Deuteronomy Fimmta Mósebók
1 Þessi eru orð sáttmálans, sem Drottinn bauð Móse að gjöra við Ísraelsmenn í Móabslandi, auk sáttmálans, sem hann gjörði við þá hjá Hóreb.
2 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Þér hafið séð allt það, sem Drottinn gjörði fyrir augum yðar í Egyptalandi við Faraó og alla þjóna hans og allt land hans,
3 hin miklu máttarverk, er þú hefir séð með eigin augum, hin miklu tákn og undur.
4 En allt fram á þennan dag hefir Drottinn ekki gefið yður hjarta til að skilja með, augu til að sjá eða eyru til að heyra.
5 Ég leiddi yður í fjörutíu ár um eyðimörkina. Föt yðar slitnuðu ekki á yður, og skór þínir slitnuðu ekki á fótum þér,
6 brauð átuð þér ekki, og vín eða áfengan drykk drukkuð þér ekki, til þess að þér mættuð skilja, að ég er Drottinn, Guð yðar.
7 Er þér komuð hingað, og Síhon, konungur í Hesbon, og Óg, konungur í Basan, fóru í móti oss til orustu, þá unnum vér sigur á þeim
8 og tókum land þeirra og gáfum það Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse til eignar.
9 Varðveitið því orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim, til þess að yður lánist vel allt, sem þér gjörið.
10 Þér standið í dag allir frammi fyrir Drottni, Guði yðar: höfuðsmenn yðar, ættkvíslir yðar, öldungar yðar, tilsjónarmenn yðar, allir karlmenn í Ísrael,
11 börn yðar og konur og útlendingar þínir, sem eru í herbúðum þínum, - bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar þínir -,
12 til þess að gangast undir sáttmála Drottins, Guðs þíns, og í eiðfest samfélag við hann, er Drottinn Guð þinn gjörir við þig í dag,
13 til þess að hann gjöri þig í dag að sínum lýð og hann sé þinn Guð, eins og hann hefir heitið þér og eins og hann hefir svarið feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob.
14 En ég gjöri ekki þennan sáttmála og þetta eiðfesta samfélag við yður eina,
15 heldur bæði við þá, sem standa hér með oss í dag frammi fyrir Drottni Guði vorum, og einnig við þá, sem ekki eru hér með oss í dag.
16 Þér vitið sjálfir, að vér bjuggum á Egyptalandi og hvernig vér komumst mitt í gegnum þær þjóðir, er þér urðuð að fara gegnum.
17 Og þér sáuð viðurstyggðir þeirra og skurðgoð þeirra úr tré og steinum, silfri og gulli, sem hjá þeim voru.
18 Aðeins að eigi sé meðal yðar karl eða kona eða heimili eða ættkvísl, sem í dag snúi hjarta sínu frá Drottni Guði vorum og gangi að dýrka guði þessara þjóða! Aðeins að eigi sé meðal yðar rót, sem beri eitur og malurt að ávexti! -
19 enginn sem telji sig sælan í hjarta sínu og segi, er hann heyrir orð þessa eiðfesta sáttmáls: "Mér mun vel farnast, þótt ég gangi fram í þrjósku hjarta míns." Slíkt mundi leiða til þess, að hið vökvaða yrði afmáð ásamt hinu þurra.
20 Drottinn mun eigi vilja fyrirgefa honum, heldur mun reiði Drottins og vandlæting þá bálast gegn slíkum manni, og öll bölvunin, sem rituð er í þessari bók, mun þá á honum hvíla, og Drottinn mun afmá nafn hans af jörðinni.
21 Og Drottinn mun skilja slíka ættkvísl úr öllum ættkvíslum Ísraels henni til glötunar, samkvæmt öllum bölvunum sáttmálans, sem ritaður er í þessari lögmálsbók.
22 Hin komandi kynslóð, börn yðar, sem upp munu vaxa eftir yður, og útlendir menn, sem koma munu af fjarlægu landi, munu segja, er þeir sjá plágur þær og sóttir, er Drottinn hefir lagt á land þetta, -
23 landið er allt orðið að brennisteini, salti og brunaskellum, þar verður eigi sáð og ekkert sprettur þar og engin jurt kemur þar upp úr jörðinni, en allt er umturnað eins og Sódóma og Gómorra, Adma og Sebóím, er Drottinn umturnaði í reiði sinni og heift -,
24 já, allar þjóðir munu segja: "Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þetta land? Hvernig stendur á þessari miklu ofsareiði?"
25 Þá munu menn svara: "Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs feðra sinna, sem hann gjörði við þá, er hann leiddi þá af Egyptalandi,
26 en gengu að dýrka aðra guði og falla fram fyrir þeim, guði, er þeir þekktu eigi og hann hafði eigi úthlutað þeim.
27 Fyrir því upptendraðist reiði Drottins gegn landi þessu, svo að hann lét yfir þá koma alla þá bölvun, sem rituð er í þessari bók.
28 Og Drottinn sleit þá upp úr landi þeirra í reiði og heift og mikilli gremju og þeytti þeim í annað land, og er svo enn í dag."
29 Hinir leyndu hlutir heyra Drottni Guði vorum, en það, sem opinberað er, heyrir oss og börnum vorum ævinlega, svo að vér megum breyta eftir öllum orðum lögmáls þessa.