Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

2 Chronicles Síðari kroníkubók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36

1 Svo bar til eftir þetta, að Móabítar og Ammónítar og nokkrir af Meúnítum með þeim fóru á móti Jósafat til bardaga.
2 Og menn komu og fluttu Jósafat svolátandi tíðindi: "Afar mikill mannfjöldi kemur á móti þér handan yfir hafið, frá Edóm, og eru þeir þegar í Haseson Tamar, það er Engedí."
3 Þá varð Jósafat hræddur og tók að leita Drottins, og lét boða föstu um allan Júda.
4 Þá söfnuðust Júdamenn saman til þess að leita Drottins. Komu menn einnig úr öllum Júdaborgum til þess að leita Drottins.
5 En Jósafat gekk fram í söfnuði Júda og Jerúsalem, í musteri Drottins, úti fyrir nýja forgarðinum
6 og mælti: "Drottinn, Guð feðra vorra! Þú ert Guð á himnum, þú drottnar yfir öllum ríkjum heiðingjanna. Í þinni hendi er máttur og megin, og fyrir þér fær enginn staðist.
7 Þú hefir, Guð vor, stökkt íbúum lands þessa undan lýð þínum Ísrael og gefið það niðjum Abrahams vinar þíns um aldur og ævi.
8 Og þeir settust þar að og byggðu þér þar helgidóm, þínu nafni, og mæltu:
9 ,Ef ógæfa dynur yfir oss, ófriður, refsidómur, drepsótt eða hallæri, þá munum vér ganga fram fyrir þetta hús og fram fyrir þig, því að þitt nafn býr í húsi þessu, og vér munum hrópa til þín í nauðum vorum, að þú megir heyra og hjálpa.'
10 Og sjá, hér eru nú Ammónítar og Móabítar og Seírfjalla-búar. Meðal þeirra leyfðir þú eigi Ísraelsmönnum að koma, þá er þeir komu frá Egyptalandi, heldur hörfuðu þeir frá þeim og eyddu þeim eigi.
11 Og nú launa þeir oss og koma til þess að hrekja oss frá óðali þínu, er þú hefir veitt oss til eignar.
12 Guð vor, munt þú eigi láta dóm yfir þá ganga? Því að vér erum máttvana gagnvart þessum mikla mannfjölda, er kemur í móti oss. Vér vitum eigi, hvað vér eigum að gjöra, heldur mæna augu vor til þín."
13 En allir Júdamenn stóðu frammi fyrir Drottni, ásamt ungbörnum þeirra, konum og sonum.
14 Þá kom andi Drottins yfir Jehasíel Sakaríason, Benajasonar, Jeíelssonar, Mattanjasonar, levíta af Asafsniðjum, þar í söfnuðinum
15 og hann mælti: "Hlýðið á allir Júdamenn og Jerúsalembúar og þú Jósafat konungur: Svo segir Drottinn við yður: Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda, því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði.
16 Farið í móti þeim á morgun. Þeir munu halda upp Sís-stíginn, og þér munuð mæta þeim í dalbotninum austan við Jerúel-eyðimörk.
17 En eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins við yður, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og Drottinn mun vera með yður."
18 Þá laut Jósafat fram á ásjónu sína til jarðar, og allir Júdamenn og Jerúsalembúar féllu fram fyrir Drottin til þess að tilbiðja Drottin.
19 Síðan stóðu upp levítarnir, er voru af Kahatítaniðjum og Kóraítaniðjum, til þess að lofa Drottin, Guð Ísraels, með afar hárri röddu.
20 Og næsta morgun tóku þeir sig upp í býtið og fóru til Tekóa-eyðimerkur, og er þeir fóru út, gekk Jósafat fram og mælti: "Heyrið mig, þér Júdamenn og Jerúsalembúar! Treystið Drottni, Guði yðar, þá munuð þér fá staðist, trúið spámönnum hans, þá munuð þér giftudrjúgir verða!"
21 Síðan réðst hann um við lýðinn og skipaði söngvara Drottni til handa, að þeir skyldu hefja lofsöngva í helgum skrúða, þá er þeir færu út á undan hermönnunum, og segja: "Lofið Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu."
22 En er þeir hófu fagnaðarópið og lofsönginn, setti Drottinn launsátur móti Ammónítum, Móabítum og Seírfjalla-búum, er fóru í móti Júda, og þeir biðu ósigur.
23 Ammónítar og Móabítar hófust gegn Seírfjalla-búum til þess að gjöreyða þeim og tortíma, og er þeir höfðu gjörsigrað Seírbúa, þá hjálpuðu þeir til að tortíma hver öðrum.
24 Og er Júdamenn komu á hæðina, þaðan er sjá mátti yfir eyðimörkina, og lituðust um eftir mannfjöldanum, sjá, þá voru þeir hnignir dauðir til jarðar, og enginn hafði undan komist.
25 En Jósafat kom með mönnum sínum til þess að taka af þeim herfang. Fundu þeir afar mikið af fénaði og munum og klæðum og dýrum áhöldum og rændu handa sér svo miklu, að þeir gátu eigi borið. Og þeir voru þrjá daga að taka af þeim herfang, því að mikið var af því.
26 En á fjórða degi söfnuðust þeir saman í Lofgjörðardal, því að þar lofuðu þeir Drottin. Fyrir því heitir sá staður Lofgjörðardalur fram á þennan dag.
27 Síðan sneru allir Júdamenn og Jerúsalembúar, og Jósafat fremstur í flokki, með fögnuði á leið til Jerúsalem, því að Drottinn hafði veitt þeim fögnuð yfir óvinum þeirra.
28 Og þeir héldu inn í Jerúsalem, í hús Drottins, með hörpum, gígjum og lúðrum.
29 En ótti við Guð kom yfir öll heiðnu ríkin, er menn fréttu, að Drottinn hefði barist við óvini Ísraels.
30 Og friður var í ríki Jósafats, og Guð hans veitti honum frið allt um kring.
31 Og Jósafat ríkti yfir Júda. Hann var þrjátíu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og tuttugu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Sílhídóttir.
32 Hann fetaði í fótspor Asa föður síns og veik eigi frá þeim, með því að hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins.
33 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar, og enn þá sneri lýðurinn eigi hjörtum sínum til Guðs feðra þeirra.
34 Það sem meira er að segja um Jósafat, er frá upphafi til enda ritað í Sögu Jehú Hananísonar, sem tekin er upp í bók Ísraelskonunga.
35 Eftir þetta gjörði Jósafat Júdakonungur samband við Ahasía Ísraelskonung. Hann breytti óguðlega.
36 En Jósafat gjörði samband við hann til þess að gjöra skip, er færu til Tarsis, og þeir gjörðu skip í Esjón Geber.
37 Þá spáði Elíesar Dódavahúson frá Maresa gegn Jósafat og mælti: "Sakir þess að þú gjörðir samband við Ahasía, ónýtir Drottinn fyrirtæki þitt." Og skipin brotnuðu og gátu eigi farið til Tarsis.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]