Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

1 Kings Fyrri konungabók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22

1 Þegar drottningin í Saba spurði orðstír Salómons og orðróminn af húsinu, sem Salómon hafði reisa látið nafni Drottins, kom hún til þess að reyna hann með gátum.
2 Hún kom til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti, með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti.
3 En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn konungi, er hann eigi gæti úr leyst fyrir hana.
4 Og er drottningin frá Saba sá alla speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið,
5 matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin
6 og sagði við konung: "Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína.
7 En ég trúði ekki orðrómnum, fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn. Þú ert miklu vitrari og auðugri en ég hafði frétt.
8 Sælir eru menn þínir, sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína.
9 Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti Ísraels. Af því að Drottinn elskar Ísrael eilíflega, gjörði hann þig að konungi til að iðka rétt og réttlæti."
10 Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan hingað komið eins mikið af kryddjurtum eins og það, er drottningin frá Saba gaf Salómon konungi.
11 Sömuleiðis komu skip Hírams, er sóttu gull til Ófír, með afar mikið af rauðum sandelviði og gimsteinum frá Ófír.
12 Konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hefir aldrei slíkur sandelviður hingað komið eða sést hér fram á þennan dag.
13 Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess er hann gaf henni af sinni konunglegu rausn. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu.
14 Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd
15 auk þess, sem kom inn í tollum frá varningsmönnum og við verslun kaupmanna og frá öllum konungum Araba og jörlum landsins.
16 Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli - fóru sex hundruð siklar gulls í hvern skjöld -,
17 og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjár mínur gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið.
18 Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli.
19 Gengu sex þrep upp að hásætinu, og efst var hásætið kringlótt að aftan. Bríkur voru báðumegin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar.
20 Og tólf ljón stóðu á þrepunum, sex hvorumegin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki.
21 Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons.
22 Konungur hafði Tarsis-skip í förum með skipum Hírams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum.
23 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku.
24 Og allan heiminn fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst.
25 Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði og vopn, kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár.
26 Og Salómon safnaði vögnum og riddurum, og hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem.
27 Og konungur gjörði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.
28 Hesta sína fékk Salómon frá Egyptalandi, og sóttu kaupmenn konungs þá í hópum og guldu fé fyrir,
29 svo að hver vagn, sem fenginn var sunnan af Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs, en hver hestur hundrað og fimmtíu. Og á þennan hátt voru og hestar fluttir út fyrir milligöngu þeirra til allra konunga Hetíta og konunga Sýrlendinga.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]