Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

1 Kings Fyrri konungabók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22

1 Á átjánda ríkisári Jeróbóams Nebatssonar varð Abía konungur yfir Júda.
2 Þrjú ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka, dóttir Absalons.
3 Hann drýgði allar sömu syndirnar, er faðir hans hafði fyrir honum haft, og hjarta hans var ekki óskipt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs forföður hans.
4 Því að það var eingöngu Davíðs vegna, að Drottinn, Guð hans, gaf honum lampa í Jerúsalem, að hann hóf sonu hans eftir hann og lét Jerúsalem standa,
5 af því að Davíð hafði gjört það sem rétt var í augum Drottins og aldrei á ævi sinni vikið frá neinu því, er hann hafði fyrir hann lagt, nema hvernig hann fór með Úría Hetíta.
6 Rehabeam átti í ófriði við Jeróbóam alla ævi.
7 Það, sem meira er að segja um Abía, og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. Og þeir áttu í ófriði saman, Abía og Jeróbóam.
8 Og Abía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Davíðsborg. Og Asa sonur hans tók ríki eftir hann.
9 Á tuttugasta ríkisári Jeróbóams, konungs í Ísrael, varð Asa konungur yfir Júda.
10 Fjörutíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka, dóttir Absalons.
11 Asa gjörði það sem rétt var í augum Drottins, eins og Davíð forfaðir hans.
12 Hann rak þá menn úr landi, er helgað höfðu sig saurlifnaði, og útrýmdi öllum skurðgoðum, sem forfeður hans höfðu gjöra látið.
13 Hann svipti jafnvel Maöku móður sína drottningartigninni, fyrir það að hún hafði gjöra látið hræðilegt asérulíkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar og brenndi það í Kídrondal.
14 En hæðirnar voru ekki afnumdar. Þó var hjarta Asa óskipt gagnvart Drottni alla ævi hans.
15 Hann lét og flytja í hús Drottins helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar - silfur, gull og áhöld.
16 En þeir áttu ófrið saman alla ævi, Asa og Basa konungur í Ísrael.
17 Og Basa, konungur í Ísrael, fór herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi.
18 Þá tók Asa allt silfrið og gullið, sem enn var eftir í féhirslum húss Drottins, og fjársjóðu konungshallarinnar og seldi í hendur mönnum sínum. Síðan sendi Asa konungur þá til Benhadads Tabrimmonssonar, Hesíonssonar, konungs á Sýrlandi, er bjó í Damaskus, með þessa orðsending:
19 "Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér gjöf í silfri og gulli. Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér."
20 Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og vann Íjón og Dan og Abel-Bet-Maaka og allt Kinnerót, svo og allt Naftalí-land.
21 Þegar Basa spurði það, hætti hann að víggirða Rama og sneri heim til Tirsa.
22 En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum - enginn var undanskilinn. Og þeir fluttu burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti Asa konungur með þeim Geba í Benjamín og Mispa.
23 Það sem meira er að segja um Asa og hreystiverk hans og allt það, er hann gjörði, og borgirnar, sem hann víggirti, það er allt ritað í Árbókum Júdakonunga. Þó má geta þess, að á efri árum gjörðist hann fótaveikur.
24 Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs, forföður síns. Og Jósafat sonur hans tók ríki eftir hann.
25 Nadab, sonur Jeróbóams, varð konungur yfir Ísrael á öðru ríkisári Asa, konungs í Júda, og ríkti hann tvö ár yfir Ísrael.
26 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor föður síns og drýgði þær syndir, er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja.
27 En Basa, sonur Ahía af ætt Íssakars, hóf samsæri gegn honum og vann sigur á honum við Gibbeton, sem Filistar áttu. En Nadab og allur Ísrael sátu þá um Gibbeton.
28 Þannig drap Basa hann á þriðja ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann.
29 En er hann var konungur orðinn, drap hann alla ætt Jeróbóams. Hann lét engan eftir verða af konungsættinni, þann er anda dró, uns hann hafði gjöreytt henni, og rættist þannig orð Drottins, sem hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía frá Síló,
30 vegna synda Jeróbóams, þeirra er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja, er hann egndi Drottin, Guð Ísraels, til reiði.
31 Það sem meira er að segja um Nadab og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
32 En þeir áttu ófrið saman alla ævi, Asa og Basa, konungur í Ísrael.
33 Á þriðja ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Basa, sonur Ahía, konungur yfir öllum Ísrael, og ríkti hann tuttugu og fjögur ár í Tirsa.
34 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor Jeróbóams og drýgði þær syndir, er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]