Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

1 Kings Fyrri konungabók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22

1 Eftir þetta bar það til, er nú skal greina: Nabót Jesreelíti átti víngarð í Jesreel, rétt hjá höll Akabs konungs í Samaríu.
2 Og Akab kom að máli við Nabót og sagði: "Lát mig fá víngarð þinn, að ég megi hafa hann að matjurtagarði, því að hann er í nánd við hús mitt, og ég skal láta þig fá fyrir hann betri víngarð, eða, ef þú vilt það heldur, þá skal ég greiða þér andvirði hans í peningum."
3 En Nabót sagði við Akab: "Drottinn forði mér frá að farga til þín arfleifð feðra minna."
4 Þá kom Akab heim í höll sína, hryggur og reiður út af því, sem Nabót Jesreelíti hafði sagt við hann, er hann mælti: ,Ég farga ekki til þín arfleifð feðra minna.' Og hann lagðist í rekkju og sneri sér til veggjar og neytti eigi matar.
5 Þá kom Jesebel kona hans til hans og sagði við hann: "Hví ert þú svo hryggur í skapi, að þú vilt ekki matar neyta?"
6 Hann svaraði henni: "Komi ég að máli við Nabót Jesreelíta og segi við hann: ,Lát mig fá víngarð þinn fyrir peninga, eða, ef þú vilt það heldur, þá skal ég láta þig fá fyrir hann annan víngarð,' þá segir hann: ,Ég farga ekki víngarði mínum til þín.'"
7 Þá mælti Jesebel kona hans við hann: "Ert þú sá, sem nú hefir konungsvald í Ísrael? Rís þú upp, neyt matar og lát liggja vel á þér. Ég skal útvega þér víngarð Nabóts Jesreelíta."
8 Síðan skrifaði hún bréf undir nafni Akabs og innsiglaði það með innsigli hans og sendi bréfið til öldunga og tignarmanna borgar Nabóts, samborgarmanna hans.
9 En í bréfinu skrifaði hún á þessa leið: "Látið boða föstu og látið Nabót sitja efstan meðal fólksins,
10 og látið tvö varmenni sitja gegnt honum, er vitni gegn honum, og segi: ,Þú hefir lastmælt Guði og konunginum!' Leiðið hann síðan út og grýtið hann til bana."
11 Og samborgarmenn hans, öldungarnir og tignarmennirnir, sem bjuggu í borg hans, gjörðu eins og Jesebel hafði gjört þeim boð um, eins og skrifað var í bréfinu, sem hún hafði sent þeim.
12 Þeir létu boða föstu og létu Nabót sitja efstan meðal fólksins.
13 Síðan komu varmennin tvö og settust gegnt honum. Og varmennin vitnuðu gegn Nabót í áheyrn fólksins og sögðu: "Nabót hefir lastmælt Guði og konunginum." Og þeir leiddu hann út fyrir borgina og lömdu hann grjóti til bana.
14 Síðan sendu þeir til Jesebelar og létu segja: "Nabót var grýttur og er dauður."
15 Þegar Jesebel heyrði, að Nabót hefði grýttur verið og væri dauður, þá sagði hún við Akab: "Rís nú á fætur og kasta eign þinni á víngarð Nabóts Jesreelíta, sem hann vildi eigi láta falan við þig fyrir peninga, því að Nabót er nú ekki á lífi, heldur er hann dauður."
16 Og er Akab heyrði, að Nabót væri dauður, reis hann á fætur og fór ofan í víngarð Nabóts Jesreelíta til þess að kasta á hann eign sinni.
17 En orð Drottins kom til Elía Tisbíta, svolátandi:
18 "Tak þú þig upp, far ofan eftir, til fundar við Akab Ísraelskonung, sem býr í Samaríu. Hann er nú í víngarði Nabóts. Er hann farinn þangað ofan til þess að kasta á hann eign sinni.
19 Mæl þú til hans á þessa leið: ,Svo segir Drottinn: Hefir þú myrt og líka tekið eignina?' Og mæl enn fremur til hans: ,Svo segir Drottinn: Þar sem hundarnir sleiktu blóð Nabóts, þar skulu og hundar sleikja þitt blóð.'"
20 Og Akab sagði við Elía: "Hefir þú fundið mig, fjandmaður minn?" Hann svaraði: "Hefi ég víst. Af því að þú hefir ofurselt þig til að gjöra það, sem illt er í augum Drottins,
21 þá leiði ég ógæfu yfir þig og sópa þér burt og uppræti hvern karlmann af ætt Akabs, bæði þræl og frelsingja í Ísrael.
22 Og ég mun fara með ætt þína eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar vegna reiði þeirrar, er þú hefir egnt mig til, og af því að þú hefir komið Ísrael til að syndga."
23 Og einnig um Jesebel talaði Drottinn á þessa leið: "Hundar skulu eta Jesebel hjá Jesreelmúrum.
24 Hvern þann, er deyr af Akabsætt innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta."
25 Alls enginn hefir verið, er ofurselt hafi sig, eins og Akab, til að gjöra það sem illt var í augum Drottins, og ginnti Jesebel kona hans hann til þess.
26 Og hann breytti mjög svívirðilega með því að elta skurðgoðin, alveg eins og Amorítar gjörðu, þeir er Drottinn stökkti burt undan Ísraelsmönnum.
27 En er Akab heyrði þessi orð, reif hann klæði sín og lagði hærusekk á bert hold sitt og fastaði. Og hann svaf í hærusekknum og gekk hljóðlega.
28 Þá kom orð Drottins til Elía Tisbíta, svolátandi:
29 "Hefir þú séð, hversu Akab lægir sig fyrir mér? Af því að hann hefir lægt sig fyrir mér, mun ég eigi leiða ógæfuna yfir meðan hann lifir, en á dögum sonar hans mun ég leiða ógæfuna yfir ætt hans."

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]