1 Kings Fyrri konungabók
1 Í þann tíma sýktist Abía, sonur Jeróbóams.
2 Þá sagði Jeróbóam við konu sína: "Far nú og klæð þig dularbúningi, svo að enginn megi kenna, að þú ert kona Jeróbóams, og far til Síló. Þar er Ahía spámaður, sá er um mig sagði, að ég mundi verða konungur yfir lýð þessum.
3 Og tak með þér tíu brauð og kökur og krús með hunangi og gakk þú inn til hans. Hann mun segja þér, hvernig fara mun um sveininn."
4 Kona Jeróbóams gjörði svo, lagði af stað og fór til Síló, og gekk inn í hús Ahía. Ahía mátti ekki sjá, því að augu hans voru stirðnuð af elli.
5 En Drottinn hafði sagt við Ahía: "Sjá, kona Jeróbóams kemur til þess að leita frétta hjá þér um son sinn, því að hann er sjúkur. Svo og svo skalt þú til hennar mæla." Þegar hún kom og lést vera önnur en hún var,
6 og Ahía heyrði fótatak hennar, er hún kom að dyrunum, þá sagði hann: "Kom þú inn, kona Jeróbóams! Hvers vegna læst þú vera önnur en þú ert, þar sem ég þó er sendur til þín með hörð tíðindi?
7 Far þú og seg Jeróbóam: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sakir þess að ég hóf þig upp af alþýðu manna og gjörði þig að höfðingja yfir lýð mínum Ísrael,
8 og svipti ætt Davíðs konungdóminum og fékk þér hann í hendur, en þú hefir eigi verið sem þjónn minn Davíð, er hélt boðorð mín og var mér hlýðinn af öllu hjarta, svo að hann gjörði það eitt, er rétt var í mínum augum,
9 heldur hefir þú gjört meira illt en allir þeir, sem á undan þér voru, og hefir farið og gjört þér aðra guði, og það steypt líkneski, til þess að egna mig til reiði, og hefir kastað mér aftur fyrir þig -
10 sakir þessa leiði ég ógæfu yfir hús Jeróbóams og mun uppræta fyrir honum hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. Og ég mun sópa burt húsi Jeróbóams, eins og saur er sópað burt, uns úti er um hann með öllu.
11 Hvern þann er deyr af ættmennum Jeróbóams innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta, því að Drottinn hefir talað það.
12 En statt þú nú upp og far heim til þín. Þegar þú stígur fæti inn í borgina, mun sveinninn deyja.
13 Og allur Ísrael mun harma hann, og menn munu grafa hann, því að hann er sá eini af ætt Jeróbóams, er greftrun mun hljóta, af því að eitthvað hefir það verið í fari hans, er Drottni, Guði Ísraels, geðjaðist að í ætt Jeróbóams.
14 Og Drottinn mun skipa konung yfir Ísrael, er uppræta mun hús Jeróbóams. Þetta er dagurinn, og hvað er nú þegar farið að koma fram?
15 Drottinn mun slá Ísrael, eins og reyrinn riðar í vatninu, og hann mun útrýma Ísrael úr þessu góða landi, er hann gaf feðrum þeirra, og tvístra þeim fyrir austan Efrat, af því að þeir hafa gjört sér asérur og egnt Drottin til reiði.
16 Og hann mun ofurselja Ísrael vegna synda þeirra, er Jeróbóam hefir drýgt og komið Ísrael til að drýgja."
17 Þá stóð kona Jeróbóams upp, hélt af stað og kom til Tirsa, en er hún steig yfir þröskuld hússins, dó sveinninn.
18 Og þeir grófu hann og allur Ísrael harmaði hann, og rættist þannig orð Drottins, er hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía spámanns.
19 Það sem meira er að segja um Jeróbóam, hvernig hann herjaði og hvernig hann ríkti, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
20 Og sá tími, sem Jeróbóam ríkti, var tuttugu og tvö ár. Þá lagðist hann til hvíldar hjá feðrum sínum, en Nadab sonur hans tók ríki eftir hann.
21 Rehabeam sonur Salómons varð konungur í Júda. Rehabeam hafði einn um fertugt, þá er hann varð konungur, og seytján ár ríkti hann í Jerúsalem, borginni, sem Drottinn hafði útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. Móðir hans hét Naama og var ammónítísk.
22 Júda gjörði það sem illt var í augum Drottins, og þeir vöktu vandlæting hans enn meir en feður þeirra höfðu gjört með öllum þeim syndum, er þeir drýgðu.
23 Því að einnig þeir gjörðu sér fórnarhæðir, merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré.
24 Þeir menn voru og í landinu, er helguðu sig saurlifnaði. Þeir aðhöfðust alla þá sömu svívirðing, sem þær þjóðir frömdu, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.
25 Á fimmta ríkisári Rehabeams fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem
26 og tók fjársjóðu Drottins húss og fjársjóðu konungshallarinnar, tók það allt saman. Hann tók og alla gullskildina, sem Salómon hafði gjöra látið.
27 En Rehabeam konungur lét í þeirra stað gjöra eirskildi og fékk þá höfuðsmönnum lífvarðarins til geymslu, þeim er geyma dyra á höll konungs.
28 Og í hvert sinn er konungur gekk í hús Drottins, báru varðliðsmennirnir skildina, og fóru síðan með þá aftur í herbergi varðliðsmannanna.
29 Það sem meira er að segja um Rehabeam, og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
30 Þeir áttu ávallt í ófriði saman, Rehabeam og Jeróbóam.
31 Og Rehabeam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður hjá feðrum sínum í Davíðsborg. En móðir hans hét Naama og var ammónítísk. Og Abía sonur hans tók ríki eftir hann.