 Hvert erum vér að fara? Bræður vorir hafa skelft hjörtu vor með því að segja: ,Fólkið er stærra og hærra að vexti en vér. Borgirnar eru stórar og víggirtar hátt í loft upp. Vér höfum meira að segja séð þar Anakíta.'"
29 Þá sagði ég við yður: "Látið eigi hugfallast og hræðist þá ekki.
30 Drottinn Guð yðar, sem fyrir yður fer, mun berjast fyrir yður, eins og hann hjálpaði yður bersýnilega í Egyptalandi
31 og á eyðimörkinni, þar sem þú sást, hvernig Drottinn, Guð þinn bar þig, eins og faðir ber barn sitt, alla þá leið, er þér hafið farið, þar til er þér komuð hingað."
32 En þrátt fyrir allt þetta vilduð þér ekki treysta Drottni Guði yðar,
33 sem gekk á undan yður á leiðinni til að leita upp tjaldstaði handa yður, á næturnar í eldi til þess að vísa yður veginn, sem þér ættuð að halda, en á daginn í skýi.
34 En er Drottinn heyrði umtölur yðar, varð hann reiður, sór og sagði:
35 "Sannlega skal enginn af þessum mönnum, af þessari illu kynslóð, fá að sjá landið góða, sem ég sór að gefa feðrum yðar,
36 nema Kaleb Jefúnneson, hann skal fá að sjá það. Honum mun ég gefa landið, sem hann hefir stigið fæti á, og sonum hans, sökum þess að hann hefir fylgt Drottni trúlega."
37 Drottinn reiddist mér einnig yðar vegna og sagði: "Þú skalt ekki heldur komast þangað.
38 Jósúa Núnsson, sem stendur fyrir augliti þínu, hann skal komast þangað. Tel þú hug í hann, því að hann mun úthluta því Ísrael til eignar.
39 Börn yðar, sem þér sögðuð að mundu verða fjandmönnunum að bráð, og synir yðar, sem í dag vita eigi grein góðs og ills, munu komast þangað. Þeim vil ég gefa það, og þeir skulu fá það til eignar.
40 En þér skuluð snúa á leið og halda inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins."
41 Þá svöruðuð þér og sögðuð við mig: "Vér höfum syndgað gegn Drottni. Vér viljum fara og berjast, eins og Drottinn Guð vor hefir boðið oss." Og þér gyrtuð yður, hver sínum hervopnum, og tölduð það hægðarleik að leggja upp á fjöllin.
42 Þá sagði Drottinn við mig: "Seg þeim: ,Þér skuluð eigi fara þangað og eigi berjast, því að ég er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar.'"
43 Og ég talaði til yðar, en þér gegnduð ekki, heldur óhlýðnuðust skipun Drottins og gjörðuð yður svo djarfa að leggja upp á fjöllin.
44 Fóru þá Amorítar, sem bjuggu á fjöllum þessum, í móti yður, eltu yður, eins og býflugur gjöra, og tvístruðu yður alla leið frá Seír til Horma.
45 Og þér hurfuð aftur og grétuð frammi fyrir Drottni, en Drottinn heyrði ekki bænir yðar og hlýddi ekki á yður.
46 Þannig hélduð þér kyrru fyrir í Kades langan tíma, eins langan tíma og þér dvölduð þar.