Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Deuteronomy Fimmta Mósebók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34

1 Ef maður gengur að eiga konu og samrekkir henni, en hún finnur síðan ekki náð í augum hans, af því að hann verður var við eitthvað viðbjóðslegt hjá henni, og hann skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur og lætur hana fara burt af heimili sínu, -
2 ef hún því næst, eftir að hún er farin burt af heimili hans, fer og giftist öðrum manni,
3 en þessi seinni maður leggur líka óvild á hana og skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur, og lætur hana fara burt af heimili sínu -, eða ef seinni maðurinn, sem kvæntist henni, deyr,
4 þá má ekki fyrri maður hennar, sá er við hana skildi, taka hana aftur sér að eiginkonu, eftir að hún er saurguð orðin, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni, og þú skalt eigi flekka landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.
5 Þegar maður er nýkvæntur, þá skal hann ekki fara í hernað og engar álögur skulu á hann lagðar. Hann skal vera frjáls maður fyrir heimili sitt eitt ár, svo að hann gleðji konu sína, er hann hefir gengið að eiga.
6 Eigi skal taka kvörn eða efri kvarnarstein að veði, því að það væri að taka líf mannsins að veði.
7 Ef maður verður uppvís að því að stela einhverjum af bræðrum sínum, einhverjum af Ísraelsmönnum, og hann fer með hann sem þræl eða selur hann, þá skal slíkur þjófur deyja. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
8 Gæt þín í líkþrárveikindum að athuga vandlega og fara eftir öllu því, sem levítaprestarnir tjá yður. Þér skuluð gæta þess að gjöra svo sem ég hefi fyrir þá lagt.
9 Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Mirjam á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi.
10 Þegar þú lánar náunga þínum eitthvað, hvað sem það svo er, þá skalt þú eigi ganga inn í hús hans til þess að taka veð af honum.
11 Þú skalt staðnæmast úti fyrir, og sá, er þú lánar, skal færa þér veðið út.
12 Og ef það er snauður maður, þá skalt þú ekki leggjast til hvíldar með veð hans,
13 heldur skalt þú skila honum aftur veðinu um sólarlagsbil, svo að hann geti lagst til hvíldar í yfirhöfn sinni og blessi þig, og það mun talið verða þér til réttlætis fyrir augliti Drottins Guðs þíns.
14 Þú skalt eigi beita fátækan og þurfandi daglaunamann ofríki, hvort sem hann er einn af bræðrum þínum eða útlendingum þeim, er dvelja í landi þínu innan borgarhliða þinna.
15 Þú skalt greiða honum kaup hans sama daginn, áður en sól sest, - því að hann er fátækur, og hann langar til að fá það -, svo að hann hrópi ekki til Drottins yfir þér og það verði þér til syndar.
16 Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum. Hver skal líflátinn verða fyrir sína eigin synd.
17 Þú skalt ekki halla rétti útlends manns eða munaðarleysingja. Þú skalt ekki taka fatnað ekkjunnar að veði.
18 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig þaðan. Fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.
19 Þegar þú sker upp korn á akri þínum og gleymir kornbundini úti á akrinum, þá skalt þú ekki snúa aftur til að sækja það. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.
20 Þegar þú slær ávexti af olíutrjám þínum, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit í greinum trjánna. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það.
21 Þegar þú tínir víngarð þinn, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það.
22 Þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]