Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Deuteronomy Fimmta Mósebók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34

1 Heyr þú nú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég kenni yður, til þess að þér haldið þau, svo að þér megið lifa og komast inn í það land, sem Drottinn, Guð feðra yðar, gefur yður, og fá það til eignar.
2 Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið skipanir Drottins Guðs yðar, sem ég legg fyrir yður.
3 Þér hafið séð með eigin augum, hvað Drottinn gjörði sakir Baal Peór, því að öllum þeim mönnum, sem fylgdu Baal Peór, eyddi Drottinn Guð þinn úr samfélagi yðar.
4 En þér, sem hélduð yður fast við Drottin Guð yðar, lifið allir fram á þennan dag.
5 Sjá, ég hefi kennt yður lög og ákvæði, eins og Drottinn Guð minn lagði fyrir mig, til þess að þér breytið eftir þeim í því landi, sem þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar.
6 Varðveitið þau því og haldið þau, því að það mun koma á yður orði hjá öðrum þjóðum fyrir visku og skynsemi. Þegar þær heyra öll þessi lög, munu þær segja: "Það er vissulega viturt og skynsamt fólk, þessi mikla þjóð."
7 Því að hvaða stórþjóð er til, sem hafi guð, er henni sé eins nálægur eins og Drottinn Guð vor er oss, hvenær sem vér áköllum hann?
8 Og hver er sú stórþjóð, er hafi svo réttlát lög og ákvæði, eins og allt þetta lögmál er, sem ég legg fyrir yður í dag?
9 En vara þig og gæt vandlega sálar þinnar, að eigi gleymir þú þeim hlutum, sem þú hefir séð með eigin augum, og að það ekki líði þér úr minni alla ævidaga þína, og þú skalt gjöra þá kunna börnum þínum og barnabörnum.
10 Gleym þú eigi deginum, þegar þú stóðst frammi fyrir Drottni Guði þínum hjá Hóreb, og Drottinn sagði við mig: "Safna þú lýðnum saman fyrir mig. Ég ætla að láta þá heyra orð mín, svo að þeir læri að óttast mig alla þá daga, sem þeir lifa á jörðinni, og kenni það einnig börnum sínum."
11 Þér komuð þá fram og námuð staðar undir fjallinu, en fjallið logaði allt í eldi upp í háan himin. Fylgdi því myrkur, ský og sorti.
12 Og Drottinn talaði við yður út úr eldinum. Hljóm orðanna heyrðuð þér, en mynd sáuð þér enga, þér heyrðuð aðeins hljóminn.
13 Þá birti hann yður sáttmála sinn, sem hann bauð yður að halda, tíu boðorðin, og hann reit þau á tvær steintöflur.
14 Þá bauð Drottinn mér að kenna yður lög og ákvæði, svo að þér gætuð breytt eftir þeim í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar.
15 Gætið yðar því vandlega, líf yðar liggur við - því að þér sáuð enga mynd á þeim degi, þegar Drottinn talaði við yður hjá Hóreb út úr eldinum, -
16 að þér ekki mannspillið yður á því að búa yður til skurðgoð í mynd einhvers líkneskis, hvort heldur er í líki karls eða konu,
17 í líki einhvers ferfætlings, sem til er á jörðinni, í líki einhvers fleygs fugls, er flýgur í loftinu,
18 í líki einhvers dýrs, sem skríður á jörðinni, eða í líki einhvers fisks, sem til er í vötnunum undir jörðinni,
19 og að þú eigi, þegar þú lyftir augum þínum til himins og sér sólina, tunglið og stjörnurnar, allan himinsins her, látir tælast til þess að falla fram fyrir þeim og dýrka þau. Því að Drottinn Guð þinn hefir skipt þeim meðal allra þjóða undir himninum.
20 Yður hefir Drottinn tekið að sér og leitt yður út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, svo að þér skylduð verða eignarþjóð hans, sem og hefir verið til þessa.
21 Drottinn reiddist mér yðar vegna, svo að hann sór, að ég skyldi ekki komast yfir Jórdan og ekki komast inn í góða landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar,
22 heldur hlýt ég að deyja í þessu landi og fæ ekki að komast yfir Jórdan. En þér munuð komast yfir um og fá þetta góða land til eignar.
23 Gætið yðar, að þér gleymið ekki sáttmálanum, er Drottinn Guð yðar hefir við yður gjört, og búið yður ekki til skurðgoð í mynd einhvers þess, er Drottinn Guð þinn hefir bannað þér.
24 Því að Drottinn Guð þinn er eyðandi eldur, vandlátur Guð.
25 Þegar þér hafið getið börn og barnabörn, og hafið ílengst í landinu, - ef þér þá mannspillið yður á því að búa til skurðgoð í einhverri mynd og gjörið það, sem illt er í augum Drottins Guðs yðar, svo að þér egnið hann til reiði,
26 þá kveð ég í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að þá munuð þér brátt eyðast úr því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að fá það til eignar. Þér munuð þá eigi lifa þar mörg árin, heldur verða gjöreyddir.
27 Og Drottinn mun þá dreifa yður meðal þjóðanna, svo að af yður skal einungis eftir verða lítill hópur meðal heiðingja þeirra, er Drottinn leiðir yður burt til.
28 Þar munuð þér þjóna þeim guðum, sem eru handaverk manna, stokkar og steinar, sem eigi sjá og eigi heyra og eigi eta og eigi finna lykt.
29 Þar munt þú leita Drottins Guðs þíns, og þú munt finna hann, ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.
30 Þegar þú ert í nauðum staddur og allt þetta kemur yfir þig, þá munt þú, á komandi tímum, snúa þér til Drottins Guðs þíns og hlýða hans röddu.
31 Því að Drottinn Guð þinn er miskunnsamur Guð. Hann mun eigi yfirgefa þig né afmá þig, og hann mun eigi gleyma sáttmálanum, er hann sór feðrum þínum.
32 Spyr þig fyrir um fyrri tíma, sem verið hafa á undan þér, allt frá þeim tíma, er Guð skóp mennina á jörðinni, og frá einu heimsskauti til annars, hvort nokkurn tíma hafi orðið svo miklir hlutir eða nokkuð slíkt heyrst,
33 hvort nokkur þjóð hafi heyrt raust Guðs út úr eldinum, eins og þú hefir heyrt, og þó haldið lífi.
34 Eða hvort Guð hefir til reynt nokkurn tíma að koma sjálfur til þess að ná þjóð af annarri þjóð með máttarverkum, táknum og undrum, með styrjöld, sterkri hendi, útréttum armlegg og miklum skelfingum, eins og Drottinn Guð þinn gjörði við yður í Egyptalandi í augsýn þinni.
35 Þetta hefir þú fengið að sjá, svo að þú mættir vita, að Drottinn, hann er Guð, og enginn nema hann einn.
36 Af himni hefir hann látið þig heyra sína raust til þess að kenna þér, og á jörðu hefir hann látið þig sjá hinn mikla eld sinn, og þú hefir heyrt orð hans út úr eldinum.
37 Og fyrir því að hann elskaði feður þína og útvaldi niðja þeirra eftir þá og leiddi þig sjálfur af Egyptalandi með hinum mikla mætti sínum
38 til þess að stökkva burt undan þér þjóðum, sem eru stærri og sterkari en þú ert, en leiða þig þangað og gefa þér land þeirra til eignar, eins og nú er fram komið,
39 þá ber þér í dag að kannast við það og hugfesta það, að Drottinn, hann er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri og enginn annar.
40 Þú skalt varðveita boð hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, og til þess að þú alla daga megir dvelja langa ævi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
41 Þá skildi Móse frá þrjár borgir hinumegin Jórdanar, austanmegin,
42 til þess að þangað mætti flýja hver sá vegandi, er óviljandi hefði vegið náunga sinn og eigi verið óvinur hans áður - að hann mætti flýja í einhverja af borgum þessum og halda lífi:
43 Beser í eyðimörkinni á sléttlendinu handa Rúbenítum, Ramót í Gíleað handa Gaðítum og Gólan í Basan handa Manassítum.
44 Þetta er lögmálið, sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn.
45 Þetta eru fyrirmæli þau, lög og ákvæði, sem Móse birti Ísraelsmönnum, þá er þeir fóru af Egyptalandi,
46 hinumegin Jórdanar, í dalnum gegnt Bet Peór í landi Síhons Amorítakonungs, sem hafði aðsetur í Hesbon og Móse og Ísraelsmenn felldu, er þeir fóru af Egyptalandi.
47 Þeir lögðu undir sig land hans, svo og land Ógs, konungs í Basan, land Amorítakonunganna beggja, hinumegin Jórdanar, austanmegin,
48 frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, allt til Síón, það er Hermon,
49 og allt sléttlendið hinumegin Jórdanar, austanmegin, allt að vatninu á sléttlendinu undir Pisgahlíðum.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]